“Ef peningar komu með Kainsmerki í heiminn þá kom kapítalið löðrandi blóði.
Úr hverri svitaholu þess draup blóð og skítur”
- Marx.
Hvað er kapítal ?
Kapítal er eign sem lögð er í fyrirtæki eða rekstur með von um ágóða, fjármagn eða framleiðslutæki.
Hvað er þá kapítalismi ?
Kapítalismi er maður sem á þetta fjármagn eða framleiðslutæki, hús, vélar, hráefni o.s.frv. Og byggir framleiðslu sína á eignarhaldi á framleiðslutækjum og kaupum á vinnuafli verkafólks.
“Eftir að nútímaiðnaði hafði verið komið af stað fór hann fljótt að skila gróða.
En hvaðan kom kapítalið í upphafi, þ.e.a.s. áður en nútímaiðnrekstur var hafinn ?
Þetta er mikilvæg spurning því að iðnaðarkapítalismi væri ekki til ef ekki hefði í byrjun verið hægt að safna saman nógu miklum kapítal.
En auk þess þurfti að vera til frjáls, eignalaus verkalýðsstétt. þ.e. fólk sem verður að sjá fyrir sér farborða með því að vinna fyrir aðra.
Hvernig var þessum tveimur forsendum fullnægt ?”
Svo segir sagnfræðingurinn Leo Huberman í bók sinni Jarðneskar eigur : Saga auðs og stétta, þar sem hann leitast eftir að skýra farveg hagfræðikenninga í sögulegum skilningi.
***************************************** ******************
Ég ætla hér í þessari grein að benda á nokkur atriði sem Huberman og aðrir fræðimenn telja vera grundvöllinn fyrir því að kapítalskt kerfi komst á í Evrópu.
Á miðöldum, tímum lénsveldisins voru viðskipti í lágmarki, hvert svæði framleiddi nokkurn veginn allt sem þar þurfti, og peningar voru lítið sem ekkert notaðir sem gjaldmiðill. Frekar var skipt beint með þær vörur sem fólk átti.
Auk þess taldi kirkjan líka vera synd að græða á viðskiptum og þeir sem rukkuðu meira en raunvirði hlutarins eða tóku vexti af lánum voru bannfærðir til helvítis af kirkjunni.
Krossferðirnar urðu mikill hvati til aukinnar verslunar. Tugþúsundir evrópumanna fóru um langa vegu til að ná Landinu helga úr greipum múslima.
Á hinu langa ferðalagi þörfnuðust þeir vista svo kaupmenn slógust í för með þeim til að sjá fyrir daglegum þörfum þeirra.
Í Austurlöndum vöndust krossfararnir framandi mat og kryddum og glæsilegum klæðum svo markaðurinn hélst enn opinn eftir krossferðirnar.
Upp úr 1100 varð mikil fólksfjölgun í Evrópu og þá voru margir aðalsmannasynir sem ekki voru elstir og fengur lítið eða ekkert land sem sáu krossferðirnar sem leið til að ná sér í land og auð með því að ræna og myrða “villutrúarmenn”.
Nokkrar borgir eins og Feneyjar voru það vel staðsettar að þar skapaðist kjörinn staður sem verslunarborgir og þessar borgir urðu mjög fljótt syndandi í gulli og gimsteinum, kryddum og silki, aðalega frá þessum ránsferðum.
San Marco kirkjan í Feneyjum er einmitt öskrandi dæmi um þetta, því kaupmenn frá Feneyjum gáfu kirkjunni alltaf ákveðinn hluta af gróða sínum til að þóknast guði og er þessi kirkja eins og þeir sem hana hafa séð vita, byggð úr ótrúlegustu hlutum ósamstæðum og stundum alveg út í hött, en allt gull og gimsteinar og ótrúleg verðmæti.
Með meiri verslun og stækkun borga í kjölfar þess, var greinilegt að það var margt sem þurfti að breytast.
Borgirnar og þeir sem þar bjuggu heimtuðu frelsi og ekki aðeins undan lénsveldisfyrirkomulaginu heldur einnig undan kirkjunni.
Það hófst á endanum og lénsveldið lagðist niður en þess í stað kom hið dæmigerða einveldi konunga sem við þekkjum vel.
Það hentaði borgarbúum og kaupmönnum betur að flestu leyti því frelsið var meira, nú fyrst gátu bændur farið frá lénsherrum sínum og streymdu því í borgirnar í von um betra líf.
***************
Á svipuðum tíma byrjuðu heimsferðirnar og þá færðist til Evrópu meiri auður en nokkurn hefði getað grunað.
“Með fundi gulls og silfurs í Ameríku, þrælkun og útrýmingu frumbyggja sem voru grafnir lifandi í námum, upphaf landvinninga og rána í Austur-Indíum, breyting Afríku í forðabúr svartrar þrælasölu.
