Nauðganir
Nú er liðinn áratugur síðan ég fór síðast á útihátíð um verslunarmannahelgi.
Enda þó ég hafi verið grallari og djammari á mínum ungu árum þá var ég samt aldrei að fíla þetta bull sem útihátíðirnar reyndust vera.
Ég fór á 2 útihátíðir með stórum og góðum vinahópi og báðar voru þær disaster.
Það er eins og fólk fríki út og gleymi öllum siðaboðskap þegar það fer á útihátíð, ofdrykkja, dópneysla, ofbeldi og kynferðisleg misnotkun eru áberandi á þessum hátíðum, þó flestir séu vonandi að reyna bara að skemmta sér.
Því stundum þarf ekki nema nokkra einstaklinga til að eyðileggja fyrir restinni.
Jú jú – við þóttumst skemmta okkur mjög vel.
Það var dansað upp á sviði með SSSól og spjallað við Björk inn á klóseti.
Og það var sungið og hlegið og daðrað.
En á sunnudeginum var meira en nóg komið af vitleysunni samt og haldið heim á leið.
Tjöldunum rigndi í hel, svo við sváfum í drullupollum.
Tjaldsúlum var stolið.
DVD-spilaranum var stolið.
Okkur var boðið dóp. (sem ég held reyndar að enginn hafði þegið)
Ein vinkona mín fékk brennivínseitrun og þurfti að fljúga með hana til Reykjavíkur í sjúkraflugi.
Eitt vinapar mitt reifst um það hvort þau ættu að gera það í fyrsta skipti og þegar gaurinn fékk nei reyndi hann að þröngva sér á stelpuna sem hljóp út úr tjaldinu og hann nakinn á eftir henni.
Hann endaði svo inn í tjaldi með annarri stelpu.
Einn vinur minn var barinn í klessu.
Annar vinur minn barði gaurinn sem barði hinn í klessu.
Gæslan handtók hann og geymdi hann handjárnaðan í heila nótt inn í gámi.
Einn vinur minn velti bílnum sínum.
Tvær vinkonur mínar rifust og önnur reif upp vasahníf og ógnaði hinni.
Það var kveikt í tjaldi eins vinar míns.
Ég daðraði við 2 stráka og endaði með röngum aðila sem notfærði sér hvað ég var full og ung og vitlaus og lét sig svo bara hverfa, á meðan hinn gaurinn kom daginn eftir og hjálpaði mér að taka tjaldið saman og bar það í bílinn og gaf mér símanúmerið sitt og allt.
Og 13 ára stelpu sem við könnuðumst við var nauðgað !
******************
Eftirfarandi er tekið af vef og úr bæklingum frá Stígamótum :
Að minnsta kosti ein af hverjum fjórum konum og stúlkum hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi.
Nauðgun er einn af alvarlegustu glæpum sem beinast að einstaklingnum, aðeins mannsmorð er litið alvarlegri augum samkvæmt hegningarlögum.
Nauðgun snertir ekki aðeins konuna sem fyrir henni verður, heldur alla þá sem standa henni nærri. Nauðgun er smánarblettur á samfélaginu og er í senn persónuleg ógæfa og samfélagslegt vandamál.
HVAÐ ER NAUÐGUN ?
*Það er nauðgun ef einhver hefur við þig samfarir þótt þú viljir það ekki og hafir sagt nei.
*Það er líka nauðgun ef einhver hefur við þig samfarir og þú hefur drukkið það mikið að þú getur ekki gefið samþykki þitt.
*Það kallast tilraun til nauðgunar ef einhver reynir að koma fram vilja sínum en tekst það ekki.
Þeir einstaklingar sem leituðu hjálpar til Stígamóta sl. ár voru 440, þar af voru ný mál 255, fjöldi ofbeldismanna var 336 og heildarfjöldi viðtala var 1715.
Málum vegna nauðgana fjölgaði mest, eða um 40%.
HVERJIR NAUÐGA ?
*Það eru fyrst og fremst strákar/karlmenn sem nauðga en samkvæmt tölum frá Stígamótum fyrir árið 2001 voru karlar gerendur í 98,8% tilfella.
*Við búumst aldrei við nauðgun, allra síst þegar við erum með fólki sem við þekkjum og kannski treystum. Samt er það svo að algengustu nauðganirnar eru svokallaðar kunningjanauðganir, það er þegar einhver sem maður þekkir eða kannast við nauðgar.
