Ég var að þvælast um á netinu í gær og skoða þau aprílgöbb sem að netmiðlarnir voru að bjóða uppá.

Vísir.is var með mjög gott gabb. Þeir voru að bjóða uppá 10 fríar ferðir fyrir heppna einstaklinga með enskri ferðaskrifstofu sem er að fara að hefja starfsemi hér á landi. Það eina sem að fólk þurfti að gera var að skrá sig á netinu og velja síðan ferð sem því hentaði. Einstaklega vel heppnað og skemmtilegt aprílgabb.

Á MBL.IS varð ég ekki var við neitt Aprílgabb. Annað hvort er ég svona blindur eða þeir á MBL hreinlega gleymdu því að það var 1.apríl í gær.

Reykjavík.com var að skrá fólk á gestalista á myndlistasýningu þar sem talið var nær öruggt að meistari Bowie myndi láta sjá sig.

En án efa var besta gabbið (ef svo skildi kalla) hjá RSK.IS þar sem að flestir sem ætluðu að skila framtali í gær fengu þau skemmtilegu skilaboð að netframtalið lægi niðri tímabundið (þar til í morgun). Reyndar kom síðan tilkynning í morgun að framtalsfrestur hafi verið lengdur á netframtölum til 7.apríl. Ég var reyndar farinn að hugsa að skatturinn væri kannski kominn með smá húmor og væri að leika þennan stórskemmtilega grikk á landsmenn. Það er reyndar hugsanlegt að það hafi verið raunin en þegar þeir urðu varir við viðbrögðin þá var um að gera að skella skuldini á vélarbilun.

Ef að þið urðuð vör við einhver skemmtileg aprílgöbb þá endilega látið vita af þeim.

Bestu kveðjur,

Xavier

P.S. Stórkostleg veðurspá í gær á Stöð 2. Í reykjavík í dag á að vera 23 stiga hiti og sól… Velkominn til Spánar kæru farþegar.