Undanfarið hafa menn hér farið hamförum yfir samkeppnishugtakinu. Sumir tala um að samkeppni sé “skylda” af því samkeppni er góð og þar með hlýtur að vera gott að þvinga hana upp á allt. Sé fyrirtæki orðið “of stórt” í tilteknum rekstri þá megi það ekki verjast samkeppni frá keppinautum því þá sé verið að minnka samkeppni og það hlýtur að vera slæmt. Ekki er lengur gerð krafa um að fyrirtæki bjóði upp á betri þjónustu eða vöru á lægra verði. Sé nýtt fyrirtæki stofnað í samkeppni við stórt og markaðsráðandi fyrirtæki þá verði stóra fyrirtækið hreinlega að horfa á aðgerðarlaust á á meðan viðskiptavinirnir flýji til keppinautanna. Ekki má verjast samkeppni því þá er verið að minnka samkeppni, og þar sem samkeppni sé góð og skylda þá verði að koma í veg fyrir að fyrirtæki verjist samkeppni.
Svona hefur umræðan verið. Samkeppnisstofnun svokölluð sér um að tryggja að fyrirtæki með hátt verð lækki ekki verð þegar keppinautar koma á markaðinn. Fyrirtæki með of lágt verð verði að hækka verð þegar nýjir keppinautar bjóða hærra verð. Fyrirtæki sem hafa sama verð verði að hækka eða lækka verð því annars er um samráð að ræða. Á þennan hátt er reynt að “tryggja samkeppni” og þeir sem mæla þessum handstýringum ríkisins á markaðnum í mót hljóta að vera siðblindir og hafa bara hagsmuni ríku kallanna í huga, á kostnað lífskjara almennings og hins vinnandi manns.
Menn tala líka um að kapítalisminn sé háður því að það sé “stöðug samkeppni”, sem er auðvitað alrangt. Kapítalisminn þarfnast þess ekki að tveir eða fleiri stundi tiltekinn rekstur. Þótt á Íslandi væri bara ein búð í matvöruverslun þá er það ekkert brot á þankagangi kapítalismans. Kapítalisminn byggist á stöðugum tækifærum. Ríkisvaldið á ekki að skipta sér af rekstri fyrirtækja, enda eru þau háð neytendum en ekki embættismönnum. Sé þessi eina matvörubúð að okra þá er komið tækifæri fyrir einhvern að stofna matvörubúð í samkeppni við þá sem fyrir er og bjóða lægra verð. Þannig treystir kapítalisminn á að verðlag sé “eðlilegt” og stöðugt sé keppst um að bjóða betur.
Sumir tala um að þessu frjálsa flæði framboðs og eftirspurnar megi spilla með því að stóru fyrirtækin undirbjóði nýja keppinauta, flæmi þá af markaðnum og geti þar með haldið uppi okurverðlagi. Ef til vill á þetta við til skamms tíma, en sé í raun og veru tækifæri til að bjóða betur þá heldur ekkert fyrirtæki út á þennan hátt til eilífðar.
Við sjáum nú nýtt olíufélag fæðast á Íslandi sem telur sig geta komist af með minna en 4.5 krónu af hverjum seldum lítra, en það er upphæðin sem rennur til olíufélaganna í dag eftir skatta og gjöld. Við sáum Europris fæðast í samkeppni við Bónus og Krónan lifir enn og er valkostur fyrir andstæðinga Baugs. Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) bauð til skamms tíma upp á tryggingar fyrir bíla en hrökklaðist í burtu eftir skyndilega lækkun tryggingafélaganna á verðskrá sinni, sem síðan hækkaði aftur eftir að nýji keppinauturinn var farinn. Létum við neytendur plata okkur svona hressilega? Af hverju skiptu svona fáir yfir til FÍB-trygginganna? Fannst neytendum kannski að verðlagið á sínum tryggingum væri í lagi? Mátu neytendur það kannski sem svo að fyrir góðar tryggingar yrði að borga ákveðið verð? Ég skal ekki svara þessu, og kannski er okrað á tryggingum á Íslandi, en hvað ætlar ríkið að gera í því? Þjóðnýta tryggingafélögin? Af hverju leita þeir sem hæst góla um okur tryggingafélaganna ekki að erlendum aðila sem er tilbúinn að bjóða betur á íslenskum markaði? Eða safna fjárfestum og stofna nýtt félag? Er kannski auðveldara að góla hátt en standa við orð sín?
Sem leiðir svo að því sem sorglegast hefur komið fram. Hér hafa ákveðnir aðilar stungið upp á því að ríkið eigi einfaldlega að sjá um olíusölu í landinu, og jafnvel tryggingarekstur líka. Ríkið sé svo stórt að það hljóti að ná mestu hagkvæmninni í innkaupum og ríkið hefur ekki gróðamyndun í huga svo verð hljóti að lækka og þjónusta að batna. Þar með væri landsmönnum tryggt það besta á sem lægsta verði og þeir sem sjái ekki hið “augljósa” í því hljóta að vera siðblindir menn að verja sjónarmið hinna auðugu á kostnað sjónarmiða hinna fátæku, og setja frelsið til að græða ofan við frelsið og tækifærið til að njóta góðra lífskjara, og hirða ekkert um að afleiðingar slíks séu ömurleg lífsskilyrða hinna tekjuminni á kostnað gríðarlegrar gróðamyndunar auðugra einstaklinga. Þessar fullyrðingar koma í staðinn fyrir rök.
Hefur fólk ekki neina hugmynd um áhrif þess að ríkið standi í atvinnurekstri? Sérstaklega atvinnurekstri sem það meinar öðrum að stunda, beint eða óbeint, með lögum eða skattþvingunum! Ég trúi því hreinlega ekki að fólk sé ekki búið að átta sig á því hvað einokunarrekstur ríkisins er þúsund sinnum verri fyrir neytendur, almenning, vinnandi fólk, tekjulága, tekjuháa, litla, stóra, hvíta, gula og svarta, en frjáls markaður einkaaðila í umhverfi tækifæra og sanngjarns lagaumhverfis. Gamlar tuggur um að Sovétríkin hafi bara verið “vitlaus iðkuð sameignarstefna” og að Kúba og Norður-Kórea séu fórnarlömb ríkra Vesturlanda og að fátækt og hungursneyð komi í raun ekki ofurvaldi einokunar ríkisins í löndum við er afþakkaðar. Sameignarstefnan er beinlínis ein aðalástæðan fyrir ömurlegum lífskjörum milljóna manna. Viljum við heimfæra slíkt upp á íslenskt samfélag? Viljum við auka áhrif stjórnmálamanna og þar með spillingu og sóun á opinberu fé í hvers konar rekstri sem í dag er í höndum einkaaðila? Aftur! Eða halda menn kannski að fyrirbæri eins og “Kolkrabbinn” og “Smokkfiskurinn” séu afkvæmi einkaframtaks og frjáls markaðar? En sú vitleysa!