Nú þegar ljóst er að Árni Snævarr hefur verið rekinn fyrir að leka út því út að fréttastjóri Stöðvar 2 lét stöðva frétt, fer maður að hugleiða alvarlega stöðu og frelsi fjölmiðla á Íslandi. Þetta mál hefur verið frekar vandræðalegt fyrir Stöð 2 sérstaklega þar sem þeir hafa sagst vera með óháða fréttastofu. Þegar eigendur og aðrir byrja að ritskoða fréttirnar með tilliti til einhverra ytri hagsmuna(samkv. frétt á frettir.com eiga Norðurljós í viðræðum við Búnaðarbankann-Kaupþing um stöðu mála og þeir vildu hafa þá góða) eða þrýstings frá aðilum sem hafa hagsmuni af því að frétt birtist eður ei eða fórna hlutleysi sínu á einn eða annan hátt, þá glata þeir virðingu og trausti sem fréttamiðill(t.d. glataði CNN ákveðinni virðingu með að taka afstöðu eftir 11.september). Nú hefur Árni reynst einn af þessum fáum fréttamönnum sem hafa verið aðgangsharðir í spurningum við menn sem eru vanir að fá VIP-meðferð hjá fréttamiðlum hér á landi og ekki má gleyma því þegar hann var að reyna að spyrja góðvin Dabba, Kínaforsetta, um blóðbaðið á torgi hins himneska friðar. Allavega er skaðinn skeður fyrir fréttastofu Norðurljósa en maður veltir fyrir sér öðrum miðlum einnig.
Morgunblaðið-Á tímabili var ég byrjaður að hallast að því að þeir væru búnir að slíta sér undan Sjálfstæðisflokknum þegar þeir voru stundum með gagnrýni á Der Fuehrer Oddson og hans hirð og eigendur. Nú í vor þegar kosningarnar voru, hvarf það með ákvörðun ritstjóra(eða stjórnar, man ekki hvort var) þegar Ellert B. Schram mátti ekki birta vikulega pistla sína vegna þess að hann var að fara í framboð. Björn Bjarna fékk að halda sínum sem voru ekkert annað en hreinn og klár pólítískur áróður. Ritstjórnarpistlar og fleiri fastir dálkar voru undirlagðir hræðsluáróðri og hallelúlja um Sjálfstæðisflokkinn.
Fréttablaðið- Manni hefur stundum þótt Fréttablaðið vera vilhallt undir Samfylkinguna
DV- Hef nú ekki lesið það í lengri tíma en þeir voru eitthvað vilhallir undir eigendur sína og að manni virtist einstaka sinnum háðir samþykki um birtingu.
RÚV-Á dáldið erfitt með að gera mér grein fyrir þeirra afstöðu, hef þó þótt þeir vera einn ábyrgasti fréttamiðillinn en spurning er hversu mikil áhrif stjórn RUV sem er skipuð pólitískt hafi áhrif. Þeir hafa reyndar gerst sekir um að segja stundum ekki alveg hlutlaust frá, sérstaklega þegar kemur að fólki af erlendum uppruna.
Skjár 1-Ekki beint fréttamiðill en Silfur Egils? Nú hef ég aðeins misst úr hvað gerðist með það en maður hefur heyrt það á skotspónum að hann hafi ekki verið vinsæll hjá eigendum fyrir að hafa aðrar skoðanir en þeir og þeirra stjórnmálaskoðanir.
Svona að lokum, þeir sem stjórna upplýsingaflæðinu, stjórna vitneskju okkar og skoðunum og geta haft áhrif á gerðir fólks. Með því að hamra á ákveðnum frettum á ákveðinn hátt þá móta þeir almenningsálit, á meðan aðrar fréttir eru kæfðar niður fljótt til að styggja ekki einhvern eða vernda aðra. Man t.d. eftir því fyrir allnokkrum árum þegar Ástþór Magnússon(hef ekki mikið álit á honum) bauð sig fram til forseta, þá var opinn umræðuþáttur hjá sjónvarpsstöðvunum. Þar kom upp ungur, reiður maður sem sagðist vera Sjálfstæðismaður en hefði fengið ógeð þegar hann hefði verið staddur á fundi á þeim bæ, þar sem lagt var á ráðin um hvernig best væri að rægja manninn. Það sló þögn þarna á liðið og stjórnendur eyddu þessu eins fljótt og þeir gátu, mjög vandræðalegir. Annað nýlegra dæmi er auðvitað Árni Johnsen, hamrað á brotum hans sem voru alvarleg en einhvern veginn hvarf fljótt fréttaflutningur af forstöðumanni Þjóðmenningarhússins sem hafði framið ekkert síður alvarlegri brot. Svo getur maður einnig minnst á fréttaflutning af risnukostnaði bankastjóra þegar Sverrir Hermannsson neyddist til að taka pokann sinn fyrir óútskýrða risnu. Nokkrum mánuðum seinna kemur fram að bankastjórar í Búnaðarbanka og Seðlabanka höfðu eytt talsvert meir en Sverrir, bara þægilegt að fórna honum. Fréttirnar af því stóðu yfir í örfáa daga og hurfu svo, þeir fengu ekki einu sinni leiftursnöggt högg á höfuðið. Fjölmiðlar bera mikið vald og eiga að vera 4. valdið sem óháðir aðhalds- og rannsóknaraðilar í þjóðfélaginu en ekki málpípur hagsmunaaðila eða einstakra þjóðfélagshópa.