Þetta málefni er nú ekkert voðalega mikið í umræðunni en mig langar til að skella þessu samt fram.

Málið er að ég er einn af þeim sem eru með þágufallssýki og tala ekkert sérstaklega góða íslensku. Ég hef enga tilfinningu fyrir því hvenær ég tala slæma íslensku. Þetta hefur nú ekki háð mér svakalega, hef gengið í gegnum framhaldskóla áfallalaust og er í Háskólanum.

En það eru margir sem alltaf eru að leiðrétta mig. Sumir segja að þetta sé leti hjá mér, ég hafi einfaldlega ekki nennt að læra rétta íslensku. Stundum þá skammast ég mín fyrir þetta. Finnst eins og þetta sé galli í mínu fari.

En er það svo? Ég hef stundum réttlætt þetta fyrir mér þegar fólk er að leiðrétta mig og kalla mig letingja. Ég hef sagt að tungumál sé tæki tjáningar, tilgangur tungumáls er að gera sig skiljanlegan! Þegar einhver segir Mér langar í staðin fyrir Mig langar (eða var það öfugt.. man ekki) þá fer ekki á milli mála hvað er að gerast. Einstaklingurinn er að lýsa löngunn sinni í eitthvað. Afhverju þarf það að vera “rétt”?

Síðan er önnur réttlæting. hver ákveður hvað er rétt og rangt? Fyrir nokkrum árum síðan fékk einstakur Íslenskur rithöfundur Nóbelsverðlaunin, og hann skrifaði stundum ekki samkvæmt “réttum” íslenskum reglum. Fyrir nokkrum tugum árum síðan var notuð z-an í miklu mæli. Nú sést hún ekki. Afhverju? Það er vegna þess að það voru einhverjir sem settust niður og ákváðu að þetta væri ekki rétt mál. Einhverjir örfáir tóku sér það vald í hendur að stjórna hvernig aðrir tala og skrifa.

En síðan skilur maður hinn pólinn. Þetta er gert til þess að vernda tungumálið fyrir óæskilegum áhrifum og líka til þess að við getum kennt börnunum okkar hin mikla arf sem tungumálið er (og öruglega fleiri ástæður sem ég man ekki eftir í augnablikinu).

En tungumál er samt tæki sem er að þróast, það tekur breytingum á milli kynslóða, það blandast öðrum tungumálum, það deyr jafnvel út, hver á að dæma hvort einhver talar “rétt” eða “rangt”? Þú? Einhverjir fræðimenn? Ég?