Hvað vantar í Stjórnarskrá okkar íslendinga?
Kæru hugar
Í dag, 30. október 2003, kom þekktur einstaklingur í skólann minn og hélt ræðu yfir nemendum hvort sem þeir vildu hlusta eða ekki.
Ég er á móti fordómum þessa einstaklings sem meðal annars er þekktur fyrir að fordæma samkynhneigða og kallar hann þá kynvillinga.
Það olli mér mikilli reiði að þessum einstakling skildi hafa verið leyft að mæta í skólann án þess að hafa fólk sem stendur fyrir það sem hann er á móti, til að verja sín sjónarmið, nú eða bara að láta fólk þurfa að hlusta á hann. En það var ekki um mikið að velja því það var of kalt til að fara út og hann var tengdur við hljóðkerfi skólans svo að það sem hann sagði ómaði um mest allan skóla. Svo ég sem tvíkynhneygður einstaklingur þurfti að flýja aðalsvæði skólans og koma mér fyrir í stofu langt frá svo ég þyrfti ekki að hlusta á fordóma hans.
Ég var að sjálfsögðu í brjáluðu skapi eftir þetta og fór að pæla í því hvort þetta bryti ekki í bága við íslensku stjórnarskána, að ekki megi mismuna fólki útaf kynferði, KYNHNEIGÐ o.s.frv. því ég get ekki séð annað en að þetta sé hrein og klár mismunun.
Ég lét formann nemendaráðs heyra það og var sko ekki sú eina því það voru margir sem mótmæltu komu þessa manns í skólann.
Svo þegar ég kom heim fletti ég uppá Stjórnarskrá okkar íslendinga svo ég hefði þetta alveg á hreinu, og hverju haldið þið að ég hafi komist að?

“65. grein
Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.”
Þetta er tekið beint upp úr STJÓRNARSKRÁ LÝÐVELDISINS ÍSLANDS, sjöunda kafla, 65. grein sem finnst á þessari slóð:
http://www.snerpa.is/net/log/stjornar.htm
Ég las alla Stjórnarskrána og svo þetta nokkrum sinnum til þess að tékka hvort augun mín væru að stríða mér, en nei því miður:
ÞAÐ ER EKKI MINNST EINU ORÐI Á AÐ SAMKYNHNEIGÐIR SÉU PARTUR AF ÞEIM SEM EIGA AÐ NJÓTA JAFNRÉTTIS OG MANNRÉTTINDA!
Í Stjórnarskránni er talin ástæða til að karlar og konur eigi að njóta jafnréttinda sem mér virðist vera sjálfsagðasta mál í heimi. Því tel ég að Stjórnarskrá okkar Íslendinga sé stórlega gölluð og þetta þurfi að laga hið allra fyrsta.

Þessa grein sendi ég á hingað til að fá skoðanir ykkar á þessu, hvað lesið þið útúr Stjórnarskránni?
Kveðja
Loviata