Það eru til fjölmargar svona minningarsiður erlendis með myndbirtingum af látnum börnum svo þetta er ekkert einsdæmi. Get t.d. bent á
http://www.euronet.nl/~lindboom/boubeng.htm og
http://www.geocities.com/tabris02/emilyrose.html en þær eru báðar hluti af vefhringjum með fleiri svipuðum síðum. Þetta er því vel þekkt leið fyrir fólk að vinna sig í gegnum sorgina og flestir virðast alveg skilja það. Einnig er alveg að finna svona síður á erlendum barnavefum svipuðum Barnalandi, eins og www.babiesonline.com
Mig langar aðeins að koma með rökin fyrir því að leyfa ætti þessar síður.
Þessir foreldrar eiga því miður ekki myndir af börnum sínum lifandi, þau höfðu aldrei kost á því. Sorgin er samt jafn mikil og þeim er mikið í mun að geta sýnt öðrum að barnið þeirra var raunverulegt BARN, ekki bara eitthvað fóstur eða prósentutala andvana fæddra barna. Þessar síður hjálpa þessum foreldrum og öðrum aðstandenum að takast á við sorgina, það hjálpar þeim að fá fallegar kveðjur í gestabókina, það hjálpar þeim þegar aðrir eru að segja þeim hvað barnið þeirra var fallegt, ath. BARNIÐ, ekki líkið eða fóstrið. Eins þá hef ég heyrt marga lýsa því yfir hvað þeim hafi fundist gott að skoða þessar síður, hvað þær hafa kennt þeim að meta lífið meira og vera innilega þakklát yfir að eiga heilbrigð og/eða lifandi börn. Einnig hafa þó nokkrir skrifað kveðjur í gestabókina um hvað þessar síður hafa reynst þeim mikil hjálp í eigin sorg við barnmissi. Síðurnar sýna þeim að það ER í lagi að tala um sorgina og tala um barnið og gleðjast yfir að eiga fallegar myndir af því. Þetta sýnir einnig vinum og kunningjum þessara aðila að það er allt í lagi að spyrja þau út í barnið þeirra og jafnvel fá að skoða myndir af því, en það getur verið mikill sálarplástur fyrir foreldra að fólk sýnir þessu áhuga og skilur að þetta var lítið barn sem allt í lagi er að skoða myndir af. Sýnir þeim að barn þeirra er viðurkennt. Oft veit fólk ekki hvernig það á að koma fram við foreldra sem missa barnið sitt og forðast þetta umræðuefni, en þessar síður hafa hjálpað þeim að nálgast það og ræða þetta við syrgjendur. Þessar síður hafa opnað þessa umræðu og gert fólki kleift að skilja að það er allt í lagi að tala um þessi börn, þó þau hafi fæðst andvana.
Hvað varðar að börn séu að ráfa inn á svona síður þá er það auðvitað leitt ef þeim bregður í brún, en hins vegar er ég á þeirri skoðun að það sé á ábyrgð foreldra hvað börnin þeirra eru að skoða á netinu. Ef svo vill til að barn rambi þarna inn og verði smeykt þá fyndist mér það tilvalin ástæða til að taka þetta upp og ræða við barnið, útskýra aðeins dauðann og þessar myndir. Ég velti líka fyrir mér hvort það sé betra fyrir barn sem slysast inn á svona síðu að fá hneykslisraddir og tal um hvað þetta sé ógeðslegt og banna þeim að skoða þetta aftur, eða hvort það hagnist þeim betur að setjast niður með þeim, ræða myndirnar og dauðann, sorgina og ástina til barnisns sem skín í gegn frá aðstandendum þessara síðna. Þetta eru fallegar myndir og sýna dauðann líklega í einni af sinni fallegustu mynd. Það er margt annað mun ógeðfelldara sem hægt er að ramba á á netinu. Ég veit líka til að þessar síður hafi einmitt verið notaðar af foreldrum til að ræða við barnið um dauðann, þar á meðal af mér. Svo er ég líka að velta fyrir mér afhverju börn óttast svona myndir. Mín gerðu það alls ekki. Hver er munurinn á þeim og þeim börnum sem verða smeyk? Nú er t.d. þessi elsta, sem er níu ára, alveg rosalega tilfinninganæm en þetta skelfdi hana ekkert, og ekki heldur yngri stelpuna sem er nú bara fjögurra ára. Smitum við ekki bara okkar eigin ótta yfir á börnin? Þau fæðast ekki með ótta við svona myndir.
