Heimilisofbeldi er annað mjög alvarlegt vandamál í okkar samfélagi. Ætli nokkrum manni dytti í hug að setja upp myndavélar á hverju einasta heimili til þess að auðvelda lögreglunni að gæta öryggis borgaranna og uppræta þá meinsemd sem heimilisofbeldi er? Hvað með misnotkun á börnum. Ég leyfi mér að fullyrða að öllu andlega heilbrigðu fólki bjóði við misnotkun barna. En helgar tilgangurinn meðalið? Myndi nokkrum manni detta í hug að það væri sniðugt eða réttlætanlegt að veita lögreglunni leyfi til þess að setja upp upptöku- og eftirlitsbúnað inni í svefnherbergjum barna sem og annars staðar inni á heimilum til þess að útrýma misnotkun barna? Ég er efins.
Að sjálfsögðu eru dauðsföll í umferðinni alvarlegt mál og okkur ber að gera það sem við getum til þess að draga úr tíðni þeirra. Beinast liggur við að ná niður hraðanum og til þess mætti lögreglan vera sýnilegri í umferðinni. En það er fulllangt gengið að skrá niður ferðir og aksturslag hvers einasta manns. Tilgangurinn helgar ekki meðalið. Ef Böðvar Bragason hefur yfirleitt gert sér fyllilega grein fyrir hvað hann var að segja, þá held ég að við verðum að líta á stórabróðurstillögu hans sem þreytulegt örvæntingaróp manns sem orðinn er svekktur og langþreyttur, jafnvel uppgefinn, á að fást við þennan vanda án sýnilegs árangurs. En að taka þessa hugmynd alvarlega? Nei, það er af og frá.
___________________________________