Stúdentar við Háskóla Íslands fengu nýlega tilkynningu í tölvupósti frá Þórði Kristinssyni, framkvæmdastjóra akademískrar stjórnsýslu við skólann. Í tilkynningunni kemur fram, að þrátt fyrir að nemendur á skólaárinu 2003-2004 séu áætlaðir um 5750, hafi skólinn fengið fjárveitingar sem miðist við 5200 nemendur. Í framhaldi segir í bréfinu, að grípa þurfi til aðhaldsaðgerða við skólann.
Í ljósi þessara erfiðleika langar mig til að leggja fram vangaveltur um einn kostnaðarþátt skóla og nemenda; hugbúnað. Það er rétt að taka fram að ég hef ekki rannsakað þetta mál sérstaklega, né hef ég tölur á reiðum höndum, eða bý yfir sérþekkingu á þessu sviði. Það sem ég veit, er að samkvæmt vefsíðu Reiknistofnunar Háskóla Íslands, hefur Háskólinn 17 tölvuver með 270 tölvum. Fyrir utan það að vélbúnaðurinn kosti sitt, getur hugbúnaður kostað verulegar fúlgur.
Tveir hugbúnaðarpakkar eru væntanlega mikilvægastir fyrir flesta nemendur. Án stýrikerfis er ekki hægt að nota tölvurnar og án skrifstofuhugbúnaðar á borð við Microsoft Office, yrði ekki hægt að vinna flest skólaverkefni á tölvunum. Í tölvuverum HÍ er einmitt boðið upp á tölvur með Windows 2000 Professional stýrikerfinu og Microsoft Office 2000 hugbúnaði.
Það er ekki léttur leikur að geta sér til um hvað kostar að hafa þennan hugbúnað á 270 tölvum. Windows 2000 Pro kostar (skv. vef Tölvulistans) með nýrri tölvu 19.900 krónur. Office 2000 virðist hafa vikið fyrir nýrri gerðum og Office 2003 kostar til kennara og nemenda 19.900 krónur. Nú geri ég alls ekki ráð fyrir að við getum lagt saman þessi tvö verð, margfaldað með 270 og höfum þar með fengið út hvað þessi hugbúnaður allur kostar. Viðskiptavinir með svona margar tölvur geta væntanlega keypt sérstök leyfi og hugsanlega fengið afslætti. Því væri misvísandi að ég færi að slá fram einhverjum tölum út í bláinn.
En skólinn er ekki einn um að þurfa að kaupa hugbúnað. Flestir nemendur eiga væntanlega tölvur og vilja geta notað þær við námið, sér til hægðarauka. Til að lenda ekki í vandamálum með gagnaform, kjósa væntanlega mjög margir að nota sama hugbúnað og er notaður í skólanum. Ef nemandi vill ekki fremja glæp og afrita hugbúnaðinn ólöglega, þarf hann hugsanlega að borga umræddar 19.900 krónur til að fá sama hugbúnað og skólinn. Þetta er ekki léttur biti fyrir flesta námsmenn, þó líklegast þurfi aðeins að fjárfesta í búnaði sem þessum einu sinni meðan á námi stendur.
Ég hef því velt fyrir mér hví Reiknistofnun setji ekki upp forrit, sem er hægt að nota sér að kostnaðarlausu, sambærilegt við MS Office á vélum sínum. Sjálfur setti ég upp OpenOffice á tölvuna mína nýlega og ætla að sjá hvernig það dugar, a.m.k. fyrir smærri verkefni. Ef HÍ byði upp á það forrit á sínum vélum gæti ég ábyggilega óhræddur notað það, vitandi að ég þyrfti ekki að lenda í veseni þegar ég opna skjölin í skólanum. Nú hef ég ekki næga reynslu af OpenOffice til að gera samanburð á því við MS Office. Þó má benda á að OpenOffice fékk góða einkunn hjá zdnet.co.uk og eftirfarandi umsögn: “This feature-rich, flexible and, above all, free office suite is much more than a refuge for the anti-Microsoft tendency. It works, it’s reliable and it’s useful.” Ekki nóg með það, heldur er OpenOffice til fyrir öll helstu stýrikerfi, s.s. Windows, MacOS og Linux.
Því hlýt ég að spyrja hvort það sé ekki þess virði að gera tilraun með að nota hugbúnað á borð við þennan, með það í huga að hægt yrði að spara fjármuni með þessu móti, þó ekki verði nema síðar.
Síðan er einnig hægt að nálgast ókeypis stýrikerfi. Linux hefur verið umtalað undanfarið, en reynsla mín og þekking á þeim búnaði er með minna móti. Stóra spurningin er alltaf hvort kostnaður af því að nota ókeypis hugbúnað sé það mikill að hann borgi sig ekki. Mig grunar nefnilega, að m.v. þá vinnu sem flestir nemendur nota tölvubúnað skólans til, ættu þeir að þurfa einungis minniháttar aðlögun að nýjum búnaði. Það er ekki svo erfitt að opna ritvinnslu eða netvafra í gluggakerfi sem maður er ekki vanur, eða hvað?
Augljóslega er engin niðurstaða af þessum skrifum mínum. Ég vona fyrst og fremst að ég hafi varpað fram góðum og gildum spurningum og fái við þeim greinargóð svör frá málsmetandi fólki. Þannig gæti komið fram hvort það sem hér hefur verið rætt, sé hugsanlegur möguleiki til að spara skólum og nemendum fjármuni, án þess að koma niður á gæðum kennslu- og námstækja.
Með von um uppbyggileg svör.
Höfundur er nemandi við Háskóla Íslands.