Ég þarf að játa á mig að þessi grein er svolítið hálf bökuð, en þannig eru kringumstæðurnar einnig.
Nú hefur komið í ljós samkvæmt Fréttablaðinu í dag að yfirmaður löggæslumála í Alþýðulýðveldinu Kína (opinbert nafn), Luo Gan, sé væntanlegur í opinbera heimsókn næstkomandi sunnudag. Mun hann meðal annars heimsækja Alþingi og Hæstarétt svo eitthvað sé nefnt. Luo þessi er talinn einn af mönnunum á bak við “afrekin” á Torgi hins Himneska Friðar hér um árið ásamt því að hafa yfirumsjón yfir ofsóknum á þeim trúarhópum sem enn hafa þor til að náða Kommúnistastjórnina með nærveru sinni. Hann er talinn standa á bak við yfirgripsmiklar ofsóknir í formi pyntinga, nauðgana og morða.
Íslenska stjórnin hefur enn og aftur reynt að slá vopnin úr höndum þeirra sem hafa næga samvisku til að mótmæla mögulega slíkum heimsóknum með því að tilkynna þetta tveim dögum fyrir þessa. Það þarf enginn að reyna að segja mér að Luo þessi hafi bara hringt í gærkvöldi til þess að tilkynna að hann ætli að “droppa við”. Þetta er greinilega með ráðum gert og ætlað að setja skorður í áætlanir þeirra sem samvisku hafa.
Spurning mín er: Hafa einhverjir ennþá stofnað til mótmæla eða er það yfirhöfuð ætlunin? Íslenska þjóðin má ekki horfa upp á að Alþingishúsið sé svívirt með þessum hætti, að bjóða honum þar inn er ekkert skárra en að rúlla niður rauða dreglinum fyrir menn á borð við Charles Manson.
Við verðum að mótmæla, við verðum að fjölmenna á Austurvöll til að koma (í þriðja skipti) í veg fyrir að Kínverskur fjöldamorðingi fái sýnisferð um æðstu löggjafasamkundu okkar. Og við verðum að muna hverjir það eru sem í sífellu bjóða þá velkomna.
Takk Fyrir
Harry