Ég var stödd á úrslitakveldi keppninarinnar um Fyndnasta mann Íslands
árið 2003 á fimmtudagskveld síðastliðið, þar stigu fjórir keppendur á svið
og spreyttu sig á því að koma okkur áhorfendum til að hlægja.
Þeir stóðu sig nú öll með prýði og ekkert slæmt um það að segja, áttu öll
sína góðu spretti og líka slakari stundir. Fyrsti keppandi var bandarískur
kvenmaður að nafni Tafetta Starwod og flutti hún sitt efni á ensku og fór vel
með, næstur var Gísli Pétur Hinriksson, svo tók Júlíus Júlíusson til við
skemmtun, en hann vann undankeppnina á Akureyri og er sjálfur frá
Dalvík, Birgir Búason rak svo lestina.
Þessi keppni var hin ágætasta skemmtan, enda var mikið um hnyttni og
grín, eins og til er ætlast. En nú að keppni lokinni þá kemst ég ekki hjá því
að velta úrslitunum fyrir mér. Ef dæma má eftir viðbrögðum áhorfenda voru
Júlíus og Birgir sigurstranglegastir, þeir hlutu mun öflugari viðbrögð en
hinir tveir keppendurnir. En mér kom það sem sé mjög á óvart þegar Gísli
hreppti titilinn, þar sem ég hefði búist við því að annar hvor hinna
karlmannanna hefði verið rökréttara val, þannig að ég tók að velta því fyrir
mér hver rökin fyrir þessu vali væru.
Taffetta skaut all hart á föðurland sitt og gáfnafar bandaríkjamanna,
jafnframt því að hnýta í hurðina á aðalbyggingu Háskólans. Mér er það
skiljanlegt að það að fara með sitt uppistand á ensku hafi reynst Taffettu
nokkur fjötur um fót, ekki þar fyrir að ég sé að ýja að því að áhorfendur hafi
ekki haft nægilega góð tök á ensku, heldur er það bara yfirleitt þannig að
maður á það til að missa þráðinn eilítið þegar maður er ef til vill ekki vanur
að hlusta á ensku talaða við þessar aðstæður, svona þegar hljómburður
er ekki 100%. Því þætti mér líklegt að hún hafi ekki orðið fyrir valinu sökum
þess að hún er ekki það vel mælandi á íslensku og því ekki líkleg til að
gera sér mikinn mat úr titlinum hér á landi.
Gísli flutti sitt uppistand af öryggi og fagmannlega, hann lék frekar mikið og
gerði það vel (enda skilst mér að hann hafi nú þegar lagt leiklist fyrir sig),
en það sem mér þótti að uppistandinu er það hvernig hann byggði það
upp, hið sígilda uppistand samanstendur af fjölda stuttra atriða sem er
fleygt framan í áhorfandann á miklum hraða, þannig að hlátrinum linnir
sjaldnast alveg í sæmilega stórum hópi. Þetta heldur áhorfandanum við
efnið og er að manni finnst algengasta leiðin sem farin er til að nálgast
uppistand. Gísli á hinn bóginn setti sitt uppistand saman úr nokkrum mjög
löngum sögum, með smávegis hlægilegum setningum inni í hverri
stórsögu fyrir sig og einu stóru atriði í lok hverrar sögu. Þetta þykir mér ekki
vera jafn áhugavert form á uppistandi, þar sem það er ekki jafn “instant” og
ef skemtilegheitin koma með styttra millibili. En hann tók fyrir samband sitt
við föður sinn sem snérist að mestu leyti um nöfn á verkfærum, og svo
atvik þegar pípulagningamaður stakk kollinum upp úr klósettinu hjá
honum. Hann lauk síðan uppistandinum með mjög tilkomumiklu atriði þar
sem hann sannfærði áhorfendur um að hann væri gangandi “boombox”
með tilþrifum. Þó verð ég að játa að mér þótti það ekki beint fyndið, það
ætti frekar heima í hæfileikakeppni en uppistandskeppni.
