Friðrik Skúlason sendi í dag út opið bréf þar sem hann tjáir sig um nýju reglugerðina sem heimilar hækkun á verði óskrifaðra geisladiska og geislabrennara. En hann var þó ekki að mótmæla, heldur reyndi hann að réttlæta að höfundar hugbúnaðar ættu líka að fá sinn skerf af kökunni. Bréfið, sem birtist á Vísi.is og er tekið þaðan í góðum tilgangi, hljóðaði svona:
—————————————————————
Reykjavík 26. febrúar 2001
Opið bréf í tilefni af nýrri reglugerð um innheimtu höfundarréttagjalda
Sem forsvarsmaður íslensks hugbúnaðarfyrirtækis vil ég lýsa efasemdum um nýsetta reglugerð menntamálaráðuneytis, sökum þeirrar mismununar sem hún felur í sér gagnvart höfundarrétthöfum, háð eðli hugverka þeirra.
Með þessari reglugerð eru nú innheimt höfundarréttargjöld af sumum gerðum stafrænna miðla og tækjum til upptöku á slíka miðla. Það er að sjálfsögðu réttur stjórnvalda að leggja á slík gjöld, en ég geri alvarlegar athugasemdir við ráðstöfun þessara greiðslna, en þær virðast eingöngu renna til höfunda tónlistar, kvikmynda og texta sem er fluttur opinberlega.
Ég vil hins vegar fullyrða að íslenskir framleiðendur tónlistar og kvikmynda séu ekki þeir einu sem verði fyrir tjóni vegna afritunar yfir á fyrrnefnda stafræna miðla. Það er að vísu alkunna að umtalsverðu magni tónlistar er dreift á MP3 formi og afritað yfir á stafræna miðla, en hins vegar eru þessir sömu stafrænu miðlar einnig notaðir til dreifingu annarra hugverka, nefnilega hugbúnaðar.
Því spyr ég: Er það réttlátt að innheimt sé höfundarréttargjald af stafrænum miðlum og tækjum til upptöku á slíka miðla, en það gjald renni síðan einungis til hluta þeirra höfundarrétthafa sem gera má ráð fyrir að verði fyrir tjóni vegna afritunar á slíka miðla? Hver eru rök menntamálaráðuneytisins fyrir þessari mismunun?
Þess ber ennfremur að gæta að fyrrnefndir miðlar og upptökutæki eru meðal aðfanga hugbúnaðarframleiðenda. Við dreifum oft okkar hugverkum á fyrrnefndum miðlum og notum fyrrnefndan tækjabúnað til framleiðslu okkar verka. Hvers eigum við að gjalda að vera skattlagðir á þennan hátt?
Fyrrnefndir miðlar eru einnig notaðir til töku öryggisafrita af gögnum einstaklinga og fyrirtækja og er erfitt að réttlæta þessa gjaldtöku í þeim tilvikum.
Það ætti að vera sameiginlegt hagsmunamál allra höfundarrétthafa að berjast gegn óleyfilegri fjölföldun á þeirra hugverkum, óháð því hvort um er að ræða tónlist, kvikmyndir eða forrit. Með þessari reglugerð er hins vegar beinlínis verið að flytja peninga úr vösum eins hóps höfundarrétthafa (hugbúnaðarframleiðenda) yfir í vasa annarra (höfunda tónlistar og kvikmynda).
Hugbúnaðarframleiðendur hafa aldrei sóst eftir því að fá hlutdeild í innheimtum höfundarréttargjöldum, en ég held að ég tali fyrir munn margra á þessu sviði þegar ég lýsi yfir óánægju með þá mismunum sem hér hefur verið lýst. Helst myndi ég vilja sjá þessi gjöld felld niður, enda eru þau álíka fáránleg og ef sérstakt gjald væri lagt á öll auð pappírsblöð á þeirri forsendu að þau mætti nota til óleyfilegrar fjölföldunar á prentuðu efni með aðstoð ljósritunarvéla.
Ætli stjórnvöld að halda þessari gjaldtöku til streitu, hljóta hugbúnaðarframleiðendur hins vegar að gera þá kröfu að fá réttláta hlutdeild í þeim gjöldum sem hér eru innheimt, en verði ekki orðið við því væri sjálfsagt eðlilegast að leita álits Umboðsmanns Alþingis á þessari mismunun.
Að lokum vil ég vekja athygli á því að í fyrrnefndri reglugerð er minnst á geisladiska allt að 2 Gb (gigabit) að stærð. Hér er væntanlega um villu að ræða og ætti að standa 2 GB (gigabyte), þar sem stærð geisladiska er almennt ekki mæld í bitum heldur bætum. Engir geisladiskar eru til sem eru minni en 2 Gb - hefðbundnir geisladiskar eru um 600 MB eða 4.8
—————————————————————
Þetta er auðvitað einn af þessum sjálfsögðu hlutum, því að hubúnaðarframleiðendur falla líka undir höfunda.
En vandinn er sá að neytendur geta ekki lengur treyst á “visku” ríkisstjórnarinnar, þar sem hún átti víst að hafa samþykkt þessa reglugerð.
Ég hvet ykkur hugara til að halda áfram að berjast gegn þessu óréttlæti, en ég er samt ekki að segja það að höfundar eigi ekki að fá pening út úr þessu. Þeir mega nú alveg gera þetta hógvært og minnka þetta niður í 10kr p/eintak.
Þetta er mín skoðun málsins. Þeir sem að hafa aðrar skoðanir geta gefið álit á þessari grein.
The almighty Helm