Varðandi hótun skólayfirvalda um að loka á aðgang að Barnalandi ef þessar síður verði ekki lokaðar þá velti ég fyrir mér hvort aðgangur að mbl.is, visir.is og erlendum fréttamiðlum á netinu sé lokaður, en þar er oft hægt að finna óhuggulegar myndir í sambandi við fréttaflutning. Eins finnst mér þetta einungis gefa tilefni til umræðu í skólanum, því dauðinn er vissulega þarft umræðuefni.
Í sambandi við ófrískar konur eru líklega þær velflestar fullorðnir og sjálfstæðir einstaklingar sem geta sjálfar tekið þá ákvörðun hvort þær kjósi að skoða myndaalbúm með myndum af látnum börnum. Ég velt líka fyrir mér hvort þá eigi að banna umræður um hræðilegar fæðingarsögur, hvort eigi að banna myndir af veikum og fötluðum börnum, t.d. á gjörgæslu kannski tengd við fullt af tækjum og tólum. Getur það ekki alveg eins verið slæmt fyrir andlega líðan ófrískra kvenna?
Hvers vegna er dauðinn svona mikið taboo? Hvers vegna má ekki hafa myndir af látnum börnum? Þetta eru í raun bara lítil börn með lokuð augun. Hér á árum áður var dauðinn ekki svona fjarlægur og börn komust alveg í náin kynni við hann. Fólk dó heima en ekki á sjúkrahúsum. Afhverju má ekki sjá dauðann sem fallegan, eins og þessar myndir lýsa?
Að lokum langar mig að benda á þvílík vanvirðing það er við foreldra þessa barna að banna þeim að hafa þessar myndir á síðum sínum opnar fyrir almenningi. Börn þeirra eru sem sagt ekki lögð að jöfnu við önnur börn, heldur gefin þau skilaboð að þau séu ógnvekjandi, óviðeigandi og ógeðfelld og að foreldarnir megi ekki takast á við sorgina eins og þeir sjálfir kjósa. Hvernig haldiði að foreldrum þessara barna líði með það að fá þessi skilaboð ofan á sorgina sem þau eru að glíma við? Ég held að fyrst og fremst sé það mikilvægt þessum foreldrum að geta verið stolt af börnunum sínum og geta sýnt öðrum að þetta voru lítil börn og litlir raunverulegir einstaklingar.
Netið hefur líka breytt miklu og tekið yfir nmörg hlutverk, eins og t.d. myndaalbúm og bréfaskriftir. Einu sinni þekktist það lítið á Íslandi að halda úti heimasíður fyrir börnin sín, var svona aðallega fyrir netnörrana, en með tilkomu Barnalands breyttist það allt. Þau settu upp aðgengilegt og imbahelt kerfi og eiga heiður skilið fyrir það (þó ég sé alls ekki sátt við aðgerðir þeirra í þessu minningarsíðnamáli). Núna þykir næstum skrýtið ef íslenskt barn á ekki heimasíðu á Barnalandi… eða allavegana á netinu. Eflaust hefur mörgum þótt það undarlegt hér fyrir nokkrum árum að foreldrar væru með svona síðu um barn sitt, þar sem persónulegar upplýsingar og myndir voru fyrir alla að skoða. Sumum hefur eflaust þótt þetta óviðeigandi og fundist að svona lagað ætti aðeins að vera fyrir nánustu fjðlskyldu… en svo breytast tímarnir.
Eins þykir einhverjum núna ekki eðlilegt að minnast látins barns með þeim hætti sem Harpa og fleiri kjósa að gera. En aðstæður eru bara svo mikið að breytast hér í heiminum með tilkomu netsins, að fólk getur notað fleiri leiðir til að vinna úr sorginni. Viðhorf þjóðfélagsins breytist líka með tímanum. Einu sinni voru t.d. konur ekkert að segja frá þegar þær voru óléttar, heldur var reynt að halda því leyndu sem lengst. Oft var engum sagt frá fyrr en það fór að sjást á konunni og fólk í raun búið að fatta það sjálft að hún væri ólétt. Þetta þótti einkamál parsins á þeim tíma, en í dag fá miklu fleiri að fylgjast með meðgöngunni og miklu fyrr… líka ókunnugt fólk á netinu eins og ég og þú ;)
Annars er það hið besta mál að vakin sé athygli á þessu umræðuefni, því allt of oft er dauðinn bara þaggaður niður, sem gerir hann bara enn meira ógnvekjandi. Börn, og líka fullorðir, hræðast yfirleitt mest það sem þau þekkja ekki.