Á næsta vori fara fyrstu samræmdu stúdentsprófin í hönd. Það verður bara eitt próf og í íslensku en árinu þar á eftir verður líka í stærðfræði og ensku. Er þar harkalega vegið að nemendum í fjölbrautaskólum.
Vissulega er gleðiefni að menntamálaráðherra sjái ástæðu til að betrumbæta nám í framhaldsskólum. Í árabil hefur menntaskólinn minn, Flensborgarskólinn í hafnarfirði þjáðst af plássleysi og satt best að segja þá hefur skólabókum í bæði íslensku, stærðfræði og ensku verið í ýmsu ábótavant. En samræmd stúdentspróf leysa engan vanda heldur auka hann.
Á hverri önn, þ.e. tvisvar á ári eyða nemendur miklum fjárupphæðum í skólabækur. Í fjölbrautakerfum eins og t.d. í flensborg þá nýtist hver bók í eina önn og síðan ekki meir. Eftir það getum við nemendurnir selt bókina og nýtt peninganna til að kaupa fleiri. Að sjálfsögðu seljum við bókina á hálfu því verði sem við keyptum hana á og því halda bókainnkaup áfram á næstu önnum við það að vera kostnaðarsöm.
Samræmdu stúdentsprófin í íslensku munu prófa út úr öllum áföngum og öllum bókum sem nemendurnir hafa þegar selt! Nemendur neyðast því til að kaupa þær allar upp á nýtt ef þeir vilja læra undir prófið sem eflaust verður ekki auðvelt. Þess vegna á eftir að kosta marga tugi þúsunda að kaupa þessar bækur upp á nýtt. Hér er harkalega vegið að fólki sem nurlar saman peningum í láglaunastörfum til þess að geta staðið undir námi og ýmsum nauðsynjum.
Fólki sem ætlar bráðlega að flytja út.
Fólki sem þarf að kaupa sinn fyrsta bíl.
Fólki sem á ekki neitt af því sem það í framtíðinni þarf til að stofna fjölskyldur.
Þessar bækur eru vanalega uppseldar þegar þeir nemar sem þurfa bækurnar fyrir þessa önn hafa lokið innkaupum. Ég ætla að vona að menntamálaráðuneytið hafi hugsað fyrir fram út í þessa auknu eftirspurn og leggi sig fram eftir öllum mætti að auðvelda aðgang að bókum og draga úr kostnaði. Annað væri hrein illkvittni.
Margir nemendur sem lokið hafa námi úr íslensku þurfa að taka prófið. Þeir þurfa að læra þetta allt upp á nýtt.
Væri sanngjarnt af dómsmálaráðuneytinu að lýsa skyndilega yfir samræmdu bílprófi og þá þyrftu allir þeir sem þegar hefðu bílpróf að taka það aftur?
Það væri engu að síður skynsamlegra heldur en þessi ósköp því að minnsta kosti er hið síðarnefnda öryggisatriði. En hitt er vitneskja í setningarfræði sem kemur ekki að gagni í neinu framtíðarnámi heldur en í íslenskunámi.
Ég vil hvetja menntamálaráðherra til að hætta við. Það má eflaust nýta prófpappírinn í eitthvað skynsamlegra en þetta.
Þetta sendi ég til menntamálaráðherra og í öll þau blöð sem vilja birta þetta. Ég hvet aðra sammála mér til að skrifa bréf til menntamálaráðherra.