Hvað ofan í annað heyrir maður fjallað um þessa blessuðu Samkeppnisstofnun og allt það frábæra sem hún á að vera að gera. Ef það er ekki verið að taka á því að flugfélag dirfist að lækka verð í samkeppni við aðra þá er verið að taka á því að olíufélögin eigi í samráði og séu ekki að keppa nógu mikið. Það er eins og aðeins sumir megi keppa og aðrir eigi hreinlega að vera skyldaðir til að keppa.
Þessi afskipti af viðskiptalífinu eru síðan blessuð í bak og fyrir af stjórnmálamönnum, jafnt til hægri og vinstri, í nafni almannaþágu og neytendavals, í þágu hins frjálsa markaðar. Sem sagt: “Samkeppni á sér stað á frjálsum markaði; frelsi er gott; þá hlýtur samkeppni að vera góð. Þess vegna verðum við að lögbjóða samkeppnina, þ.e.a.s. að þvinga fólk til að vera frjálst.”
En auðvitað er það ekki samkeppnin sem er í sjálfu sér lausn á neinu. Frjáls markaður þýðir ekki að samkeppni eigi sér stað eða þurfi að eiga sér stað. Frjáls markaður þýðir einfaldlega að menn séu frjálsir til að keppa ef þeir svo kjósa. Að menn hafi frelsi, ekki leyfi, til framleiðslu og viðskipta, án þvingana. Þetta er einmitt meginmisskilningurinn. “Fullkomin samkeppni” er hvorki tilgangur né meðal. Einstaklingar hafa rétt á frelsi til samkeppni, en enginn hefur rétt til að þvinga samkeppni milli annarra fram né banna hana. Ekki í nokkru einasta tilviki.
Frjáls markaður þýðir einnig að hverjum sem er sé frjálst að selja sína eign, sína framleiðslu eða sína vinnu, hverjum sem er og á hvaða verði sem er. Samkeppnisstofnun og samkeppnislög aftur á móti gera það að verkum að framleiðsla og eignir sumra eru gerðar upptækar. Varan er þá ekki lengur eigandans að selja nema í leyfi stjórnvalda. Það er ekki frelsi, og slík lög eru afkáraleg mótsögn í frjálsu samfélagi því þau gera að engu eignarrétt seljandans og rétt hans til viðskipta við aðra menn.
Til að sjá hvað þetta er fáránlegt getum við fært okkur yfir í bílamarkaðinn, sem flestum er kunnugur. Ef þú værir að selja bílinn þinn á milljón og nágranni þinn setti sinn bíl á markaðinn fyrir 800 þús., þá e.t.v. lækkaðir þú verðið á þínum bíl niður í 700 þúsund. Síðan fengirðu bréf frá samkeppnisstofnun að þetta væri nú bannað vegna þess að þú hafir verið að selja tvær bifreiðar nýverið og ættir að gefa nágrannanum séns að selja sína einu bifreið. Þér væri sem sagt bannað að selja bílinn þinn á lægra verði en ríkisvaldinu er þóknanlegt.
Hinn handleggurinn á þessu er svo að sagt er að fyrirtæki megi ekki hafa samráð um verðleggingar (sbr. umræðuna um olíufélögin nýverið). Þá er samkeppnin orðin skylda. Þar er misskilningurinn sá að neytendur hafi einhvern veginn rétt á lágu verði. En sannleikurinn er sá að það hefur enginn rétt á að kaupa neitt á lægra verði en annar er tilbúinn að selja það á. Menn skjóta því fram að samráð sé einhverskonar svindl. En hvar á svindlið sér stað? Hvar er þvingunin? Það þvingar enginn neytendur til að kaupa bensín. Þeir borga uppsett verð af fúsum og frjálsum vilja.
Þetta er jafn fáránlegt og að ef þú og nágranni þinn hefðuð samráð um verðleggingu á bílunum ykkar og fengjuð síðan áminningu frá Samkeppnisstofnun að slíkt væri svindl og svínarí. En á hverjum væruð þið að svindla?
Í ofanálag þá byrjar samráðið ekki með íslensku olíufélögunum. Það vill einmitt svo til að það á sér stað samráð um olíuverð á heimsvísu. Framboði af olíu frá 11 af stærstu olíuframleiðslulöndum í heimi er miðstjórnað af sambandi þessara 11 ríkja. Það samband kallast OPEC. Og velflest eru þau lönd þar sem menn eru ekki frjálsir, og þar sem samkeppni er hreinlega bönnuð eða olíumarkaðurinn er alfarið í eigu ríkisstjórnar en ekki frjálsra manna. Ef menn vilja beita sér gegn okri á bensíni og samráði í verðlagningu þá skulu menn byrja þar.
Hvatinn fyrir samráði hérlendis er að vísu annar en milli OPEC ríkjanna. Olíufélögin á Íslandi eiga nefnilega sameiginlegan andskota. Tollar á innflutningi og hlutfallslega hár skattur á bensín gera það sama og í öðrum atvinnuvegum, og það sama og allstaðar í heiminum. Slíkt einangrar innlendan markað, eykur innflutningskostnað (og hækkar þannig endanlega verðlagningu), og síðast en ekki síst ýtir slíkt undir samráð innlendra framleiðenda og innflytjenda. Það virðist því vera hagræðing í samráði á íslenskum olíumarkaði, vegna þess að kostnaður er nokkuð fastur. Það er dýrt að flytja olíu til Íslands, og afar fátt sem eitt olíufélag getur gert öðruvísi en annað olíufélag, og þannig lítill grundvöllur fyrir samkeppni. Þau skipta öll við sömu skipafélögin, borga sömu skattana og stunda í grófum dráttum innflutning og dreifingu á sama hátt, og það er ekki nokkur skapaður hlutur sem Samkeppnisstofnun getur gert í því.
Það er kominn tími á að leggja niður samkeppnisstofnun og gefa íslenskum atvinnuvegi færi á að blómstra í friði. Ekki vegna þess að menn hafa leyfi til þess, heldur vegna þess að þeir hafa rétt á því.