Vart þarf að fjölyrða um þær alvarlega ásakanir sem koma fram í frumskýrslu samkeppnisstofnunar um meint ólöglegt samráð olíufélaganna. Hitt hefur farið lægra, þó ekki alveg hljótt, að mjög líklegt er að flestar eða allar þessar sakir verði fyrndar áður en ákæra verður gefin út, svo sökudólgarnir sleppa frá þessu refsilaust.
Þess vegna tel ég að við, neytendur og skattgreiðendur, verðum að taka það hlutverk að okkur að refsa þessum fyrirtækjum. Nú eru fréttir um að nýtt fyrirtæki hyggist hefja olíuverslun hérlendis, og jafnvel er orðrómur um að bónus ætli sér inn á þann markað. Neytendum er því í lófa lagið (ef af verður) að Boycotta gömlu olíufélögin og beina viðskiptum sínum til þessara nýju aðila. Fullvíst má þó telja að þau mæti þessari nýju samkeppni með því að stórlækka verð hjá sér, enda geta þau treyst á digra sjóði sem þau hafa stolið úr vasa neytenda og skattgreiðenda til að standa undir slíkum undirboðum. Neytendur verða að halda vöku sinni til að falla ekki fyrir slíkum gylliboðum. Hver aur sem spara mætti með því að kaupa bensín á undirverði hjá gömlu félögunum verður tekinn margfaldur til baka ef þeim tekst að ryðja samkeppninni út af markaðnum.
Verslum ekki hjá þjófum.