Í gegnum tíðina hefur oft verið rætt um hávaðamengun. Fólk kvartar yfir síbyljunni í útvarpinu og látunum frá vertshúsum í miðbænum. Enginn minnist þó á kirkjuklukkurnar. Samt þurfa þeir sem búa við kirkjurnar að þola drunurnar í þeim á hverjum einasta sunnudagsmorgni. Ég var lengi einn af þessum ógæfusömu einstaklingum, en það var þegar ég bjó við Háteigskirkju. Þá var mér gjörsamlega fyrirmunað að sofa út um helgar, þrátt fyrir sílikoneyrnatappana sem ég kom tryggilega fyrir í eyrunum áður en ég fór að sofa. Að því kom að ég gat ekki meir og flutti sem lengst frá kirkjuklukkunum.
Vinkona mín, sem býr við Laugarneskirkju kvelst fyrir þetta sama. Hún hefur oft verið lögð inn á geðdeild. Læknarnir þykjast vita hvað amar að henni og bregða fyrir sig latneskum nöfnum. En ég veit alveg hvað það er. Það eru kirkjuklukkurnar! Á sunnudagsmorgnum hringja þær í Laugarneskirkju klukkan hálf ellefu, kortér í ellefu og svo klukkan ellefu. Á geðdeildinni, þar sem þessi vinkona mín stundum dvelur, heyrist ekki í klukkunum. Samt er það svo, að þegar ég hef farið í sjúkravitjanir til hennar - einmitt á sunnudagsmorgnum - tek ég eftir að hún kippist til á þeim tímum þegar klukkurnar eiga að hringja.
Í kvikmyndinni “Hringjarinn frá Notre dame” með Audrey Hepurn og Charles Laughton í aðalhlutverkum, lék sá síðarnefndi kroppinbakinn sem hringdi klukkunum. Hann var að sjálfsögðu orðinn brjálaður. Brjálsemin lýsti sér þannig að hann fórnaði höndunum upp í loftið tryllingslegur á svipinn og hrópaði hástöfum: “klukkurnar, klukkurnar!”. Einmitt svona heldur vinkona mín að hún sé að verða, og dreymir um það martraðir oft í
mánuði.
Ég veit líka um fjölskyldu sem keypti sér hina fínustu íbúð við Hallgrímskirkju. Hún var björt og rúmgóð, en grunsamlega ódýr. Hver haldiði að ástæðan hafi verið? Jú, rúmin skulfu, þegar klukkurnar hringdu og - líkt og ég sjálfur áður fyrr - gat fjölskyldan aldrei sofið út um helgar. Á endanum flæmdist hún burt.
Einhver hefur sagt að kirkjuklukkur séu móðgun við heyrnarskerta, þ.e. margir eru kallaðir - nema þeir sem ekki heyra. Væri þá ekki nær að banna þennan hávaða, en setja bikkandi ljós í staðinn? Hugsanlega myndu sjóndaprir þó mótmæla, svo best væri að koma til móts við báða aðila. Annan hvern Sunnudag væri hægt að hringja klukkunum, en hina dagana blikkuðu ljós. Þá yrðu kirkjuturnarnir eins og vitar, sem væri svo sannarlega við hæfi. Ljósaútbúnaðurinn myndi vísa sjóreknum, villuráfandi sálum beint inn í náðarfaðm kirkjunnar, á meðan við hin gætum sofið út.