Í gær(8. janúar) heyrði ég brot af umræðum við Magnús Eiríksson STEF-ara og einhvers fulltrúa símafyrirtækis í Ísland í dag. Umræðuefnið var það að STEF vildi að símafyritækin færi að fylgjast með downloadi manna og hvað þeir væru að sækja sér og að mér heyrðist þá ætti að láta vita ef menn væru að sækja sér tónlist í gegnum netið. Maggi kvartaði yfir því að hljómlistamenn misstu svo miklar tekjur af þessu nú þegar liðið er metsöluár í plötusölu. Fulltrúi símafyrirtækisins benti á að ef þeir færu af stað með svona eftirlit þá væru verið að vaða inn á friðhelgi einkalífsins og fengju örugglega athugasemdir við þetta frá Persónuvernd við þessu. Fulltrúi símafyrirtækisins sagði að ef þetta væri heimasíðu þar sem allir hefðu aðgang þá væri gerð athugasemd og ef eigandi síðu kæmi með rök fyrir tónlistinni, hvers vegna hún væri þar þá aðhefðust þeir ekki neitt og það væri þá STEF sem grípa ætti til aðgerða. Í lokin var Maggi enn á því að þetta ætti að fara af stað í einhverju formi og símafyrirtækin ættu að fara að ræða við STEF um eftirlit sem fyrst.
Ég verð að játa að ég var hálf orðlaus eftir þetta. Eins og ég skil þetta þá er þetta ekkert annað en persónunjósnir og fasismi hjá STEF að þeir eigi að vera rétthærri en einkalíf fólks. Hvað er að? Ég hef alveg samúð með hljómlistamönnum varðandi að missa tekjur vegna ólöglegar afritunar en að fara að koma af stað einhverju Stóra bróðurs eftirliti með öðrum, það er fullangt gengið. Hugsunarhátturinn og græðgi hjá STEF er einnig með ólíkindum. Fyrir nokkrum árum komu þeir í gegn STEF-gjöldum á tóma geisladiska og þá varð reyndar það samkomulag eftir mikið fjaðrafok að fólk mætti afrita íslenska tónlist á þá. Þó hafa þeir farið af stað með copy-varnir! Annað í kringum það mál var Kastljós-þáttur sem Maggi Eiríks mætti í og náungi frá Samtökum hugbúnaðarframleiðanda sem var ekki sáttur við þessi gjöld. Eitt sem kom í þeim þætti var þegar hugbúnaðarmaðurinn benti réttilega á, að hugbúnaður, skjöl o.fl. væri afritað á þessa diska hjá fyrirtækjum t.d. og einnig að framleiðendur forrita yrðu einnig fyrir fjárhagstjóni af brennslu og hvort þeir ættu þá ekki að fá einnig þessi gjöld. Magnús hnussaði í þessu og svaraði, uppfullur hroka að forrit væru ekki það sama og tónlist og það væri ekki hægt að bera þessa hluti saman, höfundarréttur á forritum, skjölum o.sv. væri ekki það sama og höfundarréttur á tónlist.
Annað sem ég hef heyrt en ekki fengið staðfest er að STEF mismuni sínum eigin félagsmönnum eftir hvar tónlist þeirra sé spiluð í útvarpi. Þeir sem eiga tónlist sem spiluð er á Bylgjunni, RÚV og að ég held FM, fá vel borgað á meðan þeir sem eru með tónlist spilaða á X-inu og öðrum rökk/jaðartónlistastöðvum, fá sama og ekki neitt. Það er ýmislegt fleira með STEF en eins og manni sýnist þá stjórnast þeir af græðgi og þá af fámennum hópi sem hefur hagsmuna að gæta.
Ég held að það sé kominn tími til að þessir menn fari að hugsa lengra en buddan allavega.