Forsíða DV í dag (föstudagur 12. mars) er með ólíkindum. Þar er mynd af Séra Pálma Matthíassyni með sólarströnd í baksýn og stríðsletur…. “TIL FLORIDA Á KOSTNAÐ SÓKNARBARNA”

Það er skemmst frá því að segja að mér flaug strax í hug, því miður vill ég segja, að nú hefði Séra Pálmi hrasað illilega á vegi dyggðarinnar og framið sjálftöku úr sjóðum sóknarinnar. Og skellt sér í sólina með sjóðinn. Framsetning “fréttarinnar ” hafði þessi áhrif þrátt fyrir að ég vissi í hjarta mínu að þetta myndi Séra Pálmi aldrei gera. Svo þegar ég las “fréttina” kom í ljós að hér var alls ekki um neina frétt að ræða hvað þá efni í stríðsletur á forsíðu.
Það kom í ljós í umræðum á vinnustaðnum mínum að fleiri höfðu lagt sama skilning og ég í fyrirsögnina. Einn, sem hafði aðeins lesið fyrirsögnina, en ekki “fréttina” sjálfa hóf reyndar umræðuna, sannfærður um sekt séra Pálma!!!!

Málið sjálft: Sóknarbörnin sjálf höfðu einfaldlega gefið Séra Pálma sólarlandaferð auk dagpeninga í þakklætisskini fyrir óeingjarnt starf hans í þeirra þágu. Nokkuð sem engum kemur í raun neitt við, utan safnaðarinns.

Hér hefur DV orðið illilega á í messunni og skuldar Séra Pálma og söfnuði hans afsökunarbeiðni. Ef blaðið taldi nauðsynlegt að greina frá þessu smámáli, hefði blaðið átt að haga fyrirsögn á þann veg að ljóst hefði verið hvað um var að ræða. En það selur víst betur, samkvæmt erlendum formúlum, að hafa fyrirsagnir tvíræðar og beinlínis villandi. Og það hefur ráðið ferðinni þótt málinu væri þar með snúið á haus.

Mér hefur fundist DV, eftir “endurreisnina”, taka á ýmsum málum á nýjan og ferskan hátt, sem full þörf var á, en hér fór það langt yfir strikið.
Ritstjóri og starfsfólk annað, sem að þessari frétt kom SKAMMIST YKKAR !!!!

Ef blaðið heldur áfram á þessari braut verður það ekki lengur velkomið á mitt heimili.

Það er rétt að það komi fram að ég er utan trúfélaga og er þar af leiðandi ekki í söfnuði Séra Pálma eða tengist honum á neinn hátt.
Það er hinsvegar ekki nauðsynlegt að vera trúaður til að bera mikla virðingu fyrir Séra Pálma Matthíassyni og því starfi sem hann leggur sál sína í. En það geri ég í ríkum mæli.

Lotti