Aðstaða blaðbera Ég hafði upphaflega ætlað mér að birta þetta mál á Nöldurkorkinum, en þetta varð bara
svo langt að mér fannst nú alveg rétt að láta umsjónarmann Deiglunnar skera úr um
hvort þetta væri ekki greinarhæft.

nb: Þetta er tekið af blogginu mínu, http://einaraxel.blogspot.com

————–

Eins og unglingum er von og vísa hef ég reynt á margan hátt að næla mér í smá
aukapening í sumar og ein leið sem ég hef farið er sú að bera út blöðin, í afleysingum
og í föstum útburði, hjá bæði Mogganum og Fréttablaðinu.

Það er margt sem má bæta af hálfu bæði vinnuveitenda og viðtakenda efnisins
varðandi það að gera blaðberum lífið léttara.

Fyrsta hverfið sem ég bar eitthvað út í voru Hvammarnir í Kópavogi. Það hverfi er alveg
afskaplega leiðinlegt fyrir blaðbera og ástæðurnar eru eftirfarandi.

Í fyrsta lagi eru tvíbýli, þríbíli og jafnvel fjórbýli(er það orð?) ekki óalgeng sjón í
Hvömmunum. Þá oftar en ekki gerist blaðbera/bréfbera sem á erindi í einhverja aðra af
þessum dyrum en aðaldyrnar þörf til að hefja leit að viðkomandi dyrum áður en
ætlunarverki hans, að flytja íbúanum sem býr að baki þessara dyra eitt eða annað blað
eða bréf, getur verið framfylgt. Þetta getur kostað blaðberann einhverjar mínútur, og
sé þetta að koma fyrir á mörgum stöðum getur blaðberinn verið talsvert lengur að bera
út en ella. Þetta getur þýtt hálftíma til klukkutíma minni svefn fyrir blaðberann.

Annað fer líka í taugarnar á mér sem blaðbera, og það er þegar arkítektarnir finna hjá
sér þessa óskaplegu þörf að láta fólk fara upp stiga áður en það kemur inn til sín, og
þar með þarf að sjálfsögðu blaðberinn að gera slíkt hið sama. Þetta kemur fyrir í alls
kyns raðhúsum(þá helst þessi undarlega blanda af tvíbýlishúsi, fjölbýlishúsi og
raðhúsi) og blokkum. Ég ber út í eina blokk sem er eins og venjulegar íbúðarblokkir að
flestu leyti, nema helst því að stigagangurinn er á einhvern undarlegan hátt að
utanverðu, sem sparar verktakanum kostnað í glugga, forstofu, hurð og ýmislegt
annað sem fylgir yfirleitt blokkaríbúðum. Þetta er allt gott og blessað nema þá helst
fyrir að að sjálfsögðu spara þeir sér póstkassana líka. Í staðinn er dyralúga á hverri
einustu af þessum 8 íbúðum og þar með þarf ég að príla alla leið upp á 3. hæð, og þarf
að eyða margfalt meiri tíma í þetta en annars.

Ýmislegt annað getur verið hvimleitt, s.s. lóðréttar dyralúgur, að þurfa að ganga yfir
gras (maður blotnar svo í fæturna í dögginni), lausir hundar innan við hurðina (þeir
eiga það til að brjálast og gelta eins og óðir hundar og glefsa í blaðið um leið og það
gægist út um hina hlið hurðarinnar, það gæti kostað mann fingur)

Mér finnst að vinnuveitendur sendla hvers kyns eigi að setja reglur sem segja til um að
fólk gæti átt það á hættu að berast ekki blaðið, nú, eða hver sem sendingin er, ef það
geri ekki ákveðna hluti til að auðvelda sendlunum aðgengi.

Vinnuveitendum er líka oft ábótavant í þessum efnum, sérstaklega þó Fréttablaðinu, en
fyrir þá sem ekki vita er dreifingin oft til skammar þar, þrátt fyrir gott og vel ritstýrt
blað.

Ég ber út um helgar og stundum í afleysingum hjá Fréttablaðinu, og hef gert síðan í
Desember síðastliðnum.

Þetta byrjaði þannig hjá mér að fyrsta daginn barst mér bara blaðapakkinn, alveg án
tösku eða kerru. Ég gríp einhverja íþróttatösku sem ég finn inn í skáp og treð
blöðunum þar í áður en ég fer að bera fjandann út. Þetta eru rúm 90 blöð og því
stundum þungt á öxlina. Ég hringi eftir á og heimta að fá tösku, ég ber út næsta dag
með sama hætti og hringi svo aftur.

Næstu helgi berst mér loks kerra, en er þessi kerra eins góð og Moggakerrurnar? Nei,
svo sannarlega ekki. Þessi kerra er svo ryðguð að ég get ekki stillt stærðina lengur,
skrúfurnar eru ryðgaðar fastar. Taskan er aðeins ein, þrátt fyrir að pláss sé fyrir tvær.
Enginn púði eða þvíumlíkt er á handfanginu. Taskan er svo lítil að maður verður að
stafla blöðunum lárétt og fleira í þessum dúr.

Annað er að nýlega barst mér smávegis uppbót fyrir að ég hef verið að leysa af fyrir þá,
var þar í umslagi sem mér barst í pósti boðsmiði á söngleikinn Fame á fimmtudegi. Það
er allt gott og blessað, nema það að hann er bara fyrir einn, og ekki nóg með það,
heldur er hann með merktum sætum, svo að það er líklega ómögulegt að fá annað sæti
við hliðina.

Eitt uppátæki þykir mér þó skemmtilegt. Það var þegar bréfberar Fréttablaðsins sem
voru kvartanalausir í febrúarmánuði fengu bíókort svokallað. Þ.e. 5 frímiðar í bíó hvar
sem er, hvenær sem er. Þeir mættu gera þetta aftur, það var raunverulegur hvati til að
reyna að standa sig. Það finnst öllum gaman að fara ókeypis í bíó.

Þar fyrir utan borgar Fréttablaðið held ég talsvert minna en Mogginn, og það þó að
blöðin séu fleiri.

Ég hvet aðstandendur Fréttablaðsins og húseigendur jafnframt til að reyna að bæta sig
í þessum efnum.
(\_/)