Eitt fagurt ágústkvöld ákvað ég undirritaður að dekra svolítið við mig og fara með bílinn minn í þvott, ekki venjulegan þvott heldur eins skonar lúxusþvott á þvottastöð SELECT við Vesturlandsveg.
Á skiltinu fyrir utan þvottastöðina stendur að ekki megi hafa loftnet og annað sem geti skemmst á meðan á þvottinum stendur og einnig að enginn ábyrgð sé tekinn á þessum munum.
Ég vildi ekki nein vandræði og ákveð því að taka loftnetið af. En það reynist ekki leikur einn svo að ég keyri að Select stöðinni og bið bensínafgreiðslumanninn um að aðstoða mig við það.
Hann horfir á mig undrandi og segir að hann hafi aldrei séð neinn einasta mann taka loftnetið af bílnum sínum áður en honum er rennt í gegnum þvottinn. Hann skoðar loftnetið á bílnum og segir að ekkert muni koma fyrir. Ég spyr þá af hverju af hverju það standi fyrir utan að maður verði að taka alla aukahluti af bílnum og hann vildi meina að hann hefði séð óteljandi bíla fara í gegn án þess.
Ég ákveð því að treysta því sem starfsmaður Skeljungs segir mér frekar en skiltinu fyrir utan. En það hefði ég betur látið ógert! Loftnetið brotnar í tvennt og ég verð frekar bitur út í þennan starfsmann og fer og tala við hann. Hann kom gjörsamlega af fjöllum þegar ég sýndi honum brotið loftnetið og fer með mér að tala við vakstjóra. Hann sagði mér að koma daginn eftir og tala við stöðvarstjórann sjálfann svo að ég fer heim með brotið loftnet.
Daginn eftir fer ég svo og tala við stöðvarstjórann sem virtist vera hinn almennilegasti. Inni á skrifstofu hans talar hann um að skiltið hafi meira að segja en starfsmaðurinn og það að hann geti EKKI borið ábyrgð á þeim leiðbeiningum sem starfsmaður undir hans flaggi segi því að þvottastöðin er jú sjálfstæð eining, undir merkjum Skeljungs og mér sem manneskju hefði farið betur að reiða mig á eitthvað skilti í stað þess að reiða mig á aðra manneskju sem silgdi undir flaggi Skeljungs, fyrirtæki sem ég hélt að gott væri að versla við.
Ég geng út af þessum fundi svo reiður að ég vildi leita annnara leiða til þess að ná sáttum í þessu. Stöðvarstjórinn segir mér að fara niður á Suðurlandsbraut og tala við hans yfirmann þar. Ég geri það og hitti mann sem heitir Þorvaldur. Þegar ég kem inn tekur hann í hendina á mér og er voðalega kurteis. En svo þegar ég segi honum af þessu þá segir hann bara að Skeljungur geti ekki borið neina ábyrgð á málum sem þessum. Sama hvað starfsmenn hans segja, þetta standi á skiltinu og starfsmenn Skeljungs hafa ekkert með það að vera að breyta því.
Ég geng einnig út af þessum fundi og ákveð að hringja í Neytendasamtökin. Þar svarar mér kona sem hlustar af einbeitingu á allt sem ég segi og skilur mig svo vel. Hún talaði við lögfræðing hjá NS
sem segir að lagalegur réttur minn sé enginn ef þetta mál færi í hart, en siðferðislegur réttur minn sé svo mikill að hún átti ekki til orð.
Það skal enginn segja mér að Skeljungur hefði tapað á því að láta mig hafa ávísun fyrir nýju loftneti eða aðrar bætur fyrir þetta mál. Ég hefði gengið sáttur út og sagt öllum sögu mína. En þetta var raunin svo að ég hef ákveðið að versla ekki við Skeljung aftur og beina viðskiptum mínum frekar að Esso eða Olís, þar sem ég treysti á að þessi félög munu ekki hafa mig að eins miklu fífli og Skeljungur gerði.
Nýtt loftnet kostar 5000 kr!
Ég skrifa þessa grein sem víti til varnaðar fyrir ykkur sem sjáið auglýsingar Skeljungs á þvottastöðvum sínum. Þvoið frekar sjálf.
Og þið sem hugið að því að spyrja einhvers hjá starfsmönnum Skeljungs þá myndi ég ekki taka mikið mark á því þar sem þetta stóra og veigamikla fyrirtæki getur ekki borið ábyrgð á þeim ráðum sem þeirra starfsfólk gefur undir merkjum þeirra.

kv Gummi