“Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann”? Sagði Jón Hreggviðsson í Íslandsklukku Laxness þegar það álitamál kom upp hvort morð hafi verið framið eða ekki.
Þessi orð koma upp í hugann þegar maður les og heyrir um aftöku, líflát, dráp, eða morðið á Ahmed Yassin, nokkuð sem er ein aðalfréttin í fjölmiðlum þessa dagana.
Enn og aftur vekur það furðu mína hvað íslenskar fréttastofur éta hugsunarlaust upp orðalag erlendra fréttastofa sem margar hverjar eru handgengnar síonistum og stuðningsmönnum þeirra.
Eldflaugaárás úr þyrlum á Yassin, mann bundinn í hjólastól, og drap ekki aðeins hann, heldur eignig 7 aðra meðlimi Hamas er í vestrænum fjölmiðlum og þá íslenskum, ekki árás, ekki morð, ekki hryðjuverk, HELDUR AFTAKA. Þvílíkur hetjuskapur!!
Hvaða skilning leggja Íslenskar fréttastofur í orðið “aftaka”?
Snúum þessu við. Ímyndum okkur að palestínumanni takist að lauma sér í slíkt færi við Sharon að honum takist að drepa Sharon um leið og sjálfan sig.
(Palestínumenn verða að nota mannlegar sprengjur því ekki eiga þeir orrustuflugvélar, þyrlur og skriðdreka búna eldflaugum og sprengjum til árása eins og Ísrelar.)
Væri slíkur verknaður kallaður “aftaka” í vestrænum fjölmiðlum? Nei örugglega ekki. Öll sterkustu orð yrðu notuð, orð eins og morð, hryðjuverk yrðu eins og hjóm eitt í þeim samanburði.
Ég er ekki með þessari grein að réttlæta aðgerðir Hamas eða annara hryðjuverkasamtaka. Heldur aðeins að benda á að þeirra aðgerðir í neyð, gegn Ísael eru ekki verri en hátækniárásir Ísaelshers á Palestínumenn í landi þeirra sjálfra sem hertekið er af Ísrael.
Þó finnst mér það ögn heiðarlegra að hlaða á sig sprengjum, labba inn í hóp manna og drepa sjálfan sig auk annara heldur en að flugmenn Ísaels fljúgi vélum hlöðnum sprengjum, varpi þeim á fólk, snúi aftur heim í kvöldmatinn, þar sem hetjunni er fagnað.
Niðurstaðan: Forystumenn Palestínumanna sem skipulögðu árásina eru glæpamenn en Ísraelarnir sem skipulögðu flugvélaárásina eru hetjur.
Verður þetta upphaf nýrra tíma í stríðsrekstri framtíðarinnar?
Er það sjálfgefið að Bush verði sjálfkrafa og eðlilegt skotmark í hvert sinn sem hann leggur í nýtt stríð?
Ef svo er þá er kannski fátt með svo öllu illt að ekki boði nokkuð gott!
Af hverju er Ísrael, einni þjóða, gert mögulegt að hundsa allar samþykktir Sameinuðu Þjóðanna sem beinst hafa gegn þeim frá upphafi samtakanna? Hefði einhverju Arabaríkjanna liðist það??
Það er stóra spurningin.
Hefur heimurinn virkilega svo slæma samvisku gagnvart Gyðingum eftir helför Nasista að þeim sé hér eftir allt leyfilegt gagnvart öðrum um ókomna tíð?
Lotti