Frá því í æsku hef ég alltaf verið einn af “góðu strákunum”, verð reyndar að viðurkenna að ég hef gert nokkra slæma hluti seinustu árin á uppreisnartímabili gelgjunnar en samt svona almennt myndi ég telja að ég hef verið góður strákur. En núna er ég orðinn 18 ára sjálfráða einstaklingur og er að læra margt nýtt um lífið og tilveruna, og skynja betur hvernig þessi heimur okkar raunverulega virkar. En einmitt það sem mér finnst leiðinlegt er það þessi “staðreynd” að maður þarf að vera algjör tík (gildir í raun bæði um kk og kvk) til þess að þola þetta samfélag okkar. Það á nefnilega að vera þannig að fólk veður yfir góða fólkið, jú eitthvað vit í þessu en mér finnst samt fólk vera að fara langt út í öfga í þessum málum.

Við sem að vorum talin vera ein af indælustu þjóðum heimsins erum að breytast í tíkur og asna mjög hratt, allir hugsa um sinn eigin hag og vaða yfir aðra og þá auðvitað sérstaklega góðu einstaklingana. Ég sjálfur hef einnig verið að breytast í þessa átt (að viðurkenna vandamálið er auðvitað fyrsta skrefið) og er oft að hegða mér á þann hátt sem ég hefði aldrei trúað upp á sjálfan mig fyrir nokkrum árum. En auðvitað er mikilvægt að vera stundum ákveðinn og að leyfa fólki ekki að vaða yfir sig, og einnig hafa sjálfsálitið í lagi. En öfgar eru slæmir og þá auðvitað í báðar áttir, og það er eins og mjög margir fari út í öfga í þessum málum án þess að átta sig á því. Fólk eru jafnvel sokkin það djúpt að rakka niður fólk sem að eru í verri störfum, með verri menntun, ekki jafn miklir hæfileikar (t.d. í stafsetningu), fólk af öðrum uppruna og fólk sem að tilheyrir annarri kynhneigð (og lengi er hægt að telja). Og svo jafnvel bara mjög svipaða einstaklinga í þjóðfélaginu sem þeim bara persónulega líkar illa við.

Ég hef tekið sérstaklega eftir því seinustu tvö árin hvað fólk getur verið grimmt við mann fyrir einfalda hluti eins og að vera maður sjálfur. Eða t.d. að gera óvart mistök og fá skammir frá ókunnugum einstaklingum á mjög grimmilegan hátt þó maður hafi afsakað sig. Man vel eftir því þegar ég var 14 ára gamall að bera út dagblað, ég var að leysa af stelpu í 3 vikur og þetta gekk alveg ágætlega að mínu mati. En svo byrja að streyma inn kvartanir frá sömu konunni um að hún fái aldrei blaðið sitt, en það var greinilega ekki nóg að hringja inn og kvarta heldur beið hún eftir mér einn morguninn til þess að fá að skamma mig sjálf. Ég vil taka það fram að ég er alveg viss um að ég hafi alltaf skilað inn blaðinu hennar á rétta tíma þar sem hún var eini áskrifandinn í blokkinni, svo ég man alltaf eftir því að hafa sett blaðið hennar í hólfið. En nei hún var greinilega búin að semja litla ræðu fyrir mig, hvað ég væri búinn að standa mig illa og hversu hræðilegt það væri að ungt fólk gæti ekki lengur gert neitt án þess að vera löt og klúðra því. Sagði að ef hún myndi ráða að þá myndi ég ekki fá nein laun þó ég væri búinn að vera að bera út í rúmlega viku, af því að þetta gengi svona illa hjá mér. Endaði þessa ræðu með því að segjast ætla að hringja inn og heimta að ég yrði rekinn eða að hún myndi segja upp áskrift. Klukkutíma seinna fékk ég hringingu þar sem mér var sagt upp.

