Hugsaðu þér ef fólk á 19. öldinni hefði hugsað eins og þú; að það skipti engu máli að græða og fá aukinn vöxt í hagkerfið? Þá værum við pottþétt enn í sömu stöðu og fólk var þá. Og trúðu mér, þú vilt pottþétt ekki skipta á því þjóðfélagi sem við lifum við nú til dags og á því sem var á 19. öldinni.
Annars er sú staðhæfing alveg út úr kú að lyfjafyrirtæki setji ekki lyf á markað sem þau hafa þegar fundið upp nema þau nái að græða nóg á þeim. Það er nefnilega svo að framleiðslukostnaður við lyf er svo til enginn. Aðal kostnaðarliðurinn er þróunarkostnaður við lyfin og svo kostar umtalsvert að fá lyf viðurkennd af stjórnvöldum og setja þau á markað.
Hinsvegar er það svo að fyrirtæki vilja ekki eyða peningum í að finna upp lyf sem þau myndu ekki græða á. Þau eyða t.d. ekkert miklum peningum í rannsóknir á lækningum við sjúkdómum sem aðallega hrjá fólk í þriðja heiminum því það fólk á eðlilega ekki mikinn pening til að eyða í lyf. Það kostar venjulega yfir 100 milljarða króna að finna upp ný lyf. Ætlastu virkilega til þess að eitthvert fyrirtæki eyði þvílíkum fjárhæðum í að finna upp lyf þegar þau ná ekki einu sinni að selja upp í kostnað?
Er ekki allt eins eðlilegt að ÞÚ eyðir þínum peningum í að finna upp slík lyf? Afhverju eiga alltaf einhverjir aðrir en þú að gera allt? Ef þú hefur raunverulegar áhyggjur af öðru fólki væri afar einfalt fyrir þig að fá þér aðeins ódýrari föt, fara sjaldnar í bíó og eyða minni peningi í skyndibita, nammi og gos. Þú hefðir þá kannski nokkra þúsundkalla á mánuði sem þú gætir notað til að styrkja t.d. Rauða Krossinn, Krabbameinsfélagið (þeir stunda rannsóknir) eða rannsóknir á alnæmi (t.d. hér:
http://www.projinf.org/ )
Hugsaðu um þetta; afhverju ert þú eitthvað meira stikkfrír heldur en allir aðrir? Ekki gagnrýna aðra nema þú gerir eins og þú sjálfur predikar!
Annars er það svo að fjöldamargar ríkisstjórnir, samtök og fjársterkir einstaklingar og fyrirtæki veita miklum (en ekki nógu miklum þó) fjárhæðum í rannsóknir á lyfjum sem munu koma 3ja heiminum vel, s.s. rannsóknir á alnæmi.
Í sambandi við það þegar framleiðsla er flutt til 3ja heims landa að þá skalt þú vinsamlegast svara þessu: á fólk á vesturlöndum einhvern meiri rétt á vinnu og peningum heldur en fólk í 3ja heiminum? Það er nefnilega svo að þegar framleiðsla er flutt til fátækari landa græða flestallir. Í fyrsta lagi fær fólk í 3ja heiminum störf sem eru venjulega betur launuð heldur en t.d. störf í landbúnaði (Nike borgar t.d. vel m/v aðra atvinnurekendur). Í öðru lagi græðir almenningur á vesturlöndum því minni framleiðslukostnaður skilar sér almennt í lægra vöruverði og loks græða eigendur fyrirtækjanna. Og við skulum ekki gleyma því hverjir eiga fyrirtækin. Stærstu eigendur fyrirtækja eru einfaldlega venjulegt fólk, rétt eins og þú og ég. Til dæmis borga allir á Íslandi milli 10% og 20% af laununum sínum í lífeyrissjóði sem aftur fjárfesta í alls kyns fyrirtækjum, íslenskum sem erlendum. Ég held það kæmu nú einhverjar mótbárur frá íslenskum almenningi ef lífeyrissjóðirnir ákvæðu allt í einu að eyða kannski 10 milljörðum í “góð málefni”!
Almenningi er hinsvegar frjálst að gefa eigin peninga eða vinnu í góð málefni en það segir kannski allt sem segja þarf um eðli mannsins að fólk er velflest ekkert voðalega tilbúið til þess.
