Stríð Sýrlands og Ísraels ? Þessar fréttir er að finna á www.ruv.is og eru frá 6.-9. okt. Ég tel þær sína vaxandi spennu í M-Austurlöndum….
Margar fréttanna gætu innihaldið svolítið af sama efninu, en ég ákvað að klippa ekkert.

“Sýrlandsforseti sakar Ísraela um stríðsógnir

Bashar al Assad, forseti Sýrlands, sakar Ísraelsstjórn um að reyna að draga Sýrland og önnur ríki Miðausturlanda inn í harðnandi deilur á svæðinu. Þetta eru fyrstu viðbrögð forsetans eftir loftárás á palestínskar búðir í grennd við höfuðborg Sýrlands, á sunnudag.

al Assad segir að Ísraelsmenn séu með árásinni á Sýrland að beina athygli umheimsins frá ástandinu á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna. Hann segir að Ísraelsstjórn sé að reyna að skelfa Sýrlendinga og draga þá og aðrar þjóðir á svæðinu inn í enn eitt stríðið. Ísraelsstjórn sé stríðsstjórn og stríð sé réttlæting fyrir tilvist Ísraels. Assad segir að Bandaríkjastjórn eigi að hætta að kenna Sýrlendingum um eigin mistök, þar á meðal hernaðinn í Írak.

Sharon, forsætisráðherra Ísraels, hefur hótað áframhaldandi árásum gegn öllum óvinum hvar sem þeir kunna að leynast. Ísraelsstjórn muni ekki skirrast við að verja borgara sína með hernaði. Ísraelsstjórn væri enn sem fyrr opin fyrir öllum tillögum um frið og stefni að friði og friðarsamningum við granna sína.

Spenna hefur líka aukist á landamærum Líbanons og Ísraels. Ísraelskur hermaður féll í skotbardaga og líbanskur piltur fórst þegar flugskeyti lenti á heimili hans í grennd við landamæri Ísraels. Ísraelsstjórn segir að Sýrlandsstjórn beri alla ábyrgð á þessum atburðum.
______________________________________________________-

Sharon hótar varnarárásum

Sharon, forsætisráðherra Ísraels, lýsti yfir í morgun eftir stuðningsyfirlýsingu Bandaríkjanna við loftárás í Sýrlandi að Ísraelsríki myndi ráðast á óvini sína hvar sem þeir héldu sig.

Þrátt fyrir harðorðar yfirlýsingar nefndi hann engin sérstök skotmörk en ítrekaði að Ísraelsstjórn ætlaði að verja ísraelska borgara og elta óvini uppi hvar sem þeir héldu sig.

Assad, forseti Sýrlands, sakar Ísraelsstjórn um að ætla að egna Sýrlendinga og aðrar Arabaþjóðir til frekari deilna.
—————————————————

Ísraelar hóta árásum hvar sem er

Ísraelsstjórn kynnti í dag kort þar sem merkt er hvar í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, leiðtogar palestínskra hermanna búa. Ísraelsher segir að kortið eigi að sýna hve víða palestínska hryðjuverkanetið teygir sig í Damaskus og nágrenni.

Stuttu áður hafði Sharon, forsætisráðherra Ísraels, lýst yfir að Ísraelsstjórn ætlaði að ráðast á óvini sína hvar sem er og með öllum tiltækum ráðum. Á korti Ísraelsstjórnar er merkt við heimili nokkurra leiðtoga Hamas-samtakanna og Alþýðufylkingarinnar til frelsunar Palestínu, PFLP.

Alls eru merktir inn 10 staðir sem Ísraelsher segir að séu bækistöðvar eða upplýsingaskrifstofur fyrir Jihad, Hamas, Fatah og PFLP.

———————————-

Ísrael: Hernum heimilað að kalla út varalið

Shaul Mofaz, landvarnarráðherra Ísraels, hefur gefið hernum heimild til þess að kalla út varalið. Sharon forsætisráðherra kallaði saman ríkisstjórn sína í morgun til þess að ræða aðgerðir gegn Palestínumönnum.

Ræða á frekari hefndir fyrir sjálfsmorðssprengjuárás í Haifa um helgina þar sem 19 létu lífið, árás sem svarað var með loftárás Ísraela á þjálfunarbúðir Palestínumanna í Sýrlandi. Nokkrir ráðherrar í stjórninni vilja að nú verði gerð alvara úr ákvörðun stjórnarinnar um að fjarlægja Jasser Arafat, forseta Palestínumanna.

