Mamma, akkurru þurfti að skjóta hann ? Við sátum hjónin með ungum syni okkar fyrir framan sjónvarpið í kvöld og horfðum á fréttir á RÚV. Á skjánum birtist mynd af litlum, sætum og loðnum ref og við dáðumst að því hvað þetta væri falleg skepna og bentum syni okkar á það. Hann er sem betur fer ekki nema 18 mánaða því stuttu seinna var dýrinu slátrað á skjánum með byssu með kíki og hvarf það í einni svipan bakvið þúfu. Við hjónin kipptumst við og litum undan í forundran og óhugnaði og þegar við litum á skjáin aftur var komin önnur tófa sem var skotin í nærmynd og kastaðist aftur um nokkra metra. Síðan kom klippa af ref sem var að borða fuglshræ og voru blóð og innyfli út um allt. Fréttin endaði á því að dauður kroppur tófunnar sem skotin var, var borin í burtu.
Ég get ekki hugsað fyrir aðra en þetta finnst mér viðbjóður að sýna þegar öll fjölskyldan er að horfa og jafnvel borða kvöldmat fyrir framan fréttirnar.
Ég minnist þess um daginn að vera að horfa á fréttirnar og borða kvöldmatinn minn um leið, að sýnd voru nakin og sundurskotin lík, bæði í fjarlægð og í nærmynd þar sem verið var að sýna frá einhverju borgarastríði.
Ég bara spyr, er þetta alveg bráðnauðsynlegt ? Hvers eigum við að gjalda sem horfum á fréttir á RÚV ? Mér verður bara flökurt af að hugsa um þessar myndir af skotnum dýrum og limlestum, nöktum líkum. Síðan er hægt að banna myndir sem sýna kannski nakin kvenmannsbrjóst ? Erum við orðin svona siðblind eða eru þessar ógeðslegu myndir hættar að hafa áhrif á okkur ? Erum við búin að horfa á of mikið af ofbeldismyndum ? Ég minni á að þessar myndir sem sýndar eru á RÚV eru raunverulegar.
Ég held að það sé alger óþarfi að sýna svona óhugnanlegar myndir í fréttatímum þegar ung börn eru ennþá að horfa. Svo má þess einnig geta að fólk eins og við hjónin missum matarlystina við að sjá þetta ógeð.
Ég ætla að taka það fram svo ég verði ekki fleimuð að ég geri mér grein fyrir að ástandið í stríðshrjáðum löndum er ömurlegt og offjölgun refa sé of mikil en hægt er að sýna skárri myndir heldur en þetta í sjónvarpi allra landsmanna.

IceCat