Ein af fyrstu kveikjum af því að ég fór að gagnrýna femínista og þetta svokallaða jafnrétti sem þeir þykjast standa fyrir er einmitt tilraunir mínar til að sækja um vinnu, nú fyrir nokkru heyrði ég frétt um að sjálft Jafnréttisráð hefði úrskurðað það að Reykjavíkurborg hafi brotið á karli við ráðningu, ég var einn af þeim sem sóttu um þetta starf og fékk nei svar, og fannst mér orðalag á auglýsingunni og þau svör og viðhorf sem ég fékk vera mjög ósanngjörn og fáránleg.
Fyrir mér er þessi frétt sem er hér fyrir neðan sigur, hún er sigur því hún staðfestir það sem ég hef haft á tilfinningunni um það óréttlæti og ójöfnuð sem birtist í jöfnunaraðgerðum opinberra stofnana. Þetta er líka persónulegur ósigur fyrir það fólk sem hefur komið hér á hugi.is og ráðist að mér með alskyns persónulegum árásum fyrir að dirfast að gagnrýna það réttlæti sem á að vera að finna í jafnréttislögum og aðgerðum femínista. Líka merkilegt að skoða fréttina því þar birtast rök sem hefur verið ráðist á mig með, það að ég sé óhæfur í samskiptum og vinnu út af mínum skoðunum, og út af gagnrýni á jafnréttisbaráttu kvenna.
Ætli allir karlmenn sem kæra til jafnréttisráðs séu ekki taldir menn með óvandaðan persónuleika og óhæfir til mannlegra samskipta, sérstaklega samskipta við konur ?
Þetta færi mig til að hugsa um aðra auglýsingu sem var frá Kópavogsbæ þar sem var auglýst staða í tölvudeild þar og var hún með sama orðalagi, þar sem konur eru hvattar til að sækja um, og svo kona ráðin. Og langar mig að hvetja þá sem sóttu um það starf að athuga möguleika á að kæra þá ráðningu, því mér skildist að það hefðu um 100 sótt um, og líkurnar á að umsókn frá meira hæfari og menntaðri karlmanni eru miklar, sérstaklega með það í huga að um 85% af þeim sem útskrifast með tölvumenntun eru karlkyns.
Með það í huga að karlmenn eru í yfirgnæfandi meirihluta sem eru með tölvudellu, þá veltir maður fyrir sér hvernig konum tókst að manna nærri allar stöður kerfisstjóra hjá grunnskólum Reykjavíkurborgar með konum, og hvort þar séu endilega hæfustu starfsmenn við störf, ef þeim hefur greinlega tekist að fá að panta konur við störf þar, og þannig mismunað fólki eftir kyni í störf, sem er kol ólöglegt.
Annars var ég að skoða á www.jafnretti.is og sé þar að talað eru um að Félagsmálanefnd Alþingis hafi sent frá sér breytingartillögu (þingskjal 1671) um framkvæmdaráætlun ríkistjórnarinnar um aðgerðir í jafnréttismálum til næstu fjögurra ára.
Hvernig er það með opinberar stofnanir og jafnréttisáætlanir, mér sýnist vera ýmsar stofnanir þar sem konur eru örugglega 90% starfsmanna, hvernig stendur á að sum vígi sem konur hafa er ekki snert við – eins og félagsmálastofnun, hvernig væri að það væri sýnt í verki að þessar jafnréttisaðgerðir gangi ekki aðeins út á að ráðast á störf sem karlar sækja í, eins og greinilegt að er í gangi í tölvudeildum Reykjavíkurborgar.
Ef opinberar stofnanir ætla að halda andlitinu í þessum málum þá sýnist mér að það verði að fara út í aðgerðir sem ganga á störf sem konur sækja í, og þá kannski heyrist raddir sem væla um óréttlæti og fáránleika aðgerðanna. Sérstaklega væri gaman að sjá þessar jöfnunaraðgerðum beitt á störf sem tengjast sviðum sem konur útskrifast úr í miklum fjölda.
Hugatakið réttlæti og jöfnuður er tvíeggja sverð, og sá sem sveiflar því verður að gæta sín mjög hvar, og hvernig hann lætur höggið koma niður, því sverðið gæti komið í bakið á þeim sem sveiflar því. Enda sýnist mér þetta réttlætisverð sem konur eru að sveifla vera farið að skera þær sjálfar.
