Opið bréf til virðulegs verðandi Menntamálaráðherra.

Kæra Þorgerður K. Gunnarsdóttir verðandi menntamálaráðherra Íslands. Þú sem tilvonandi æðsti maður menntamála í landinu,kemur þú til með að bera ábyrgð á Listaháskóla Íslands. Ég skrifa þetta bréf til að fá svör við nokkrum spurningum.

Ég er 23 ára gamall, lengi hef ég stefnt að því að læra leiklist og hef horft til leiklistardeildar Listaháskóla Íslands, því að það er hentugasti kosturinn fyrir mig og okkur öll þau sem vilja læra leiklist. Svo ég tali eingöngu fyrir mig að þá er ástandið þannig að ég fer í inntökupróf fyrir leiklistardeild Listaháskólans síðastliðið vor og næ þar ágætis árangri, var því miður ekki einn af þeim sem komust inn í skólann í það skiptið. En horfði bjartsýnn til vorsins 2004 um að gera aðra tilraun til að komast inn í skólann.

En fljótlega þegar líða fer á sumarið að þá fara að heyrast þær raddir að ekki verði haldin inntökupróf í leiklistardeild vorið 2004. Ég fer að grennslast fyrir um það hvort að þetta sé á rökum reist, og kemst að því mér til mikilar skelfingar að svo sé. Þær ástæður sem ég fékk fyrir þessari ákvörðun voru þær að ekki væri til fé til að taka á móti nýnemum árið 2004 og einnig sú ástæða að LHÍ væri í húsnæðiskreppu .þ.e. að núverandi húsnæði er hvorki nógu stórt né nógu boðlegt fyrir þá starfsemi sem á að vera þar.

Einnig skilst mér að þurft hafi að skera niður í því námi sem er kennt innan leiklistardeildar vegna ónógs fjármagns. Nú verð ég að viðurkenna að ég veit ekki fyrir víst hvort að sá skilningur minn sé réttur, að með stofnun LHÍ hafi átt að gera leiklistardeildinni kleift að taka inn nemendur á hverju ári, en ekki taka inn nemendur í þrjú ár en hvíla inntökuprófin á því fjórða eins og það var. En allavegana er staðan þannig í dag og er það miður. Og eins og staðan er í dag, að þá mun það ekki breytast, en ég vona að með tilkomu þinni í embætti Menntamálaráðherra, mun þetta breytast.

En ef að þetta mun ekki breytast og ástandið verða óbreytt, að þá hef ég og aðrir þann möguleika á því að fara erlendis og reyna fyrir okkur í skólum þar. En það er mjög óhentugur kostur fyrir mig ( og aðra ) því að það er mun dýrara nám heldur en hér heima og ekki lánshæft nema að mjög litlu leyti hjá Lánasjóði Íslenskra námssmanna, og það er vegna þess að Við eigum möguleika á þessu námi hér heima!!!

Er þetta ekki frekar mikil tvískinnungsháttur, því að eins og staðan er í dag verður ekki tekið inn í LHÍ næsta vor og því á ég ekki möguleika á þessu námi hér heima!! Nú vil ég taka það fram að þótt að það yrði svo að tekið yrði inn í LHÍ í vor að þá er ég ekki öruggur inn, frekar en einhver annar, en það myndi samt veita mér tækifæri á því að láta reyna á það, og það án þess að ég þurfi að bíða í 15 – 16 mánuði eftir því að sækja um, verandi búinn að bíða síðan í apríl 2003.

Því spyr ég þig, Þorgerður Katrín, hver er stefna þín í þessum málum. Er það stefna þín og tilvonandi ráðurneytis að halda eina starfandi Listaháskólanum í landinu í fjárhags og húsnæðisvanda, eða munt þú beita þér fyrir því að koma LHÍ í almennlegt húsnæði, og tryggja fjármagn til þess að hægt sé að taka inn nemendur á hverju ári. Munt þú skoða þetta mál eitthvað frekar eða muntu láta þetta hjá liggja eins og oft virðist gerast þegar talið berst að listum og menningu ( eitt dæmi er Tónlistarhús, en ég ætla ekki að tala um það hér ). Munt þú beita þér fyrir því að tryggja öflugt menningarlíf í landinu og gera það að verkum að ungt fólk þurfi ekki að leyta til annara landa til að læra það sem það hefur löngun til að læra. Eða ef ekki, munt þú beita þér fyrir því að gera mér ( og öðrum ) kleift að sækja um í skólum erlendis og tryggja okkur það að Lánasjóður Íslenskra námsmanna veiti okkur fullt lán til þess að sækja það nám. Að lokum óska ég þér farsældar í komandi starfi og með von um breyttar áherslur á Listanámi á Íslandi.