Þannig var morgunroði hins nýja dags sem bar kapítalska framleiðsluþætti í skauti sér. Þessar þokkalegu aðferðir voru höfuðþátturinn í frumupphleðslu auðmagnsins.”
- Marx
Í Ameríku var Indíánum þrælað út við námugröft í gullnámum, en allt gullið var flutt til Spánar, hundruðir þúsunda indíána voru drepnir eða létust á óbeinan hátta af völdum landnemanna.
Í Austur-Indíu var landinu stolið af innfæddum og þeir drepnir í þúsundatali.
Árið 1750 bjuggu 80 þús innfæddir í héraðinu Banjuwangi á Jövu en árið 1811 voru aðeins 18 þús.
Restina höfðu Hollendingar drepið miskunnarlaust og hlóðu með því upp nægu fjármagni til að verða leiðandi kapítalistar á 18.öld.
Englendingar sviku sig inn í Indland og eftir að hafa velt stjórnendum landsins úr sessi virkjuðu þeir iðni og orku fólksins sér í hag en skildu ekkert eftir handa innfæddum.
Árin 1769-1770 dóu þúsundir Indverja úr hungri. Var skortur á matvælum ?
Nei ekki aldeilis, það var mikið meira en nóg til.
En hvers vegna svalt þá fólkið ?
Vegna þess að Englendingarnir höfðu með valdi sínu keypt upp allar hrísgrjónabyrgðirnar og neituðu að selja þær aftur nema á verði sem fólkið gat ekki borgað.
Til Afríku var farið í fjölmargar mannránsferðir og innfæddir seldir eins og hver annað verkfæri.
Árið 1788 grátbáðu kaupmenn frá Liverpool og Manchester þingið um að hlusta ekki á “þær smekklausu raddir sem fannst verslun með lifandi fólk vera viðbjóður“,
og komu með þau rök að þrælahald væri uppistaða í efnahagskerfi þeirra og sívaxandi iðnaði.
Það væru þrælarnir sem smíðuðu hafnirnar og gufuvélarnar og unnu svo í verksmiðjunum fyrir engin laun.
Viðskipti, með öðrum orðum : landvinningar, víkingaferðir, rán og kúgun voru árangursríkar aðferðir. Þær skiluðum miklum arði, geysistórum upphæðum – vaxandi kapítalforða.
************************
Þá komum við að fólkinu, frjálsa eignalausa fólkinu sem þurfti til að vinna verkin.
Hvaðan kom það ?
Eitt illræmdasta dæmið um hvernig fólkið neyddist til að fara að vinna í verkmiðjunum er sagan af Sutherland hertogaynju í Skotlandi sem var útsjónarsöm í peningamálum og hugðist nota landið sitt á vænlegri hátt en að hafa bændur á því sem höfðu mann fram að manni ræktað þetta land og þjónað fjölskyldu hennar.
Á árunum 1814-1820 voru íbúar sveitarinnar hennar (3000 fjölskyldur) eltir uppi og reknir burt.
Öll þorp voru lögð í eyði og brennd til grunna og akrar voru nýttir sem beitiland.
Breskir hermenn sáu um að bera fólkið út og oft kom til átaka. Ein gömul kona neitaði að yfirgefa kofa sinn og var brennd inni.
Svona eignaðist þessi náðuga frú 794000 ekrur sem þetta fólk og forfeður þeirra höfðu búið á í ómunatíð.
Þegar sjálfseignarbændur misstu hver á fætur öðrum heimili sin og bú, þurftu þeir að leita til borganna eftir vinnu.
Þar biðu kapítalistarnir eftir þeim með framleiðslutækin og iðnaðurinn fór af stað með hraða á við spíti-gonzales.
****************
Áður en ég lýk þessari umræðu minni um upphaf kapítalismans þá ætla ég aðeins að ræða hvað varð um fólkið sem fór að vinna í verksmiðjunum.
Hver voru kjör þeirra , voru þau ekki betri en áður ?
Í kjölfar iðnbyltingarinnar og með komu kapítalismans varð vissulega gífurleg framleiðsluaukning.
Framleiðsla á baðmullardúkum, járni og kolum margfaldaðist og verð og gróði líka.
En hverjir græddu á þessu ?
Í skýrslu frá árinu 1836 um England segir :
“Fast að einni milljón manna sveltur og þeim fjölgar stöðugt…. Bylting hefur orðið í verslun og viðskiptum.
Nú hafa mikil og vaxandi viðskipti ekki í för með sér batnandi lífskjör vinnandi manna heldur aukna fátækt og niðurlægingu. Þannig eru þeir tímar sem nú eru runnir upp í Stóra-Bretlandi.”
Reyndin var nefnilega sú að með komu kapítalismans var kominn upp ný tegund af þrældómi, ekki ósvipað og í Grikklandi til forna þar sem örfáir útvaldir lifðu eins og kóngar í höllum sínum og unnu aldrei neitt meðan “þrælarnir” svitnuðu langt fram eftir kvöldi í verksmiðjunum og halda þá heim í heilsuspillandi hreysi sem voru ekki svínum bjóðandi.
