Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi kom í skólann minn um daginn og sat fund þar sem hann var spurður spjörunum úr. Þar talaði hann um ýmislegt viturlegt og annað vitlaust, en ég meina…enginn er fullkominn. En það sem kom mér á óvart á þessum fundi var hvað margt ungt fólk er í raun heilaþvegið af fjölmiðlum og ábyggilega foreldrum sínum, helaþvegið af viðhorfi og skoðunum annara.
Ísland er svolítið í dag þannig að það má ekkert vera róttækur. Maður á bara að sætta sig við ástandið eins og það er, þó að maður viti að maður eigi miklu betra skilið.
Þegar orðið varð laust á fundinum spurðu margir Ástþór (með miklum hneykslunartón) spurninga eins og: ,,Hvernig dettur þér í hug að svona lítið land eins og Ísland geti komið friði á í heiminum?“ Hann kom með oftar en ekki með góð svör eins og að Ísland sem aldrei hefur staðið í vopnuðu stríði við aðrar þjóðir gæti verið góð fyrirmynd margra blóðugra landa. Ég veit að algjör friður í heiminum er fjarlægur draumur (ég sjálfur á erfitt með að trúa því að hann verði einhvern tíma), en það er ekkert sem kemur í veg fyrir að við reynum allavega að byggja upp frið í heiminum.
En það er bara allt of margir sem vilja ekkert gera, vilja ekkert segja og vilja ekki mótmæla. Segja bara: ,,Við jöfum það ágætt og gætum haft það verra.” Já, já…og þess vegna er okkur bara alveg skítsama um hvað er að gerast annars staðar en á okkar eigin landi. Fólk hugsar í raun ekki mikið lengra en um sitt feita rassgat og nokkra metra radíus í kringum það. Sætta sig bara við ástandið eins og það er í dag en lifa í leiðinni (ómeðvitað?) í von um að plágur veraldar komi ekki hingað á litla, saklausa Ísland.
Það er bannað að hafa skoðanir. Nei auðvitað…það má hafa skoðanir á því hvaða poppstjarna er með hvaða leikara, hvað nýju Diesel buxurnar séu flottar og það má hafa skoðun á “asnalega fólkinu sem heldur að það stoppi heilt stríð með því að standa fyrir utan Bandaríska sendiráðið og mótmælir friðsamlega.” En allt annað þarf ekkert að hugsa um. Það þarf ekkert að hafa skoðum á ástandinu í heiminum í dag, skoðun á því hversu margir deyja á degi hverjum, hversu margir hafa ekki efni á ostbita á meðan aðrir borða rándýrar sjö rétta máltíðir á hverju kvöldi. Þessi vandamál látum við “duglegu og sanngjörnu” stjórnmálamennina okkar hugsa um. Þeir redda þessu fyrir okkur því þeim þykir svo vænt um allt fólkið í heiminum.
Lífið er meira en að vakna, vinna og sofna. Það að eiga kost á að lifa er mikilvægara en allt annað. Ég veit ekki með þig, en ég ætla allavega ekki að eyða lífinu, sitjandi í sófanum með snakkskálina í hendini, pælandi í því af hverju í fjandanum American Pie 2 sé svona miklu leiðinlegri en fyrri myndin. En þetta er þó allt bara mín skoðun.
Með von um lítil rifrildi og engar skammir, heldur einungis vangaveltur og umræður um tilveruna…
…sonur úlfhildar.
…