En hvað held ég að hafi raunverulega skeð ? Jú þetta var ein af þessum blokkum þar sem að póstkassarnir eru mjög litlir þannig að toppurinn á blöðunum stendur alltaf upp úr, svo eins og hefur skeð í mörgum blokkum að þá var einhver nágranni að stela blaðinu hennar. En þessar útskýringar mínar höfðu engin áhrif, konan var búin að hóta að segja upp áskrift og sem viðskiptavinur verða þeir að taka mark á henni. Ég ætla ekkert að fara að gagnrýna þetta dagblað neitt sérstaklega enda er kannski frekar erfitt að vita hvort að blaðberinn sé að segja satt eða ekki, en ég tel að svona frekjuskapur eins og hjá þessari konu eigi ekki að vera sættanlegur. Hún var nefnilega eins og mörg fólk að vera algjör tík til þess að tryggja réttindi sín (réttindi til þess að fá blaðið sem hún borgaði fyrir). Ég er ekki að segja að fólk eigi aldrei að kvarta eða gera athugasemdir, það sem ég er að segja er að fólk eigi að róast í því að gera það persónulegt og jafnvel vera að niðurlægja fólk. Fólk ætti að fá útrás á annan hátt en að hella sér yfir 14 ára unglinga.

Og svo einnig eins og ég nefndi áður að þá getur fólk hagað sér svona þegar þetta tengist stöðu fólks í samfélaginu. Ég sjálfur hef lent í því að vera rakkaður niður fyrir það að vera ungur, þunglyndissjúklingur, “FM hnakki”, samkynhneigður, vera í fjölskyldu í miklum fjárhagserfiðleikum, og margt fleira sem að tengist minni stöðu í samfélaginu. Það er eins og fólki líður eitthvað betur um hvernig þau sjálf eru og finnst þau vera æðri með því að gagnrýna fólk fyrir það að vera öðruvísi eða í öðruvísi aðstöðu en þau sjálf. En hver ætli ástæðan sé ? Mannlegt eðli ? Uppeldi ? Eða kannski bara blanda af báðum ? Alveg frá því í æsku hefur samfélagið og fjölskyldan ætlast til þess að maður fari í lífsgæðakapphlaup og reyni að vera betri en allir aðrir, hvort sem það sé í menntun/starfi, íþróttum eða félagslífinu. Svo maður er kannski ekkert hissa að sumir gleymi sér í þessu kapphlaupi og fara í öfga með þetta, og lýta jafnvel á meirihluta fólks sem vissa ógn.

Ég ætla að ganga það langt og segja að þetta er í raun ein af aðal ástæðum þess að fólk eru t.d. að finna fyrir þunglyndi og/eða leggja fólk í einelti, út af þessum þrýstingi frá kapítalíska þjóðfélagi okkar (er ekki almennt að gagnrýna það heldur bara að segja að fólk misskilur og fer út í öfga). En er hægt að breyta þessu ? Verður þetta alltaf hluti af okkar eðli eða mun þetta kannski breytast ef við gerum átak gegn þessu ? Eða eruð þið kæru Hugar kannski bara sátt við þetta ? Eru samskipti fólks almennt í lagi í þessu nútíma þjóðfélagi okkar ? Ég vona alla vega að ég hef fengið allavega nokkra einstaklinga núna til þess að hugsa út í þetta, ekki beint það sem maður er vanur að ræða um en ég gerði mitt besta og vona að fólk átti sig á því hvað ég er að tala um.

En eins og ég sagði þá hef ég pínu verið að fara í þess átt, það er eins og því oftar sem að fólk misnotar góðgerði manns að því minni verður hún hjá manni. En samt sem áður þá dreymir mig um þjóðfélag í framtíðinni þar sem maður getur verið maður sjálfur og góður einstaklingur án þess að fólk sé eitthvað sérstaklega að vaða yfir mann. Endilega svarið óháð því hvort þið séuð sammála þessari grein eða ekki, umræða er eiginlega alltaf af hinu góða. : )

Kveðja Skuggi85.