Það hafði alltaf verið stéttarskipting, ríkir og fátækir, en með tilkomu vélanna varð munurinn enn meiri.
Handverksmenn sem ekki höfðu getað keppt við verksmiðjurnar með handverki voru illa settir og þurftu að fara að vinna í verksmiðjunum fyrir aðeins brot af því sem þeir höfðu áður þénað. Þannig urðu verkamennirnir fátækari en áður
Þeir sem áttu framleiðsluvélarnar, eigendurnir, kapítalistarnir unnu ekkert sjálfir, hirtu allan gróðann og urðu sífellt ríkari.
Auk þess var allur aðbúnaður hræðilegur fyrir fólkið.
Nýjar vélar áttu að létta mönnunum störfin, en reyndin varð sú að vinnan varð erfiðari en áður vegna þess að vélarnar voru svo afkastamiklar og iðnrekendurnir vildu ekki láta þær standa aðgerðalausar, það væri tap á peningum.
Þess vegna var vinnudagurinn langur, oft 16 tímar. Enn verra en langur vinnudagur voru reglurnar.
Spunafólk í verksmiðju í Manchester þurfti t.d. að vinna 14 stundir á dag í 27-29 stiga hita.
Bannað var að senda eftir drykkjarvatni og það varð að greiða sektir (1-2 skildinga) ef það braut eftirfarandi reglur :
Vinna við opinn glugga, vinna skítugur, þvo sér í vinnutíma, gera við kraftreim við logandi gasljós, spinna við gasljós of lengi á morgnanna (ljósið er semsagt notað til að verkamaðurinn sjái eitthvað), blístra í vinnunni.
Og taka verður fram að oft var fólkið ekki með nema 4-10 skildinga í laun á viku svo hver sekt var stórt hlutfall af launum verkamannsins.
Starfsumhverfið var líka svo slæmt að hundruðir verkamanna létust af slysförum í vinnunni eða af sjúkdómum sem mátti rekja til vinnuaðstæðna.
Kapítalistunum fannst þeir geta gert hvað sem þeir vildu og að verkafólkið væri minna virði en vélarnar, þar sem þeir áttu bundið fé í vélunum en ekki í fólkinu.
Það þarf að sjálfsögðu ekki að taka fram að þeir greiddu eins lág laun og möguleiki var á og helst vildu þeir fá konur og börn því þeim gátu þeir greitt lægri laun en körlum.
Oft keyptu þeir líka börn á fátækrahælum og létu vinna fyrir sig og þau börn voru barin og misnotuð meira en aðrir.
Þegar fram liðu stundir voru samanlögð laun foreldra orðin svo lág að það þurfti að senda börnin í verksmiðjur og námur til þess eins að geta fætt og klætt alla á heimilinu.
*********************
Þetta er ótrúlegt en satt og það versta er að svona óréttlæti viðgengst enn þann dag í dag þó það sé ekki í jafn miklu mæli og áður.
Stritstöðvar (sweatshops) eru enn við líði um allan heim og undir ábyrgð fokríkra kapítalista sem meira að segja eru svo samviskulausir að þeir færa oft á tíðum verksmiðjurnar á milli landa til að vera alltaf í réttu landi á réttum tíma,
þ.e. þar sem auðveldast er að misnota neyð fólksins.
En hver vegna hætti þetta ástand í Evrópu ?
Af hverju hættu iðnrekendurnir að fara svona illa með starfsfólkið ?
Hvers vegna hækkuðu laun og styttri vinnutími og réttur á veikindafríi og öruggu starfsumhverfi ?
Sáu kapítalistarnir að sér og ákváðu af eigin rammleik að bæta kjör verkamannanna vitandi það að þá sjálfa munaði ekkert um að eyða einhverjum hluta af gróðanum í þá ?
Nei – sko aldeilis ekki !
Það var ekki fyrr sósíalísk hugsun komst á ferli,
ekki fyrr en eftir áratuga baráttu fyrir að mega stofna réttindasamtök,
áratuga kúgun, ofbeldi og morð á hendur þeim sem töluðu fyrir bættum kjörum verkamanna.
Áratuga einelti á hendur verkalýðsfélaga og meðlima þeirra sem þeir urðu að gefa sig,
og reglur sem bættu kjör verkamannanna voru settar í lög.
Þá fyrst fór ástandið að batna og það var því og þeim dugnaðarforkum sem nenntu að berjast á þennan hátt fyrir réttlætinu í tugi ára að við búum við þau kjör og það líf sem við gerum í dag, en ekki föst ofan í kolanámu 16 tíma á dag, með garnagaul og berkla.
En það er önnur saga, sem ég segi kannski síðar !
Lifið heil
Lyssia
The world is a dangerous place, not because of those who do evil, but because of those who look on and do nothing.
- Albert Einstein