Síðastliðið ár voru 75,4% nauðgana framin af einhverjum sem fórnarlambið þekkti og 23,3% af ókunnugum.
*Ókunnir nauðga líka.
*Það er ekki hægt að sjá fyrir hvort einhver sem þú hittir eða ert með ætli að beita því kynferðislega ofbeldi, sem nauðgun er
*Í 81,8% tilfella árið 2001 voru þolendur yngri en 19 ára þegar ofbeldið var framið.
En flestir eru á aldrinum 20-40 ára þegar þeir leituðu til Stígamóta.
Á árunum 1997-2000 voru alls 408 komur skráðar á Neyðarmóttöku. Nauðgun var langalgengasta tilefnið.
Fleiri konur í heiminum láta lífið eða missa heilsuna af völdum ofbeldis sem einhver sem þær þekkja hefur framið, heldur en af völdum krabbameins, hernaðarátaka, malaríu og umferðarslysa samanlagt.
AFLEIÐINGAR NAUÐGUNAR ERU ALVARLEGAR
*Að vera nauðgað hefur alvarlegar tilfinninga- og líkamlegar afleiðingar fyrir þann sem nauðgað er.
*Þolendur nauðgunar lýsa henni sem því versta og alvarlegasta, sem fyrir þá hefur komið.
*Fyrstu viðbrögðin við nauðgun geta verið breytileg, margar stúlkur/konur lýsa þeim sem tilfinningalegum doða, sumar verða ofsa hræddar, aðrar sýnast afar rólegar og yfirvegaðar á yfirborðinu og enn aðrar missa alla stjórn á tilfinningum sínum.
*Það eru ekki til nein ein viðbrögð við nauðgun, þau eru með ýmsum hætti.
HVAÐ Á AÐ GERA TIL AÐ FORÐAST NAUÐGUN ?
*ENGINN getur verið öruggur um að komast hjá nauðgun.
*Vertu ekki viðskila við vini þína, sem þú ert með á útihátíðum, partýum eða ef þú ferð í bæinn á kvöldin.
*Óneitanlega ertu auðveldara fórnarlamb ef þú hefur drukkið of mikið. Dragðu úr hættunni með því að drekka ekki of mikið.
*Ef einhver ætlar að nauðga þér æptu á hjálp eins hátt og lungun leyfa. Stundum getur það hrætt nauðgarann og vakið athygli þeirra sem eru í nágrenninu á því að þú þurfir á hjálp að halda.
HVAÐ GETUR ÞÚ GERT EF ÞÉR ER NAUÐGAÐ ?
*Ekki fara með nauðgunina sem leyndarmál, segðu einhverjum sem þú treystir frá henni.
*Nauðgarinn á að skammast sín ekki þú.
*Því oftar sem þú talar um nauðgunina og hvernig þér leið meðan á henni stóð, því fyrr kemst þú yfir það áfall sem nauðgun veldur.
*Kærðu nauðgunina og hafðu strax samband við lögregluna á þeim stað sem þú ert á.
*Ef þú vilt geta Stígamót hjálpað þér að tala við lögregluna og veitt þér ráðgjöf og stuðning hvar sem þú býrð á landinu. Hjá Stígamótum er fyllsta trúnaðar gætt
STÍGAMÓT ERU OPIN ALLA VIRKA DAGA FRÁ KL. 9-19
SÍMINN ER: 562-6868
Þú getur hringt eða leitað til Landspítalans í Fossvogi s: 525-1700 og Slysa- og bráðamóttöku FSA á Akureyri, s: 463-0800,
þar eru neyðarmóttökur fyrir þolendur nauðgunar.
Einnig getur þú leitað til Rauðakrosshússins í s: 800-5151 og Kvennaafhvarfsins s: 800-6205.
HVAÐ GETUR ÞÚ GERT EF VINI ÞÍNUM ER NAUÐGAÐ ?
*Trúðu frásögn hennar/hans og hlúðu vel að henni/honum.
*Vertu hjá henni/honum og veittu henni/honum allan þann stuðning sem þú getur.
*Hlustaðu á hana/hann og reyndu að fá hana/hann til þess að tala um það sem gerðist, því meira sem hún/hann getur talað um nauðgunina því betra fyrir hana/hann. Ekki taka af henni/honum ráðin.
MUNDU: NEI ÞÝÐIR NEI. NAUÐGUN ER GLÆPUR.