Tekið af http://www.mbl.is/mm/frettir/show_framed_news/?nid=1084 930&cid=1 ( tek ekki ábyrgð á því ef ferlið á hugi.is ruglar slóðinni )
Kærunefnd jafnréttismála álítur að leiddar hafi verið líkur að mismunun vegna kynferðis þegar kona var ráðin í starf á tölvudeild hjá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur fyrir ári. Karl kærði ráðninguna en 19 sóttu um starfið; 16 karlar og þrjár konur. Kærunefndin telur að ekki hafi verið sýnt fram á að málefnaleg rök hafi staðið til þess að líta fram hjá manninum sem kærði við ráðninguna og er það því álit kærunefndarinnar að Fræðslumiðstöð hafi brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga. Karlinn hafi staðið konunni framar bæði hvað varðar menntun og starfsreynslu og bendir nefndin á að þess skuli gæta að umsækjandi sé ekki valinn nánast einvörðungu á grundvelli kynferðis.
Ekki leitað til meðmælenda í kjölfar atvinnuviðtals
Kærandi taldi að gengið hefði verið framhjá sér við ráðningu í starfið þegar litið væri til starfsreynslu og menntunar. Telur hann hafa verið ráðið í stöðuna í kjölfar fimmtán mínútna starfsviðtals, en hann dregur í efa að hægt sé að leggja mat á hæfni fólks í mannlegum samskiptum í svo stuttu samtali. Þeir sem tóku viðtalið hafi ekki þekkt til hans persónulega en hafi þrátt fyrir það ekki leitað til meðmælenda hans.
Í sjónarmiðum Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur er bent á að starfið hafi verið tímabundið og samkvæmt reglum sem gildi um auglýsingar lausra starfa hjá Reykjavíkurborg hafi ekki verið skylt að auglýsa það. Í auglýsingunni um starfið var lýst helstu áherslum sem lagðar hafi verið til grundvallar við mat á umsóknum. Sérstaklega hafi verið litið til menntunar, kyns og starfsreynslu. Hvað réði vali á umsækjanda kemur fram í greinargerð Fræðslumiðstöðvar að konur hafi verið hvattar til að sækja um starfið og hafi verið fyrir því tvær ástæður. Annars vegar að í jafnréttisstefnu Reykjavíkurborgar sé lögð áhersla á að jafna kynjamun en í tölvudeild kærða hafi starfað fjórir karlar en engin kona. Hin ástæðan sé að margar konur séu umsjónarmenn tölvukerfa í skólum og hafi þær margoft komið þeirri athugasemd á framfæri að æskilegt væri að kona starfaði í tölvudeildinni.
Ekki var efast um faglega hæfni mannsins heldur hafi starfsmenn tölvudeildar ekki treyst sér til að vinna með honum og hafi sú afstaða verið rökstudd með tilvitnunum í árekstra sem upp hafi komið í samskiptum þeirra á milli er hann var tölvuumsjónarmaður í einum grunnskóla borgarinnar. Í sjónarmiðum Fræðslumiðstöðvar er ekki tekin afstaða til starfsreynslu kæranda í samanburði við þá sem ráðin var.
Stóð framar hvað varðar menntun og starfsreynslu
Kærunefndin kemst að því í áliti sínu að kærandi hafi staðið þeirri sem starfið hlaut framar, bæði hvað varðar menntun og starfsreynslu. Í máli Fræðslumiðstöðvarinnar hafi komið fram að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um að ráða kæranda ekki til starfa, þ.e. meintir samstarfsörðugleikar. Fræðslumiðstöð hafi þó ekki fært fram nein frekari rök eða gögn máli sínu til stuðnings um meinta samstarfsörðugleika eða árekstra við kæranda. Að mati nefndarinnar geta þessi sjónarmið því ekki ráðið úrslitum í málinu.
Kærunefnd segir liggja fyrir að Fræðslumiðstöð hafi talið sig hafa verið að stuðla að því markmiði að jafna kynjahlutfall með því að ráða konu í starfið. Í álitinu segir: “Þess verður þó ætíð að gæta í slíkri viðleitni að ganga ekki á svig við meginreglu laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þannig að umsækjandi sem stendur öðrum af gagnstæðu kyni að baki hvað menntun og starfsreynslu áhrærir sé þrátt fyrir það valinn nánast einvörðungu á grundvelli kynferðis, þar sem kyn þess umsækjanda sé í minnihluta í viðkomandi starfsstétt.”