Yndislegt. Við lestur á skrifum nútímamanna fyrri kynslóða fyllist ég alltaf eldmóð. Að skoða svona eftirá hvað unga fólkið var að hugsa í öðruvísi stöðum, um lífið og samfélagið..þ.e. stjórnmál, heimspeki, ástina og náttúruna, þetta fyllir mig alla af löngun á byltingu.
Rétt eins og ungir rússar í fyrri heimstyrjöldinni, með miklum og stórum hugsjónum hugðust þeir bæta heiminn. Þeir vildu breyta, brjóta upp hefðina, taka smá áhættu með þá von að kannski kæmi úr því betra líf.
Og anarkistar í dag. Kommúnistarnir í mh. Er Sjálfstæðisflokkurinn enn “stétt stétta”? 15 ára stelpur sem næla Che Guevarra í grænar hliðartöskur. 19 ára strákar sem fara á fund ungra sósíalista. Fólkið sem helgi eftir helgi fer á Sirkus eða Kaffibarinn, listamannabælin..drekkur sig fullt um helgar en iðkar fegurstu listirnar virka daga.
Háskólanemar. Leiklistanemar. Hugsjónamenn, draumórar.
Og mig langar svo í breytingu! Hún gæti farið til helvítis.. farið úr sæmilegu í verra, hver segir að Ísland geti ekki orðið fátækt á ný?
Ónei! Fiskurinn hvarf!
En örvæntið ei, það er eitthvað að gerast, það krauma nýjir og blóðugir ólgandi straumar í samfélaginu. Kynlíf manna er breytt, ásýnd Íslendingsins er breytt. Alltíeinu eru komnir dökkir Eyjaskeggjar. Fólk með undarlegan hreim, málfræðivillur,
rotin sagnabeyging nýju verkamannastéttarinnar.
Við höfum alist upp við íslenskan málfræði-rétttrúnað. Hvergi annars staðar, í engum tungumálum utan þess íslenska hef ég séð þvílíkt viðmót. Þýskukennarinn minn segir að þjóðverjum geti ekki verið meira sama þó þeir noti tökuorð, Suður Ameríkanar eru Allt nema að passa stafsetninguna, þeir spreyja þær meira að segja á húsin sín!
En lengi hafa Íslendingar eytt púðri í að verja fornmálið sitt, incest driven isolated island, á huga.is, málgagni ungra unglinga á Íslandi er hnakkrifist um stafsetningarvillur, beðist er afsökunar við greinarskrifin, skammast er og ýmis uppnefni notuð á þeim sem fylgja ekki réttskriftarstefnunni.
Global. Menningarsuðupottur, internetið er okkar bylting, menningarsamruni er okkar bylting.
Ég sé fram á að ég, tvítug ungmær sé strax að úreldast. Ég er síðasta kynslóðin til að hafa alist upp við “hvíta Ísland”. Elstu krakkarnir sem ég man eftir í uppvexti mínum sem sýnilega voru af erlendum ættum (þeir voru örfáir) en höfðu verið hér allt sitt líf voru einu ári yngri en ég. En það fjölgar sífellt innflytjendum og úrvalið breikkar. Það sem Damon Albarn söngvari Blur sagði fyrir nokkrum árum, að Ísland væri vel geymt leyndarmál er lönguð kjaftað og opinberað. Við erum smátt og smátt að komast á kortið.
Sjálf segi ég nú bara “Guði” sé lof (ef Nietzsche hafði ekki rétt fyrir sér með að sé vera sé dáin), ég rétt vona bara að hræðsla manna við það sem er öðruvísi verði ekki til þess að við förum á mis við þetta mikla tækifæri sem okkur er nú gefið. Við erum ekki lengur ein og einangruð, við höfum fengið nýtt, ferskt blóð á eyjuna okkar. Og nú er að taka sig til kæru hvítu Íslendingar og fræðast um það. Öðruvísi er ekki verra, kannski er þetta kjörið tækifæri fyrir okkur. Hvað varð um frægan ættfræðiáhuga Íslendinga, eru þeir hræddir við krefjandi verkefni á borð við að kafa í ættfræði innflytjendanna??
Er ekki málið að nýta þetta glænýja hugvit í stað þess að henda þessu nýja fólki í heilalaus störf á borð við ræstingar og fiskverkun. Hvar eru þessir framtakssömu græðgisdrifnu verslunarmenn, sjá þeir ekki að hér er glænýr markaður og með því ný gróða-tækifæri??
Það vita það allir að margir þessara innflytjenda eru háskólamenntað fólk og ég giska á að það sé líka fremur kjarkað fólk sem kemur hingað nærri ford-æ-malaust á einangraða eyju útí Íshafi Atlants.
Já! Ég held að þetta sé samfélagsbylting kynslóðarinnar minnar, X , við fáum ekki að vera ungmenni iðnbyltingarinnar og hippatímabilið er löngu liðið, sömuleiðis heimstyrjaldirnar og pönkið.
Nú er Ísland komið skrefinu lengra en á tímum þess að einu útlendingarnir sem komu hingað voru danir, breskir hermenn og svo kanarnir, við höfum nú þegar fengið að kynnast Bandaríkjunum nóg gegnum fyrstu hermennina í Keflavík, kanasjónvarpið, Hollywoodmyndir og tónlistina alla, nú er að kynnast Póllandi, Rússlandi … og leyndardómsfulla austrinu …Asíu….!