Hinsegin dagar verða haldnir um næstu helgi, dagana 8.-9. ágúst og hvet ég alla til þess að taka þátt í þessari skemmtilegu hátíð. Hápunktur hátíðarinnar er auðvitað gangan en það verður byrjað á því að stilla upp fyrir gönguna austan við Lögreglustöðina á Hlemmi kl. 13 á laugardegi. Svo verður lagt af stað kl. 15 og er gert er ráð fyrir því að gangan komist svo á áfangastað kl. 16:15.
Margir gagnkynhneigðir og jafnvel samkynhneigðir skilja ekki tilgang göngunnar svo áður en þið ákveðið að hanga heima í fýlu um helgina skal ég reyna að útskýra smá tilganginn. Þessi hátíð er ekki að senda þau skilaboð að samkynhneigðir séu eitthvað betri en aðrir, heldur aðeins til þess að fagna því að í dag er hægt að vera samkynhneigður og ganga niður Laugaveginn en ekki fela sig og tilfinningar sínar inni í læstum skáp eins og hefur verið frekar algengt seinustu aldirnar.
Samkynhneigt fólk hefur verið myrt, handtekið og sett í fangelsi, og verið rekið í burtu frá fjölskyldum sínum fyrir það eina að vera samkynhneigð. En þó það sé ekki algengt í dag þá er samt mikilvægt að halda þessa hátíð reglulega til þess að minna fólk á að berjast fyrir rétti sínum og ekki fela sig inni í skáp. Það sem er virkilega frábært við þessa hátíð er að samkynhneigðir sem en þá eru inni í skápnum og þekkja enga aðra samkynhneigða einstaklinga komast að því að þeir eru ekki þeir einu í heiminum sem tilheyra þessari kynhneigð. Í fyrra tók u.þ.b. 1/10 af þjóðinni þátt í göngunni og sendir það mjög jákvæm skilaboð til þeirra sem eiga eftir að koma út úr skápnum. Einnig er mjög sérstakt að meirihluti fólksins eru gagnkynhneigð en í flestum erlendum löndum eru næstum allir sem fara í Gay Pride göngur samkynhneigðir.
Einnig er þessi hátíð bara mjög skemmtileg og öðruvísi svo allir ættu að geta skemmt sér. Hvort sem þið eruð gagnkynhneigð, tvíkynhneigð eða samkynhneigð þá hvet ég ykkur öll til þess að taka þátt á laugardaginn og vera mætt út í bæ fyrir kl 15, og endilega takið með ykkur vini, kunningja, maka, foreldra eða börnin ykkar með. Ég held að það hafi mjög góð áhrif á börn að fara á þessa hátíð og getur það minnkað fordóma næstu kynslóða í framtíðinni.
Hvort sem það verður gott eða slæmt veður þá mun ég pottþétt mæta á svæðið, ef það verður rigning þá tek ég bara með mér regngalla. Einfalt mál! Sjáumst öll hress og kát á laugardaginn.