það kom að því á endanum
Arnold í fylkisstjóraframboð
Vöðvabúntið Arnold Schwarzenegger, hasarmyndahetja og margfaldur herra heimur, íhugar þessa dagana að skipta um starfsvettvang - hverfa af hvíta tjaldinu og skipta yfir í pólitíkina. Hann íhugar nú að bjóða sig fram til fylkisstjóra í Kaliforníu.
Arnold, sem heldur hefur látið á sjá sem áhorfendasegull að undanförnu, sagði í samtali við blaðamann Los Angeles Times, að hann væri jafnvel að spá í að skella sér í fylkisstjóraslaginn sem hefst eftir um það bil eitt ár, og feta þar með í fótspor Ronalds Reagan, sem hóf sinn stjórnmálaferil í Kaliforníu. Hann kemst þó ekki jafn langt og gamla kúrekastjarnan, þar sem kveðið er á um það í stjórnarskránni bandarísku, að þeir einir séu kjörgengir í forsetakosningum, sem fæðast í Bandaríkjunum. Schwarzenegger er sem kunnugt er austurrískur að ætt og uppruna.
Hann hefur reyndar löngum sýnt mikinn áhuga á stjórnmálum á opinberum vettvangi, verið öflugur stuðningsmaður repúblikana og harður gagnrýnandi Jörg Haiders, hins hægrisinnaða öfgamanns sem ríður húsum í hans gamla heimalandi.
“Ég hef oft hugsað um þetta, því ég elska stjórnmál,” sagði Schwarzenegger, og bætti því við að hann væri meira en til í að leggja kvikmyndaferilinn á hilluna í staðinn, þrátt fyrir að hann fái 20 milljónir dollara á mynd - eða hefur fengið það hingað til. Schwarzenegger segir að Kalifornía þurfi á sterkari leiðtoga að halda en þeim sem nú stendur við stjórnvölinn, en Gray Davis, núverandi fylkisstjóri, hefur átt í vök að verjast að undanförnu, sér í lagi vegna þess hve illa hann þykir hafa haldið á málum gagnvart raforkuframleiðendum og -dreifingaraðilum, sem hefur leitt til mikillar orkukreppu í fylkinu að undanförnu.
Arnold segist hafa komist að því á undanförnum tíu árum, að hann fái miklu meira út úr því að hjálpa fólki en því að þéna fé og búa til bíó. Hann sagði að reynsla síðustu tíu ára af mannúðar- og samfélagsmálum hafi leitt til þess að hann þyrsti stöðugt í meira af hinu sama, sem leiði að öllum líkindum til þess að lokum, að hann helli sér út í alvörustjórnmál af fullum krafti.
“Ég hef í raun ekki sagt að þetta sé rétti tíminn. En málið er, að ef Davis heldur áfram á sömu braut, þá verður fylkisstjórastóllinn laus eftir árið og ég gæti…”
Kona hans og tengdafólk hafa sjálfsagt ekkert nema gott eitt um þennan framtíðarstarfa Arnolds að segja, enda mikið stjórnmálaslekti þar á ferð. Kona hans er Maria Shriver, og er af Kennedy-ætt.