Eitt sinn fyrir langa löngu var til þjóðfélag á lítilli eyju. Þar bjó alls konar fólk sem lagði stund á pólitík. Það fyndna við þá pólitík var það að menn mátu hagsmuni síns eigins flokks meira heldur en hagsmuni þjóðarinnar. Sem sagt var upprunalega merkingin á bak við pólitíkina löngu horfin, en áður fyrr lögðu menn stund á þetta svo að hagsmunir allra lægju í fyrirrúmi. Fólk hringsnerist í kring um forystumenn sína og gat ekki hugsað sjálfstætt vegna þess að það þótti ekki hæfa sjónarmiðum flokksins, sem miðaðist að því að fólk varð að bæla allar framfaraþrár niður vegna þess að það gæti bitnað á flokknum þó að þjóðin stórgræddi á því.
Ef einhver andstæðingaflokkur hafði sitthvað til brunns að bera en ekki flokkur manns; þá varð bara eignað sér hugmyndir hans en sett í öðruvísi búning og var sem sú aðferð virkaði ávallt – maður verður, jú, að aðlagast með því að ræna hlutum frá öðrum og hylja tómleika sinn með því. Ef það virkaði ekki að stela eingöngu frá andstæðingaflokknum þá var í staðinn bara gert skoðanakannanir til þess að móta atkvæðin sér í vil, t.d með því að höfða til samúðar fólks sem vill ávallt gefa atkvæði sín til þeirra flokka sem mest eiga mest ,,bágt´´ og svo hvernig sumt fólk vill alltaf fylgja straumnum með þvi að kjósa þá fylgisstærstu.
En þó var þetta ekki svo neikvætt þegar á heildina var litið, allur óvinaháttur í kosningabaráttunni var bara í plati og í djóki vegna þess að þegar á þingið var komið þá voru allir hinir bestu vinir og mátar sem áttu sér sömu hugsjón: ,,Að hugsa um hag sinn og sinna manna´´. Þó stjórnin biði hnekki þá skipti það í raun engu máli vegna þess að pólitíkusar eru pólitíkusar og þess vegna tók úlfur við af úlfi í næstu kosningum.
Til voru auðmenn og áttu þeir sér afkomendur sem þurftu aldrei að hafa fyrir neinu í lífinu og þess vegna tók neyslan við af víðsýninni (enginn skortur, ekkert ímyndunarafl). Bankarnir viðhéldu þessum óunna auði afkomenda með vöxtum sem stækkaði sífellt með tímanum og auk þess seglast alltaf völdin til auðsins og völdin geta af sér auð. Völd þessa fólks jókst með tímanum og þannig gekk þetta koll af kolli þangað til afkomendurnir eignuðust óþrjótanlegan auð en fyrir vikið töpuðu þeir frá sér öllu viti vegna þess að afkomendurnum hefur aldrei gefist færi á því að frjóvga það vegna ofneyslunnar.
Til var fólk sem fæddist sem auðmenn, og til var fólk sem fæddist sem öryrkjar. Alþýðan vorkenndi fyrri hópnum fyrir að græða ekki jafn mikið í dag og áður fyrr en hinsvegar fékk seinni hópurinn enga samúð vegna þess að hann þótti ekki geta endurgoldið samúðina. Vesalingarnir áttu sér erfitt líf, alþýðunni fannst það vera sjálfum vesalingunum að kenna fyrst þeir voru að fæðast í heiminn án þess að geta staðið sig í stykkinu.
Alþýðan hugsaði með sér:,, Við höfum ekkert efni á því að gefa til góðgerðamála en þó getum við fjárfest í klæðnaði handa gæludýrum og svo hvernig við köstum perlum okkar til svína (þ.e alþingis).´´ Vesalingarnir reyndu að vekja athygli á erfiðu lífi sínu (sem kallaðist í raun ekki líf heldur einangrun án rimla) en fengu engin viðbrögð frá alþýðunni vegna þess að hún var of djúpt sokkin í það hvernig næsti leikurinn í fótbolta mundi enda. Sem sagt gleymdust allir vesalingarnir og varð málstaður þeirra settur í bið þangað til göfugri málstaðir yrðu framkvæmdir (þ.e borun tilgangslausra gangna á Norðurlandi).