Í sambandi við það að hagvöxtur í heiminum byggist á sköttum að þá er það einfaldlega rangt! Hagvöxtur í heiminum byggist nefnilega upp á því að einstaklingar og fyrirtæki finni upp betri og ódýrari leiðir til að gera alla mögulega hluti. Hugsum okkur til dæmis bónda sem yrkir jörðina með gamla laginu. Hann notar orf og ljá og plægir jörðina með handafli eða notar kannski hest til þess. Ímyndum okkur nú að honum bjóðist að kaupa dráttarvél á einhverjar milljónir. Hann sér fram á það að með því að kaupa dráttarvélina geti hann aukið uppskeruna þónokkuð og að auki þurfi hann ekki jafn mikinn mannskap í vinnu. Hann kemst því að þeirri niðurstöðu að hann muni græða meira á því að kaupa dráttarvélina og geti þar að auki selt framleiðsluna sína ódýrar. Þar að auki getur það fólk sem áður vann hjá bóndanum nú fundið sér ný og hagkvæmari störf. Það getur unnið við fiskveiðar, verslunarstörf o.s.frv. og það skapar verðmæti sem ananrs hefðu ekki komið til því þetta fólk hefði verið upptekið við t.d. að plægja akur. Þetta er eitt dæmi um hagvöxt og raunhæft dæmi því íslendingar voru ein fátækasta þjóð í heimi áður en við fórum að stunda eitthvað annað en landbúnað. Og það er bara vitleysa að þegar störf flytjist á ódýrari staði tapi vesturlönd störfum til langframa. Það koma alltaf ný störf í staðinn enda veit ég ekki betur en að atvinnuleysi í Bandaríkjunum sé með því minnsta í heiminum þótt fjöldinn allur af störfum hafi verið fluttur þaðan til fátækari landa á síðustu áratugum.
Annars er ein aðalástæðan fyrir því að fólk er á móti hagvexti og kapitalísku hagkerfi sú að fólk heldur að það sé aðeins ákveðið mikið af gæðum til skiptanna í heiminum og að ef við tökum þessi gæði að þá sé minna til eftir handa hinum. Þetta er hinsvegar mikill misskilningur. Það hefur til dæmis sést að með aukinni vísindaþekkingu hefur manninum tekist að margfalda fæðuframleiðsluna í heiminum langt umfram það sem fólk hélt mögulegt einu sinni. Við erum ekki að taka frá fátæka fólkinu þegar við kaupa okkur meira í matinn en við þurfum. Lífið er ekki “zero-sum game”.
En burtséð frá því að auknir skattar skapa ekki aukinn hagvöxt heldur þvert á móti minnka hagvöxt er auðvelt að sjá að hagvöxtur er einskis virði ef almenningur fær ekki að njóta hans! Við sáum það í Sovétríkjunum að þar var jújú ágætis hagvöxtur en lífskjör fólks bötnuðu hinsvegar mjög lítið því ríkið notaði ekki aukinn auð í að fjármagna það sem skipti máli fyrir fólk; betri neysluvörur, húsnæði, bíla, heilbrigðisþjónustu og menntun. Nei, þvert á móti fór allur hagvöxturinn í þungaiðnaðinn, herinn og í einhver gæluverkefni. Þetta er alltaf hættan þegar ríkið tekur of mikinn skerf af kökunni. Það hefur nefnilega sýnt sig (hver svo sem ástæðan er) að fólk fer miklu betur með sína eigin peninga en annarra manna peninga.
En það er auðvitað rétt að það eru alltaf ákveðnir hlutir sem fyrirtæki sjá sér ekki hag í að fjárfesta í en myndu samt vera hagkvæm fyrir mannkynið til langframa. Þar má til dæmis nefna ýmiskonar vísindarannsóknir. Þar kemur til kastanna ríkja og velviljaðra einstaklinga. Það getur alveg verið eðlilegt að ríki t.d. styrki rannsóknir á HIV eða aðrar grunnrannsóknir í vísindum. Annars eru svona rannsóknir oft kostaðar af fjársterkum einstaklingum (Bill Gates eyðir t.d. gríðarmiklum fjármunum í alnæmisrannsóknir) og fyrirtækjum (sem styrja grunnrannsóknir því það kemur þeim vel til langframa).