Sameining sveitarfélaga er stærsta byggðamálið !!
Það er alveg ótrúlegt hvað það eru ennþá til margir örhreppar á landinu og hvers vegna í ósköpunum hefur ekki ennþá verið gripið í taumana af hálfu hins opinbera. Enn þann dag í dag er lágmarks íbúatala sveitarfélags svo það teljist halda sjálfstæði sínu (sem er í raun sjálfstæði um ekki neitt) miðuð við íbúatöluna 50 sem lágmark. Það er með ólíkindum að þessi tala skuli ekki hafa verið hækkuð fyrir löngu síðan. Lámarksíbúatala sveitarfélags ætti a.m.k. að vera tíu sinnum hærri. Hvers vegna? Jú tökum dæmi af sveitarfélagi, sem ég þekki, og einkennist af mismunandi sjónarmiðum íbúanna, öllum sem þar búa til hinna mestu leiðinda. Íbúafjöldinn telur tæpa átta tugi, í sveitastjórn og til vara eru 10 manns, í skólanefnd eru jafnmargir, tvo þarf til að endurskoða reikn. sveitastj. og aðra 2 til vara. þarna eru komnir um 24 aðilar og er þó enn eftir slatti af nefndum sem skilt er að manna lögum samkvæmt, en nóta bene, virka ekki á nokkurn hátt eins og þeim er ætlað, vegna fámennis, kunningja og skyldmenna- samfélagsins. Í þessum hreppi sem og mörgum öðrum jafnlitlum er meðalaldur íbúanna hár. (Hvers vegna? Vegna samfélagsins? Þjónustuna sem ekki er hægt aðveita?) þannig að segja má að þegar börnum, gamalmennum og öðrum þeim sem eru forfallaðir á annan hátt, búa t.d. ekki á svæðinu, eru taldir frá eru u.þ.b. 15 - 20 manns sem eiga að sitja allar nefndirnar, og þá þarf að viðhafa allavega tilfæringar svo að þetta geti litið sæmilega út. Þá er það einnig kunnara en frá þurfi að sega að sem oddvitar, sitja gjarnan einhverjir gamlir kallar sem lítinn eða engan skilning hafa á nútíma samfélagi, skilja lítt eða ekkert hvað er að gerast í skólamálum, geta ekki sett sig í spor ungs fólks né skilið þeirra þarfir. Það eina sem smáhreppapólitíkin snýst um er að hanga á sínu eins og hundur á roði. Það er í raun mjög dapurlegt að enn skuli stór hópur landsbyggðafólks í mörgum smáhreppum telja að sjálfstjórn tiltölulega fárra íbúa sveitarfélagsins, á helstu málefnum þess, sé það skipulag sem best sé til þess fallið að gæta hagsmuna þeirra. Þetta skipulag leiðir til mjög þröngra hagsmunagæslu á tiltölulega afmörkuðum svæðum sem þó eru meira og minna háð þróun nærsta stóra sveitarfélags. Þetta er heimóttarhugsunarháttur þeirra sem hafa sjóndeildarhring sem er oftast jafnvíður túngarðinum hjá viðkomandi. Aukinn menntun vinnur þó hægt en örugglega gegn fáfræðinni og skilningsleysinu. ,,En stundum verður að taka ráðin af fólkinu´´ sagði einn virtasti stjórnmálamaður okkar og forsætisráðherra til margra ára eitt sinn. Þessi orð eiga svo sannarlega við í þessu sambandi. Og það þarf að gerast fyrr en seinna. Smáum sveitarfélögum er ætlað að veita samskonar þjónustu og stærri samfélögum sem er auðvitað útilokað í framkvæmd og því ekki gert, og því hallar undan fæti hjá þeim þar sem þau eru. Fólkið sem einhver töggur er í flytur burtu, hinir verða eftir. Nútíma samfélag krefst þess að stjórkerfið sé skilvirkt og að hægt sé að taka ákvarðanir á faglegum grunni. Þessu er ekki til að dreifa í smáu sveitarfélögunum þar sem flest einkennist af varnarbaráttu og skammtíma reddingum. Tímarnir í dag eru tímar aðgerða og frjórrar hugsunar og það skilur nú um þessar mundir mjög ört á milli þeirra sem gera sér grein fyrir breyttum tímum og þeirra sem þá ekki skynja né skilja. Sitjandi krákan sveltur en sú fljúandi fær, þetta er ekkert flóknara en það. Auðvitað verða margir fylgikvillar samfara þessum breytingum hjá því verður ekki komist, en til þess að sjúklingnum batni þarf stundum að framkvæma uppskurð svo hann megi ná heilsu á ný.
Í þessu tilfelli er uppskurður miklu betri kostur heldur en langvarandi uppdráttarsýki.
Á því leikur enginn vafi að afdalahugsunarháttur fáfræðinnar og óttinn við breytingar eru einn sá mesti dragbítur byggðalaga allt of víða á landsbyggðinni. Á sumum landssvæðum hefur þó víða verið tekið til hendinni og verið blásið til sóknar og er það vel.
Ég vil skora á ráðamenn þjóðarinnar að skoða þessi mál af fullri alvöru, áður en það verður of seint. Um jafn brýnt mál, sem verður allra hagur þegar frá líður, hlýtur að vera hægt að ná þverpólitískri samstöðu. Höldum landinu í byggð og gerum unga fólkinu gerlegt að búa í sveitum þess.