Jæja, þá er komið að því. Ég er að springa. Ég var að lesa grein á deiglunni sem kemur svolítið inn á eitt af helstu hugðarefnum mínum þessa dagana, en hún nær samt engan veginn utan um allt sem ég er að hugsa, en það er alltof umfangsmikið til að pósta því í svari við henni. Mér er ansi heitt í hamsi en ég vona að ég láti ekki reiðina hlaupa með mig í gönur… Ég leiðrétti mig þá bara seinna ef mér þykir ástæða til. Ég myndi gjarnan vilja afþakka fyrirfram (blóm og kransa) svör um að ég hljóti að vera „bríetarrauðsokkutussa“ sem neitar að ganga í brjóstahöldurum og raka mig undir höndunum. Ég hef þarfari hluti við tíma minn að gera en að lesa svoleiðis bull.
Ég er orðin svo langþreytt á að heyra fólk segja að nekt sé eðlilegasti hlutur í heimi og þess vegna sé ekkert athugavert við líkamsvæðingu þjóðfélagsins eða aðgang barnanna okkar að tónlistarmyndböndum nútúmans að ég get hreinlega ekki orða bundist lengur. NEKT er ekki það sama og erótík og svo sannarlega ekki það sama og klám. Klámmyndböndin í sjónvarpinu eiga augljóslega ekkert erindi til barna og það þarf ekki snilligáfu til að sjá muninn á myndbandi með Beyoncé að fetta sig og sleikja á sér puttana eða allsberu barni í baðkari að leika sér með gúmmíendur. Það eru ekkert annað en hártoganir að halda því fram að nekt sé eðlileg og þess vegna allt í lagi að börn horfi á klámmyndböndin á SkjáEinum. Það skal hins vegar tekið fram strax að ég er ekki að skella skuldinni á karlmenn sérstaklega, en ég held að það sé gildra sem margt fólk sem hefur skoðanir svipaðar mínum gengur í.
Það eru svo sannarlega ekki bara vestrænir karlmenn sem halda aftur af jafnréttisbaráttunni heldur mínar ágætu kynsystur líka. Ég ætla ekki að tala um afturhaldsseggi og karlrembur í því samhengi, það myndi flokkast undir “namecalling” samkvæmt mínum bókum og ég leyfi mér að trúa því að ég sé yfir það hafin. Hins vegar er það alls ekki svo að vestrænir karlmenn (eða þær konur sem hér um ræðir) séu að standa sig illa í því að halda aftur af kynjabaráttunni.
Með tilkomu internetsins eru allir með klám í stofunni heima hjá sér. Markhópurinn fyrir það eru karlmenn. Konurnar stuðla að hnignun í jafnréttisbaráttunni með þátttöku í klámi, með þátttöku í fegurðarsamkeppnum, með þátttöku í auglýsingum þar sem þær koma léttklæddar fram og eru sýndar sem fólk sem ekkert hefur til að ,,bera" nema sinn eigin líkama, og svo framvegis. Popptívímenningin, sem er aðeins eitt af milljón afsprengjum klámvæðingarinnar, segir nú sína sögu um ástandið í þessum málum. Í dæmigerðu tónlistarmyndbandi á popptíví situr einn karl sem flytur tónlistina. Hann hefur það afskaplega náðugt, enda er hann svo hrikalega ríkur að hann er að drukkna í kvenfólki. Í kringum hann eru tugir kvenna með nokkra spotta fyrir sínu allra heilagasta sem gegna einungis því hlutverki að dilla sér sem mest þær mega til þess að uppfylla kynferðislegar langanir ríka mannsins í miðjunni.
17 ára stelpur jafn sem 23 ára konur labba fram og til baka á plönkum á Broadway með andlitið límt upp, í sundfötum og háum hælum og sjá alls ekki niðurlæginguna sem felst í því að láta mæla sig út og gefa sér einkunn fyrir brjóstastærð, mittismál og svo framvegis.
Svo kemur fyrirbæri eins og femin.is. Þar hafa konur tekið sig til og niðurlægt sig sjálfar. Efst á síðunni má finna efnisflokka. Þeir eru efnislega (ekki sömu heiti): útlit, heilsurækt, sjálfstæðar konur, sambönd, börn og unglingar, kynlíf, matur, stjörnuspeki og verslun. Og þetta selur eins og ég veit ekki hvað. Konur hafa unun af því að láta sem þær hafi ekki áhuga á neinu sem ekki tengist húsverkum, útliti, karlmönnum eða barnauppeldi.
Svona eru hlutirnir og á sama tíma og þetta hefur verið í þróun eru ekki skriðnar upp úr grunnskólum borgarinnar stelpur sem fara í hópkynlífspartí og nota munnmök sem gjaldmiðil ef þær langar að fá sér í haus eða verða sígarettulausar. Það þarf enginn að segja mér að það sé ekkert samhengi þarna á milli. Að mér vitandi voru ekki í boði nokkurs konar hópkynlífspartí þegar ég var unglingur, og það er hreint ekki langt síðan það var. Þá þótti nú bara frekar merkilegt ef einhver reykti hass í partíi. En þá voru heimilistölvur heldur almennt ekki nettengdar og engar klámbúðir í nágrenni Laugavegar, eða í Reykjavík almennt. Og þó, kannski var Rómeó og Júlía til, ég þori ekki að fara með það.
Niðurstaðan mín er í öllu falli þessi: Á meðan hlutirnir eru í þessum farvegi sem er lýst hér að ofan, er svo langt því frá að hægt sé að halda því fram að vestrænir karlmenn eða konur séu þegar á heildina er litið að gera nokkuð annað en að halda aftur af þessari baráttu.