Þetta er nú alveg ótrúleg bullgrein hjá þér og lýsir ótrúlegri fávisku!
Veist þú hvar tekjur Íslands verða til? Vissir þú t.d. að þegar Ólafsfjarðargöngin voru byggð voru tveir frystitogarar á Ólafsfirði sem á EINU ÁRI sköpuðu gjaldeyristekjur sem dugðu til að borga göngin upp. Ef tekin yrði upp sú stefna að úthluta fjármagni eftir því hvar það yrði til er ég ansi hræddur um að töluverðar upphæðir myndu flytjast burt frá höfuðborgarsvæðinu og út á land, t.d. til Norðurlands sem hefur nú í dag tvö af stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins, og útgerðin er jú enn að skila um 65% af heildarútflutningstekjum Íslands.
Hver nennir að hanga í einhverju smáplássi lengst norður í landi spyrðu! Það eru mjög margir sem hafa ekki áhuga á að flytjast í glæpaborgina Reykjavík (Reykjavík er með hærri glæpatíðni en flestar borgir í USA). Moldarkumbaldar eru ekkert algengari í bæjum úti á “landsbyggðinni” en þeir eru í Reykjavík, ef eitthvað er eru hús þar mun nýrri en í t.d. Reykjavík - það er ekki eins og Þingholtin, Grettisgatan og nágrenni og hreysin sem standa neðan við Hverfisgötuna séu einhver draumasvæði.
Það er ekkert eðlilegt að meirihluti fjárútláta í vegamálum sé þar sem meirihluti frónbúa er - ef svo hefði verið hugsað er hætt við að ósköp lítið hefði byggst upp af Reykjavík, Hafnarfjörður væri að öllum líkindum langstærsti bærinn á Íslandi og Suðurlandsundirlendið væri undirlagt af flóknu vegakerfi.
Hvort jarðgöng til Siglufjarðar séu einhver draumalausn veit ég ekkert um, en það að fólk sé eitthvað verra af því það fæddist á Raufarhöfn en ekki í Vesturbænum, það eyddi unglingsárunum að vinna í fiski á Djúpavogi, ekki að reykja hass á Ingólfstorgi eða keypti sér einbýlishús á Ísafirði en ekki 50 fermetra kjallaraholu í Smáíbúðahverfinu er auðvitað fjandans vitleysa.
Að þurfa hvað eftir annað að lesa svona ömurlegt kjaftæði eftir börn sem ekkert vita um hvað þau eru að tala er orðið verulega pirrandi! Lesið Íslandssöguna, þó ekki væri nema svona 60 ár aftur í tímann! Hvar haldið þið að Reykjavík væri í dag ef Siglufjörður hefði ekki verið að skapa einn og sér nægar tekjur til að halda landinu gangandi á sínum tíma? Hvað varð um þær tekjur? Ekki urðu þær eftir á Siglufirði! Hvað með Raufarhöfn, Dagverðareyri, Djúpuvík og Höfn svo fáeinir staðir séu nefndir. Þessir staðir fengu aldrei tækifæri til að byggjast upp því öllu fjármagninu var ráðstafað frá Reykjavík til að byggja upp heilbrigðiskerfi, menntastofnanir og stjórnsýslubatterý - nánast allt í Reykjavík! Hefði t.d. Siglufjörður fengið að halda einhverju af skatttekjunum sem urðu til þar er ansi hætt við að umhverfið þar væri töluvert annað en það er í dag. Landsbyggðin var arðrænd áratugum saman með sérstökum veltuskatti á fyrirtæki (aðstöðugjald) sem allur fór beint til Reykjavíkurborgar - REYKJAVÍKURBORG skattlagði beinlínis landsbyggðina! Kannski kominn sé tími til að snúa þessu aðeins við og skila einhverju af þessum peningum aftur.