Nú eru líklega flestir komnir með álagningarseðlana fyrir síðasta ár í hendurnar og fólk örugglega mis ánægt með það sem á þeim stendur.
Tilefni þessara greinaskrifa eru þó ekki skattar mínir eða annarra, heldur svindl á þessu ágæta kerfi okkar sem hugsað er til þess að reka opinberar stofnanir og framkvæmdir s.s. skóla, heilbrigðiskerfi, vegakerfi o.s.frv. Ég er í.þ.m. ánægð með að börnin mín fái góða menntun og heilbrigðisþjónustu án þess að ég fari endanlega á hausinn.
Nú vil ég strax taka fram að ég er sjálfstætt foreldri sem vinnur hjá ríkinu og allar mínar tekjur eru uppgefnar og skattlagðar! Það sem ég er með tekjur vel yfir meðallagi þá fæ ég litlar sem engar barna- og vaxtabætur bætur sem er bara í góðu lagi þar sem margir hafa eflaust meir þörf á þeim en ég. Reyndar þykir mér dálítið gróft að skerða barnabætur hjá sjálfstæðu foreldri ef það fer yfir 1 milljón í árstekjur (hver getur lifað á því? Þó einhverjir þurfi þess eflaust!)
Það sem fer hinsvegar í taugarnar á mér er þegar fólk misnotar þetta kerfi sem er til þess hugsað að jafna hlut barnafólks með lágar tekur og þeirra sem eru mjög skuldsettir vegna húsnæðiskaupa.
Ég bý í fjórbýlishúsi og er örugglega sú eina sem er sannarlega eina fyrirvinnan. Samt erum við opinberlega þrjár skráðar sem sjálfstætt foreldri. Önnur af hinum sjálfstæðu mæðrunum býr með sjálfstæðum atvinnurekanda sem gerir það gott á með honum 7 ára barn (auk þess að eiga annað eldra, en þó yngra en 18 ára) og hefur búið með föðurnum töluvert lengur en þau sjö ár sem barnið hefur verið til, er þó alltaf einstætt foreldri. Sú kona vinnur hálfan daginn í eigin fyrirtæki og er skrifuð fyrir 18 milljónarkróna eign. Fær því að öllum líkindum töluverðar vaxtarbætur auk þess að fá barnabætur með tveim börnum.
Hin býr líka með barnsföður sínum og hefur gert frá því 5 ára barn þeirra fæddist. Sú er líka sjálfstæður atvinnurekandi, er skrifuð fyrir 14 milljónakróna eign og fær barnabætur með þrem börnum sem eru yngri en 18 ára.
Hvorugir barnsfeðurnir sem hér um ræðir eru með skráð lögheimili í húsinu svo ég er nokk viss um að konurnar eru virkilega skráðar sem einstætt foreldri hjá skattinum!
Ekki veit ég nákvæmlega hvað þessar konur gefa upp sem tekjur en veit þó að fyrirtæki þeirra eru dugleg við að kaup á heimilistækjum, s.s. þvottavélum, þurrkurum já og matvöru. Kostnaðurinn við þennan fyrirtækjarekstur er töluverður! Það sem fyrirtæki eru undaþegin vsk þá reikna ég með að við starfsmennirnir hjá ríkinu og öðrum fyrirtækum skilum mun meira í ríkissjóð á því formi.
Nú veit ég ekki nákvæmlega hversu háar barnabæturnar geta verið veit þó að sjálfstæðir foreldrar með um 2 milljónir í árstekjur eru að fá um 80 þús á þriggja mánaða fresti með tveim börnum, þessi upphæð er töluvert hærri með þrem börnum, en skerðist að sjálfsögðu ef tekjurnar eru hærri!
Báðar þessar konur fá töluvert hærri vaxtar- og barnabætur en undirrituð, eru þó með töluvert hærri heimilistekjur þar sem tvær fyrirvinnur eru á heimilinu. Þetta þykir mér súrt í meira lagi. Sérstaklega í ljósi þess að ég hef þurft að hlusta á svo margar “ræður” um það hvað einstæðir foreldrar (sérstaklega einstæðar mæður, karlmenn sem eru einir með börn fá að ég held töluvert meir samúð, enda færri) hafi það gott vegna þess hvað þær fá háar bætur frá ríkinu. Sannleikurinn er hinsvegar sá að margar einstæðar mæður hafa það skítt! Eru með litlar tekjur vegna þess að oft hafa þær ekki kost á yfirvinnu auk þess sem margar hafa hætt námi vegna barneigna eða hafa einfaldlega ekki kost á því að fara í nám og vinna því láglaunastörf. Þegar konur og menn eru farin að gera út á það að vera einstæðir foreldrar er það móðgun við þá sem sannarlega eru það.
Burt séð frá því að ég tel það siðferðislega rangt að vera að krunka úr einhverja hundraðþúsunkalla af ríkinu árlega þá held ég að margir sem stunda það að skilja á pappírunum hugsi málið ekki alveg til enda. Þær konur og menn sem skráðir eru einstæðir eiga t.d. ekki rétt á dánarbótum ef maki deyr. Ég veit dæmi þess að kona missti barnsföður sinn sem hún átti með tvö börn. Hann var skráður fyrir íbúðinni og þar sem börnin erfðu íbúðin ekki hún þarf hún að greiða börnunum sínum leigu á markaðsvirði. Maðurinn lést af slysförum í opinberu stafi en hún fékk ekki krónu af dánarbótunum, þær fóru til barnanna og sérstakur fjárráðamaður var skipaður handa þeim. Hvað svo með þessa karlmenn sem búa með “sjálfstæðu” mæðrunum.Ef þeim dettur í hug að henda þeim út þá eru þeir ekki skráðir fyrir neinu! Íbúðin er kvennanna og þeir geta í raun ekkert sagt eða gert því opinberlega á konan eignina!
Hvernig væri að skattkerfið færi að gera smá átak í því sem eflaust flokkast sem “smá” svindl. Ég er viss um að það kæmi nokkuð margar milljónir í ríkiskassann og við hin sem alltaf stöndum skil á okkar staðreiðslu njótum þess
Lifið vel MinnaMinna