Torgny talar um áætlanir íslensku ríkistjórnarinnar að láta reisa stíflur og álbræðslu í hinni viðkvæmu náttúru Íslands.

-GöteborgPosten er næst stærsta blað Svíþjóðar, Torgny Nordin er heimspekingur og sagnfræðingur frá Gautaborgarháskóla. Hann skrifar reglulega fyrir Gautaborgarpóstinn og Svenska Dagbladet og er einnig ljósmyndari með fugla sem sérgrein. Síðasta bók Nordins fjallar um sögu og náttúru í Arktis /Norðursskautsins -

Óásættanleg eyðilegging.

Brátt er það um seinan að njóta hinnar einstæðu gljúfranáttúru Íslands. Fyrir ári síðan skrifaði Torgny Nordin um þá ákvörðun íslensku ríkistjórnarinnar að byggja stíflur og álbræðsluverksmiðju í hinni viðkvæmu náttúru hálendis Íslands. Þegar hann svo ári seinna sneri aftur bárust til eyrna drunur frá skurðgröfum og ýtum, ríkistjórnin þegir og náttúruverndarsinnar eru gerðir að aðhlátursefni.

Fyrir tæplega þremur árum hóf talibanastjórnin í Afganistan að eyðileggja hin risavöxnu fimmtánhundruð ára gömlu Búddalíkneski í Bamylan. Í fréttatilkynningu til Reuters sagði talibanskur embættismaður: ,,það tók okkur tuttugu daga að eyðileggja stytturnar. Við neyddumst til að nota sprengiefni”. Margir benda nú á hve margt er líkt með talibanastjórninni og þeirri ríkisstjórn sem nú situr í Reykjavík, vegna framgöngu hennar gagnvart náttúru Íslands. Hin íslenska ríkisstjórn fer sér þó öllu hægar og tuttugu dagar munu ekki nægja til að uppfylla hin hrikalegu áform.

Ég geng í snjónum upp Kverkfjöll þar sem einn af sjaldgæfustu og fegurstu stöðum á Íslandi er. Brennisteinslyktandi reykur stígur upp úr holu í jöklinum - ís og eldur blandast -og útsýnið yfir eldfjallalandslagið í norður er mikilfenglegt. En útsýnið er ekki lengur sem áður, og þögnin er rofin af hávaða frá risavöxnum þungavinnuvélum.
Aðeins fáar manneskjur fengu að upplifa hina stórfenglegu villtu gljúfranáttúru við Kárahnjúka. Nú er allt sprengt í sundur til að gera að raunveruleika þetta risaverkefni, af áður óþekktri stærðargráðu.
Og meira er í vændum. Þar sem Kárahnjúkavirkjun var einn umdeildasti virkjanakosturinn á Íslandi, með falleinkunn jafnvel frá embættum ríkistjórnarinnar sakir alltof mikilla og óafturkræfra náttúruspjalla, standa nú allar dyr opnar upp á gátt.
Þrátt fyrir mikla óánægju og mótmæli erlendis frá, sem vísinda- og fræðimenn eru flestir sammála, halda Davíð Oddsson, í hægristjórn og orkufyritækið Landsvirkjun, áfram árásum sínum á íslenskt hálendi. Rökin eru vafin inn í þrjóskulega þjóðerniskennd, vaðið er yfir eigin embætti, gert grín að náttúruverndarsinnum, lýðræðið lítillækkað og erlend gagnrýni látin sem vind um eyrun þjóta. Stórfyrirtækið Impreglio sem er umvafið hneykslum er ábyrgt fyrir byggingu virkjunarinnar við Kárahnjúka. Nákvæmlega eins og gagnrýnendur höfðu óttast þá eru það ekki Íslendingar sem fyrst og fremst vinna við byggingaframkvæmdirnar þar heldur Portúgalar, ásamt fólki frá austurhluta Evrópu og öðrum fátækum löndum. Aðstæður eru algerlega óviðunandi og þrælalaun eru staðreynd. Hvað á sér í raun og veru stað þarna er erfitt að vita; gagnrýnir og sjálfstæðir blaðamenn eru vægast sagt sjaldséðir á Íslandi. Á meðan áhyggjufullar konur vítt og breitt um landið prjóna sokka og vettlinga á vesalings verkamennina þegir íslenska ríkistjórnin þunnu hljóði.

