Vart líður sá dagur að ekki komi nýjar fréttir af tilskipunum frá yfirvöldum í USA um hitt og þetta sem varðar flug til US. M.a. krafa um að vopnaðir verðir verði um borð í flugvélum sem fljúga þangað. Dabbi og Dóri tóku þetta til vinsamlegrar athugunar, nema hvað!!!!!
Þetta mætir harðri andstöðu samtaka flugmanna og flugfélaga víðast hvar. Ekki er þetta talið auka öryggi í flugi nema síður væri. M.a. möguleiki á að þetta spari hugsanlegum flugræningjum það erfiði að smygla vopnum um borð í vélarnar. Vopnin verða þar fyrir. Hvaða möguleika á t.d. einn ögyggisvörður, þótt vopnaður sé, gegn 5 til 7 manna hópi öfgasinna, sem eru að fara sína hinstu ferð Guði sínum til dýrðar, og ráðast að honum úr öllum áttum, allir í senn. Það skiptir engu fyrir þannig menn, hvort þeir falla fyrir byssu öryggisvarðarins eða þegar vélinni verður flogið á byggingu eða annað skotmark. Það nægir að einn lifi og nái vopninu og vélinni.
Hver á að gæta öryggisvarðarins, að hann sé sá sem menn halda að hann sé?
Greint var frá nýjasta útspili US til aukins flugöryggis, í Morgunblaðinu í dag (8/1). Hér er um fullkominn “Hafnafjarðarbrandara” að ræða. Nú verður einungis einum í einu leyft að verða mál að pissa og kúka á sama tíma. Ekki má myndast biðröð við klóið. Þetta er algerlega í anda Ráðstjórnarríkjanna sálugu. Ekki veit ég hvernig þetta hentar íslenskum konum sem geta með engu móti farið nema tvær, þrjár eða fleiri saman á klóið. Sennilega þarf að ákveða í upphafi flugs hvenær hver pissar eða bóka það með farseðlinum í hvaða röð menn ganga örna sinna. Og menn verða væntanlega að nota bókaðan tíma hvort sem þeir þurfa eða ekki. Annað kynni að valda tortryggni.
Þetta gæti gengið svona:
“Er það hjá Flugleiðum? Já góðann daginn, ég ætla að bóka flug til US 3. mars 2004 kl 07.55, og bókaðu 3ja mínútu piss kl 09.11 og 5 mín. piss kl 11.37. Ó eru þeir tímar bókaðir, þar fór í verra, ég á svo erfitt með að hnikra þessu til, þetta er í svo föstum skorðum hjá mér.”
Kannski verður hægt að kaupa og selja “pisskvóta” í fluginu til að ná hámarks nýtingu og hagræði rétt eins og í sjávarútveginum íslenska. Ljótt ef “pisskvótinn” færist á fáar “hendur”, og sumir verði algerlega kvótalausir.
Margt bendir til að Bandarísk stjórnvöld stefni að því leynt og ljóst að taka að sér hlutverk STÓRA BRÓÐUR. Framkoma þeirra í Sameinuðuþjóðunum er í þá veru og þeim til skammar. Engin þjóð skuldar UN meira en þeir, samt vilja þeir ráða öllu þar.
Formúla þeirra er þessi:
Ef UN er sammála US þá má UN ráða. En ef UN er ósammála okkur þá ráðum við.
Vaxandi fylgi, á sú einkennilega skoðun að fagna, vestanhafs og víðar, að verja verði frelsið með öllum tiltækum ráðum, þó til þess verði að setja reglur, boð og bönn, um nánast alla skapaða hluti. Og svipta menn þannig frelsinu sem átti að verja. Þetta endar aðeins á einn veg. Við fáum Sovét frelsi með öllum þess “kostum.” Að allt sem ekki er með reglugerð eða lögum leyft, ER BANNAÐ! En EKKI að það sem er ekki beinlínis bannað, sé leyfilegt. Á þessu tvennu er reginmunur. Haldi þessi þróun áfram á þennan hátt verða Bandaríkin orðin að fasísku lögregluríki innan mannsaldurs. Í slíku ríki verður fylgst með hverju fótmáli þegnanna til að vernda þá fyrir sjálfum sér.
Þá verður ógnin ekki í austri, eins og Sjálfstæðismönnum hefur fram að þessu, gengið svo vel að telja þjóðinni trú um, heldur í vestri. Þá þarf að temja þjóðinni nýja hugsun, að ekki sé um ógn að ræða heldur að frá vestri blási aðeins þýðir vindar “frelsis með fyrirhyggju.”
Þar mun General Bjarnason með Ævisögu-Hannes sér við hlið, fara fyrir liði, sem fyrr og halda á lofti merki föður síns, Bjarna Ben.
Magnaður ótti íslenskra íhaldsmanna við kommúnista var viðvarandi alla síðustu öld og jaðraði við sjúkleika eins og hjá Bjarna.
Það var hans fyllsta sannfæring að yfirvofandi væri árás Sovét á Ísland og hernám. Það var jafnframt sannfæring hans að íslenskir sóialistar sætu á svikráðum og biðu aðeins tækifæris að svíkja þjóðina í hendur kommunum. Til að redda þessu fyrir horn sviku Sjallarnir landið sjálfir, en í hina áttina, sem okkur hefur verið sagt að sé tvennt ólíkt. Svik í austur var klárt landráð en svik í vestur, eitthvað allt annað! En ítrekað kom í ljós að ótti þeirra á meintum svikum sósialista var ástæðulaus. En samt eru þeir enn við sama heygarðshornið. Ógnin í austri er fyrir bí en samt hefur aldrei verið meiri þörf á NATO, segja þeir.
Rök þeirra eru hryðjuverka ógnin!!!
Hverju breytti öflugast herafli í heimi, á láði, lofti og legi, 11 sept 2001. Allir vita svarið en sumir berja samt áfram hausnum við steininn og setja kíkinn fyrir blinda augað, sælir í sinni sannfæringu.
Það sem að baki liggur er vist kallað drottnunargirni.
Einhverjir gætu af skrifum þessum dregið þá ályktun að undiritaður sé kommi en því fer víðsfjarri. Ég var ekki hrifinn af Sovétríkjunum og því sem þau stóðu fyrir. Mig hryllir einungis við þeim möguleika að Ráðstjórnarríkin og sá óskapnaður allur endurfæðist með öfugum formerkjum vestur í henni Ameríku.
Lítill munur er víst á kúk og skít.
Kveðja,
Lotti.