Alþýðan var skrítin alþýða, vegna þess að hún var alþýða í lýðræðisríki en fékk samt engu um það ráðið í hvað gert yrði við uppskeru vinnu þess í stórframkvæmdum og var sem fólk væri fyrirfram búið að gefa allan mótþróa upp á bátinn. Á götunni hefti mottóið fólkið og lýsti það sér svo:
,,Þótt við mótmælum þá gerist ekki neitt´´, sem sagt fattaði fólkið ekki að lýðsræðisríki er þannig ríki sem lætur stjórnast af almenningi. Þessi alþýða gat skipst í fjórar manngerðir:
Ein lýsti sér svo að hún tók kjör annara fram yfir sín en því miður vanteystu hinar manngerðirnar henni vegna þess að önnur manngerðin var þannig að hún vildi ávallt keppast um brauðmolana sem féllu af borði auðmannana og því laug hún til um fyrstu manngerðina í áheyrn hinnar áhrifagjörnu þriðju og þar með eyðilögðust öll ráð til framfara, en hvað varðar fjóru manngerðina þá er hún gleymd og bíður alþýðan eftir því að hún sé grafin.
Þetta var þjóðfélag hringamyndunar og baktjaldamakks. Það var spurning hvort skíturinn hafi verið sópaður undir teppið eða teppið var lagt yfir skítinn, en þó var öruggt að neglt var teppið fast við gólfið og menn réðu til um það hvenær ryksugan kæmi í tæka tíð (sem sagt aldrei). Eftir því sem skíturinn gerðist meiri og meiri þá bólgnaði teppið upp þangað til það líktist loftbelg á jörðu niðri.
Þegar alþýðan mætti þessu uppbólgnaða teppi þá hugsaði hún með sér:
,,Hvað er þetta?´´ og potaði í teppið en þá kom smágat og auk þess fýla út úr því.
Þá sagði fólkið sín á milli:
,,Þessir valda- og auðmenn okkar hafa farið á bak við alþýðuna með leynimakki! Förum í vinnuna og vælum um þetta mál í um eina til tvær vikur í kaffistofunni en síðan skulum við gleyma þessu og halda áfram að láta féfletta okkur.´´
Sem sagt skipti það í raun engu máli hversu skíturinn gerðist sýnilegri með tímanum vegna þess að fólkið var orðið vant metangasi og því þótti það engu frábrugðnara en súrefni.
Fyrsta manngerðin mótmælti oft því sem fyrir sjónum bar, þó í litlum mæli vegna þess að engar aðrar manngerðir gátu hlunkast sér til að standa vörð um sín réttindi vegna þess að alltaf var því borið við að ,, hann gerir þetta ekki, þannig að þá ætla ég ekki heldur að gera það´´ og svo hvernig það þótti ,,ókarlmannlegt´´ að láta í ljós reiði sína en það var auðvitað hugtak sem auðmenn notuðu til þess að deila og drottna sér í hag. Ekki máttu mótmælendurnir nota róttækar og frumlegar aðferðir til þess að vekja athygli á mótmælum sínum vegna þess að öll frumleg hugsun á eyjunni er bönnuð og eru allir svoleiðis glæpamenn níddir niður (því þeir eru, jú, hættulegir þjóðfélaginu).
Þó fengu friðsamlegu mótmælin dræmar undirtektir vegna þess að valda- og auðmennirnir litu á mótmælendurna sem krakka sem fara á ákveðið svæði til þess að leika sér og þess vegna gekk það ekkert að mótmæla á stöðluðum stöðum ef það vantaði sjálfa pólitíkusana. Pólitíkusarnir snerta aldrei hinar minnstu byrðir sem þeir leggja öðrum á hendur líkt og herforingjarnir í fyrri heimstyrjöldinni gerðu (En þeir notuðu tindátakalla á leikborðum til þess að skipuleggja hugsanleg hernaðaplön. Táknuðu leikföngin þúsundi hermanna sem þeir höfðu yfir að ráða og fóru herforingjarnir aldrei út fyrir ríkulegu bústaði sína, sem voru fjarri sjónum vígstöðvanna, til þess að horfast í augu við ógeðfelldan raunveruleikann) og því snýst þetta allt saman um það að færa mótmælin til þeirrar heimavallar í stað þess að þeir velji vígvöllin einhvers staðar úti í rassgati.