Að þegja er orðið einkenni fyrir hina íslensku valdastétt og það sem er jafnvel enn verra er að Ísland er fullkomlega að týna hinum siðferðilega áttavita sínum. Vinnuaðstæður við Kárahnjúka sýna svart á hvítu hversu lítið fólkið lætur sig varða aðrar manneskjur, sérstaklega þó ef þær eru ekki Íslendingar. Hin miklu náttúruspjöll sem þarna eiga sér stað hafa sett Ísland neðst á lista í samfélagi þjóðanna hvað varðar náttúruvernd.
Stærsta vandamálið er að meirihluti þjóðarinnar telur sér ekki koma við það sem er að gerast. Svo lengi sem þjóðin getur haldið áfram neyslu og þjóðarhagurinn vex í öruggum takti kvartar enginn, allavega ekki upphátt. Aðalástæða þessa er sú að íslensk heimili eru skuldsett langt uppfyrir haus. Útgjöld til búsetu, neysluskuldir og síðast en ekki síst dýr lán sem hvíla á fjölda jeppatrukka sem þamba bensín og ætlaðir eru til fjallaferða, gera það að verkum að óþægilegar truflanir eru alls ekki velkomnar. Því er reynt að glæða þjóðarfjárhaginn með umhverfisspillandi álverksmiðju, þó aðeis sé um stuttan tíma að ræða, og í skammsýni sinni gefur þjóðin þögult samþykki.
Í dag er í raun engin virk náttúruvernd á Íslandi og umhverfisráðherra landsins, Sif Friðleifsdóttir hefur gefið hugtakinu ,,umhverfisráðherra” algjörlega nýja merkingu. Síðasta verkefni hennar -eftir að hafa barið Kárahnjúkavirjunina í gegn og samið um aukinn loftmengunarrétt í Kyotobókuninni - er að gera það enn þægilegra fyrir stórfyrirtæki að geta
ótrufluð haldið áfram framkvæmdum sínum. Sannarlega fylgdi hún ekki gildandi lögum áður svo til öryggis er nú verið að breyta þeim.

Stjónmálaleiðtogar á Íslandi halda því fram að vatnsaflsvirkjanir og álbræðslur hafi möguleika á endurnýjun auðlinda í umhverfisvænum tilgangi og skapi einnig þörf atvinnutækifæri. Við nánari athugun kemur í ljós að þessu er alveg öfugt farið.
Það sem hér er að gerast er, að verið er að gjöreyðileggja náttúruna til að fá -í mjög skamman tíma- rafmagn til álframleiðslu. Framleiðslan er sannanlega skaðleg umhverfinu; fyrst er bauxit unnið úr námum við mjög erfið félagsleg og umhverfisleg skilyrði – um það finnast mörg skelfileg dæmi t.d. frá Brasilíu og Surinam. Síðan á eftir að flytja bauxitið alla leið til Íslands. Við sjálft rafmagnsferlið myndast mikið magn af hættulegum efnum sem auka gróðurhúsaáhrifin og hafa flest þúsundföld áhrif koldíoxíðs.
Það er hið ameríska fyrirtæki Alcoa, með vægast sagt vafasaman feril að baki, sem ætlar að kaupa rafmagnið og reka heimsins stærsta en enn óbyggða álver í hinum austfirska Reyðarfirði. Alcoa hefur laðast að Íslandi vegna mjög lágs raforkuverðs sem er haldið leyndu -af hverju hefði Alcoa, sem er nú þegar með of mikla framleiðslu, annars átt að loka þremur álbræðslum í Bandaríkjunum á síðasta ári?
Og hvað eigum við svo eiginlega að gera við allt þetta ál? Ef einungis lítill hluti af þeim hundruðum milljóna af áldósum sem Alcoa spýtir út á ameríska markaðinn á hverju ári færi í endurvinnslu gætum við lokað enn einu álveri. Í áætlunum heitir það að risaverksmiðjan komi til með að veita atvinnu og hindra fólksflutninga frá Austfjörðum. Þessu er mótmælt af mörgum sem hreinni firru. Sókn í þéttbýli er til staðar á Íslandi eins og í heiminum yfirleitt
og skapar vandræðaástand skipulagslega séð. Það skiptir því engu máli hversu margar verksmiðjur eru reistar, þær munu ekki breyta þróuninni. Fáir Íslendingar kæra sig um að vinna við svona drulluiðnað og álverksmiðjan, eins og bygging Kárahnjúkavirkjunar verður því einhverskonar félagsleg tilraun með hundruði af undirlaunuðum verkamönnum frá suður og austurhluta Evrópu.

Margir virtir þjóðhagfræðingar á Íslandi hafa varað við því að vatnsaflsvirkjunar- og álhringekjan leiði af sér gífurlegt tap sem skattgreiðendur landsins verði látnir borga.
Svo getur því farið að ríkistjórn Íslands styrki amerískt stórfyrirtæki með skattpeningum landsmanna og eyðileggi í leiðinni hálendið og einn af fallegastu fjörðum á Austurlandi.
Að forsætisráðherrann, Davíð Oddson, hafi áhyggjur af skattgreiðendum.er ef til vill ekki mjög sennilegt. Því rétt áður en alþingi fór í jólafrí sl.jól tókst honum að fá forystu stjórnmálaflokkanna til að samþykkja frumvarp um hækkun eftirlauna fyrir sig og nokkra lykil stjórnmálamenn. Stærstu jólagjöfina gaf hann svo sjálfum sér; hundrað prósent hækkun á eftirlaunum. Að venju varð hann öskureiður þegar hann var krafinn skýringa og ekki batnaði það þegar almenningur komst að því að honum hafði tekist að fá í gegn sérákvæði sem gefur honum rétt á að halda lífeyrinum jafnvel þótt hann eigi eftir að njóta eins mikillar velgengni í framtíðinni sem rithöfundur og hann vonast til.