Uppistand Júlíusar var áhugavert, hann blandaði saman þéttum hrinum af
skrítlum og leiknum atriðum. Hann náði salnum vel á strik og hélt athygli
áhorfenda út allt uppistandið. Að vísu gerði hann nokkuð sem mér finnst
vera orðin oftuggin klisja, og það eru blessaðir rollubrandararnir. Maður
hefur heyrt þá flesta það oft að manni er hætt að stökkva bros. En hann
velti fyrir sér kynlífskönnun meðal ríkistarfsmanna og kom helmingi
áhlýðenda til með snilldarlegri eftirhermun af frygðarstunum. Eftir á að
hyggja þá þykir mér líklegt að hann hafi ekki hlotið titilinn vegna þess að
hann er utan af landi, það kann að reynast að það verði erfitt að ná
samningum við hann að koma og skemta hér fyrir sunnan, og markaðurinn
fyrir uppistand er ekki nema svo og svo stór fyrir norðan. Einnig gæti verið
að það hafi ekki reynst vel að hafa keppanda utan af landi, svona þar sem
sigurvegari keppninnar í fyrra, Fíllinn, var einnig frá Dalvík og ég man ekki
eftir að hafa heyrt á hann minnst nema á keppninni núna í ár.
Birgir var hraðastur keppenda og bauð áhorfendum upp á fjölbreyttan
matseðil af skrítlum þar sem hann gagnrýndi íslenska málshætti, kaffi, Jóa
Fel og hnoðvöðvana hans, sagði frá hinum íslenska Sean Connery og
kom áhorfendum í skilning að mun styttra væri á milli handboltaiðkunar og
Stubbanna (Teletubbies) en virðist við fyrstu sýn. Mest þóttu mér
viðbrögðin í salnum vera við hans uppistandi og náði hann að hrífa salinn
með sér. Ég gat sjálf ekki séð mikla fyrirstöðu fyrir því að Birgir hlyti ekki
titilinn, enda var hann þrælfundinn, en ég heyrði hinsvegar útundan mér
umræður um það að dómnefndin hefði viðurkennt að hún hefði útilokað
hann sökum þess að hann væri of ungur.
Svona út frá þessu sem ég heyrði, að dómnefndin hafi hleypt Birgi inn í
úrslitakeppnina með það á bak við eyrað að þeim þætti hann í raun of
ungur til að hljóta titillinn, þá þykir mér ekki ólíklegt að sú vegalengd sem
Júlíus þyrfti að ferðast til að skemmta höfuðborgarbúum og það að Taffetta
skuli flytja sitt uppistand á ensku væri líka alveg nóg til að dæma þeim ekki
sigurinn, þar sem það væri hugsanlega líka sóun á titlinum þetta árið.
Þannig að það má ímynda sér það að þegar úslitakvöldið hófst hafi úrsilt
verið nærri ráðin, burtséð frá því hvernig keppendur standa sig og hvernig
áhorfendur bregðast við. Ef þetta var í raun þetta pólitískt ákvarðaður sigur,
þá finnst mér að styrkja verði reglurnar í kringum keppnina, setja
aldurstakmark, leggja keppnina fyrir norðan af og setja keppendum þau
skilyrði að flytja verði framlagið á íslensku. Því á þann hátt sem mér virðist
þetta vera er þetta vart keppni um hinn fyndnasta mann Íslands, heldur
þann sem er hæfileg dægrastytting, fellur að einhverjum fyrirfgam gefnum
félagslegum skilyrðum og hefur hæfileika til að standa uppi á sviði, sama
hvort það eru leikhæfileikar, hæileikar til að koma fólki til að hlægja eða
eitthvað enn annað.
Svona í lokin, þá langar mig til að óska Gísla til hamingju með titilinn, því
hann hefur hæfileika til að bera, þó mér persónulega finnist hann ekki hafa
verið bestur þessarra fjögurra keppenda.