Sharon sem hótaði í gær að ráðast á óvini Ísraels hvar sem væri fékk stuðning Bush Bandaríkjaforseta í gærkvöld sem sagði að ákvörðun Sharons að verja fólk sitt væri gild ákvörðun, Bandaríkjamenn myndu fara eins að í sömu stöðu..

——————————————–

Sýrla nd: Árás Ísraela verður svarað

Sýrlendingar ætla að beita hervaldi ef Ísraelsmenn gera aðra árás á landið. Moshen Bilal, sendiherra landsins á Spáni, greindi fréttamanni Reuters frá þessu í kvöld.

Sendiherrann sagði að ef Ísraelar réðust á Sýrland einu sinni, tvisvar eða þrisvar sinnum yrði sýrlenska þjóðin, ríkisstjórnin og herinn að bregðast við með viðeigandi hætti til að verja sig. Bilal var að því spurður hvort hann ætti við að hernum yrði beitt gegn Ísraelum. Hann svaraði að sú væri ætlunin þótt Sýrlendingar væru friðelskandi þjóð og berðust fyrir því að friðarráðstefnan í Madríd yrði hafin á ný.

Ísraelsher réðst á sýrlenskt land á sunnudaginn var. Árásin var sú alvarlegasta síðan árið 1973. Engan sakaði í henni.

————————————–

Bandaríkin hyggjast refsa Sýrlandi

Bandarísk þingnefnd mælir með nýjum refsiaðgerðum gegn Sýrlandi.
Hún sakar Sýrlandsstjórn um að styðja hryðjuverk og reyna að framleiða gereyðingarvopn. Þessu neitar Sýrlandsstjórn.

Viðskipti Sýrlands og Bandaríkjanna eru hverfandi, en nýjar refsiaðgerðir myndu banna bandarískar fjárfestingar þar og hamla gegn útflutningi. Frumvarpið verður sent þinginu sem styður sífellt harðnandi afstöðu Bandaríkjastjórnar gegn Sýrlandi.

Sýrlendingar ætla að beita hervaldi ef Ísraelsmenn gera aðra árás á landið. Moshen Bilal, sendiherra landsins á Spáni, greindi fréttamanni Reuters-fréttastofunnar frá þessu í gærkvöld. Sendiherrann sagði að ef Ísraelar réðust á Sýrland yrði sýrlenska þjóðin, ríkisstjórnin og herinn að bregðast við með viðeigandi hætti til að verja sig.

Bilal var að því spurður hvort hann ætti við að hernum yrði beitt gegn Ísraelum. Hann svaraði að sú væri ætlunin þótt Sýrlendingar væru friðelskandi þjóð og berðust fyrir því að friðarráðstefnan í Madríd yrði hafin á ný. Ísraelsher réðst á sýrlenskt land á sunnudaginn var. Árásin var sú alvarlegasta síðan árið 1973. Engan sakaði.

—————————————————

Bush segir Ísraela hafa rétt til sjálfsvarna

Bush, forseti Bandaríkjanna, ver áfram rétt Ísraels til að verja sig árásum eftir loftárásir á Sýrland í gær í kjölfar sjálfsvígsárásarinnar í Haifa fyrir helgi. Bush sagði Sharon, forsætisráðherra Ísraels, í gær að Ísraelsmenn þyrftu ekki að hafa taumhald á varnaraðgerðum sínum, en benti jafnframt á að þeir yrðu að forðast að valda frekari spennu.

Skotið var af fallbyssum yfir landamæri Ísraels á úthverfi bæjarins Kfar Shouba í S-Líbanon í dag. Engan sakaði og skothríðinni var ekki svarað frá Líbanon. Vatnsflutningabíl frá Sameinuðu þjóðunum varð fyrir skoti. Ísraelsstjórn neitar því að hermenn sínir hafi skotið á Líbanon og Hizbolla-skæruliðar í Líbanon kannast heldur ekki við að hafa beitt skotvopnum.”

Miðað við þessar fréttir er stríð yfirvofandi á þessu svæði því engar friðarumleitanir eru í gangi.

Ég hlakkatil að heyra hvað Bush segir um þessi mál, hann segir að Ísrael megi verja sig hvar og hvenær sem er. En hvað mun hann segja þegar sýrland svarar árásum ?
Ég held að það séu góðar líkur á að ef Sýrland svarar árásum noti hann tækifærið og geri árás á Sýrland.
“Öreigar allra landa sameinist !!!!!!!”