Ég þramma áfram í gegnum snjóinn og get einungis undirstrikað það að útsýnið héðan og norður jökulrönd Vatnajökuls breytist ört. Í austurátt má sjá að verið er að framkvæma við Kárahnjúka af fullum krafti og um leið er framtíð alls hálendis Íslands ótryggari en nokkurn tíma áður. Hægt og rólega leka fyrirætlanir Landsvirkjunnar út og af því sem nú þegar er vitað er ljóst að landslag Íslands stendur frammi fyrir stórfelldum breytingum. Ríkistjórnin hefur lofað iðnaðinum gífurlegu magni til viðbótar af ódýru rafmagni svo nú er um að gera fyrir raforkufyrirtækin að byggja stíflur með hraði. Hrafn flýgur fyrir ofan mig og ef ég gæti fylgt honum sæi ég öll þau svæði sem komin eru á dauðalistann. Í austri sæi ég Þjórsárver með sitt sérstaka mósaíklandslag - og stærsta varpsvæði heiðargæsarinnar í heimi– svæði sem er á alþjóðalista Ramsaráætlunar yfir votlendi með alþjóðlega mikilvæga þýðingu. Landsvirkjun lætur sig enn dreyma um virkjun beint fyrir neðan Þjórsárver sem yrði skelfilegt fyrir þetta einstaka svæði. Ekki langt frá Þjórsárverum sæi ég Hágöngur; stórt svæði með heitum hverum sem var drekkt árið 1998. Liti ég til norðurs gæti ég auðveldlega fylgt hlykkjóttri leið Jökulsár á Fjöllum til Íshafsins. Landsvirkjun hefur haft Jökulsá á Fjöllum í siktinu í mörg ár, en hikar við að skjóta. Náttúruverndarsamtökin hafa krafist þess að allur áfarvegurinn verði friðaður, en í þeim takti sem vatnsvirkjunarlestin þeytist áfram sjá allir að stöðugt þarf nýjar fórnir til virkjana til að halda gangandi hinni efnahagslegu þenslu.
Verði Jökulsá virkjuð skemmast í einu vetfangi öll bestu náttúrusvæði norður Íslands. Stærsti foss Evrópu, Dettifoss, mun þorna upp, þó svo að Landsvirkjun hafi gefið í skyn að hleypa megi á hann vatni á sumrin þegar ferðamannastraumur er hvað mestur. Margt fleira kemur einnig til með að glatast og sem dæmi má nefna hinn nýuppgötvaða og einstaka Sönghofsdal í Krepputungu þar sem heyra má álfa syngja – þó að náttúrufræðingar telji að um bergmál frá minni fossum sé að ræða.
Lengra til norðus við hlið Mývatns sæi ég Laxá, hina frægu lax og silungsá sem nú á að gegna hlutverki varaár. Laxármálið er mjög viðkvæmt eftir náttúruverndarstríð árið 1970 sem endaði með því að bændur sprengdu stífluna. En nú blása aðrir vindar og jafnvel dagar Laxár geta verið taldir.
Til suðurs sæi ég fjöldan allan af svæðum sem bíður þess að vera fórnað. Ég sæi fallegasta vatn hálendisins, Langasjó, sem brátt verður horfinn. Og í námunda við Mýrdalsjökul og Torfajökul eru fleiri ár og fossar sem syngja nú sitt síðasta vers.
Mér verður hugsað um ljóðlínur úr kvæði Egils Skallagrímssonar ,,Sonartorrek” þar sem hann syrgir lát sona sinna. Það er oft lesið við jarðarfarir á Íslandi og á því vel við hér:

Hver mér hugaðr
á hlið standi
annar þegn við óræði.
Þarf ég hans oft
of hergjörnum.
Verð ég varfleygur
er vinir þverra.

Sænsk stórfyrirtæki sem áður höfðu hætt við þátttöku í Kárahnjúkavirkjun sökum ótta við umhverfissjónarmið eru nú á leið til baka til hálendisins. NCC hefur beðist afsökunar á að hafa hlustað á gagnrýnisraddir og vonast nú eftir að fá að byggja göng og Skanska hefur boðið sig fram til að byggja stífluhúsið í Kárahnjúkavirkjun. Uppgjafartilfinning breiðist út meðal þeirra sem barist hafa fyrir verndun hálendisins. Þróunin rúllar áfram eins og óraunverulegur draumur og allir vita að ekki verður aftur snúið nema þrýstingur á stórfyrirtækin verði of mikill erlendis frá.
Orðrómur segir að hægt sé endurbyggja risavöxnu Búddalíkneskin í Afganistan. Það hljómar vel en er þó eiginlega ekki svo undarlegt, því það sem maðurinn hefur skapað getur hann gert aftur. Þannig er því miður ekki farið með hálendi Íslands. Það sem nú er verið að eyðileggja glatast að eilífu.

Torgny Nordin