Það eru ekki mín rök að BNA hefðu ekki átt að “bjarga” Írak án þess að bjarga öllum öðrum þjóðum. Það er annað hvort útúrsnúningur af þinni hálfu, eða þú bara skilur ekki það sem ég er að segja.
Setjum dæmið upp svona (5 ára krakki ætti að skilja þetta):
BNA ákveða að koma þurfi einræðisherrum frá völdum þar sem þeir séu vondir menn.
Þeir draga upp landakortið og hugsa “hvar getum við úthýst þessum skúrkum?”.
Flestir sem væru í þeim bransanum, myndu búa til lista og raða honum í forgangsröð, því ef þú tekur út þann versta fyrst, þá færðu stuðning almennings og líkur eru meiri á því að hinir veikari gefist upp áður en þú leggur til þeirra.
Í þessu tilviki, var ákveðið að fara til Írak. Ekki vegna þess að Saddam hafi verið sá versti, heldur líklega af tveim aðalástæðum: Her hans var mjög veikburða og illa fær um að halda uppi vörnum landsins og því auðveld bráð - og hann var horn í síðu BNA (reyndi að drepa pabba forsetans og sat að auki á olíulindum sem bandarísk olíufélög komust ekki með puttana í).
Næsta skref er þá að finna réttlætingu á innrás sem hægt er að mynda stuðning í kringum (alþjóða og innanríkis stuðningur er nauðsynlegur, þar sem einhliða innrás einnar þjóðar á aðra án ástæðu er ólögleg með öllu og er litið á slíkt sem stríðsyfirlýsingu af verstu gráðu).
Fyrst reyndu þeir að tengja Saddam við 11. September, BNA menn hefðu samþykkt hvað sem er ef það hefði verið til að hefna 9-11. Engin sönnunargögn þar og sú ástæða hélt ekki vatni. Fólk sá í gegnum það strax og lét í sér heyra.
Þá þurfti að minnast á vondar gjörðir hans. Hann drap 1500 kúrda með gasi. Fólk sá í gegnum það líka, þar sem sá atburður átti sér stað fyrir 18 árum síðan, þegar Ronald Reagan var forseti og honum fannst þetta nú ekki merkilegra en svo að hann skammaði Hussein aðeins og sendi svo Donald Rumsfeld til fundar við hann, þar sem Hussein fékk vopn í massavís. Hann var jú með mikið af olíu og var samvinnuþýður ef hann fékk vopnabúr.
Þá kom upp þessi gereyðingavopna ástæða. Hún var sett þannig fram að hann ætti fleiri tonn af eiturvopnum og væri að reyna að byggja kjarnorkusprengjur og væri tilbúinn að nota vopnin hvenær sem er og það gegn BNA. Gekk þetta svo langt að Cheney sagði að Hussein ætti kjarnorkusprengjur og væri fær um að varpa þeim á BNA (Hardball with Chris Matthews, MSNBC, Ágúst 2002). Hann dró þessa setningu ekki til baka fyrr en sl. vor, eftir að komið hafði í ljós að gögnin sem forsetinn vitnaði í, í ræðu sinni til þjóðarinnar, voru fölsuð.
En þá var stríðið hafið. Bush hótaði Hussein innrás ef hann ekki losaði sig við gereyðingarvopn (sem vissulega væri erfitt að standa undir þegar engin eru til staðar, eins og hefur nú komið í ljós, og Írak var búið að segja það í mörg ár. ótrúlegt en satt, harðstjórinn og skúrkurinn virðist hafa verið að segja satt.)
Vissulega voru það dýrkeypt mistök hjá Hussein að hleypa vopnaeftirlitsmönnum SÞ ekki inn í forsetahallirnar, því þar með færði hann Bush á silfurfati afsökunina “hann er að fela eitthvað”.
Þar sem það hefur nú komið í ljós sem fólk eins og ég hafði haldið fram frá því orðið Írak kom upp í umræðuna, að gereyðingarvopn væru þar ekki að finna, þá þarf Bush nauðsynlega að finna einhverja réttlætingu fyrir innrásinni sem kostar bandaríska ríkið hundruðir milljarða dollara (nú þegar um 160 milljarða).
Þar sem afsökunin sem virkaði fyrst er ónýt, þá fór propagandamaskínan í gang. Útkoman varð sú að helmingur BNA trúir því að Saddam Hussein hafi verið á bak við 9-11, eða hafi í það minnsta vitað af því fyrirfram (ólíklegt þar sem Bin Laden og Hussein voru líka óvinir, þó þeir eigi sameiginlegan óvin í formi BNA).
Fólk er að gleypa við þessu hráu.
Hjá mér situr eftir þetta:
Allar ástæðurnar sem gefnar voru fyrir innrásinni gengu ekki upp. Ef það var einhver ástæða til að fara, afhverju sögðu þeir það þá ekki strax og héldu sig við það? Þetta flikk flakk á milli réttlætinga er það sem gefur til kynna að eitthvað annað standi að baki.
Hver ástæðan var, læt ég ósagt, enda margir möguleikar. En það var ekki af góðvild.
Og í guðanna bænum hættu með þessar lækna samlíkingar, þær eru bara ekki að virka hjá þér.
Undirskriftir með öðru en nafninu manns eru hallærislegar.