Fátt hefur farið hærra í íslensku þjóðfélagi að undanförnu en barátta íslenskra Júgurvisjón þátttakenda fyrir því að mega syngja á ensku. Talað hefur verið um sjálfsagðan rétt listamanna til að keppa í keppninni á sínum forsendum. Vissulega er margt til í því og margir haft margt gott til síns máls. En þó eru nokkrir hlutir sem fara í taugarnar á mér í þessari umræðu (eins og svo víða annarsstaðar þar sem fólk fer á flug um mannréttindi og reglur).
Í fyrsta lagi eru það raddirnar sem heimta að Útvarpsráð verði kært fyrir Evrópudómstólnum og sakað um mannréttindabrot. Eurovision er keppni og henni er sniðinn ákveðinn rammi með reglum. Ein þessara reglna er t.d. sú að lagið megi ekki vera lengar en 3 mínútur. Hvað ef ég sem einstaklingur get ekki tjáð mig á innan við 20 mínútum? Á ég þá að kæra Júróvisjón? Nei, ég tek einfaldlega ekki þátt í keppninni vegna þess að ég fell ekki innan rammans sem henni eru settar.
Í öðru lagi eru það raddirnar sem vilja meina að listrænt frelsi listamannsins sé heft. Að þetta sé eins og að banna málara að mála með grænu. Sama á við með þetta. Ef ég get ekki sætt mig við reglurnar þarf ég ekki að taka þátt og syng bara á ensku einhversstaðar annars staðar. Páll Óskar hefur meira að segja gengið svo langt að segja að tilfiningalegt frelsi sé heft. Ef menn get eingöngu tjáð sig um hana Birtu á ensku eiga þeir ekki að vera að þykjast eitthvað með því að senda lag inn í keppnina.
Málið er ósköp einfalt. Það eru engin mannréttindabrot í gangi vegna þess að það er enginn skyldugur til þess að taka þátt. Ég er ekki að mæla þessum reglum bót en bara að benda fólki á að fara rólega í sakirnar með yfirlýsingar. Reglurnar eru kannski heimskulegar en þangað til þeim verður breytt verða þeir sem skrá sig til keppni að fylgja þeim.