Ég er fantasíu stelpa.
Ég fíla Hringadróttinssögu, Harry Potter, Hróa Hött, Arthur konung, Excalibur og Merlin, miðaldasögur, gríska og norræna goðafræði, 1001 nótt og svo framvegis og svo framvegis.
Ég mála fantasíumyndir, les fantasíu eða sagnfræðilegar bókmenntir, spila D&D og fantasíu eða miðaldatölvuleiki.
Á veggjum vinkvenna minn hanga myndir af eplum eða fjöllum. Hjá mér hanga myndir af grískum, norrænum og egypskum guðum, riddurum og íturvöxnum stúlkum í vandræðum.
Á hillum vinkvenna minna eru styttur af kisum eða fuglum. Hjá mér eru styttur af drekum og einhyrningum.
Auðvitað er þetta ekki það eina sem ég geri – en það verður að viðurkennast að þessi áhugi minn er stór hluti af því hver ég er.
Þegar ég verð orðin stór langar mig að búa í kastala, segi ég stundum við sjálfa mig.
(vill taka það fram að ég verð vonandi ekkert stærri er orðin þrítug og fullvaxta svo ég vill ekki vera að vaxa í aðrar áttir)
Mig langar að eiga herklæði til uppstillingar, skildi með ættarmerkjum á og sverð !
Ég elska sverð. Mér finnst þau vera stórglæsilegir listgripir. Slíðrin og handföngin á sverðum geta verið snilldar vel gerð og sverðið sjálft oft með fögrum útskurði.
Fyrir nokkrum árum þegar ég var stödd út í Ítalíu sá ég hvert skrautsverðið á fætur öðru sem mig langaði að eignast og ég lofað mér því að ég skyldi ekki fara aftur til Evrópu án þess að vera búin að útvega mér leifi til að mega kaupa mér sverð og flytja það heim.
Því eins og flestir vita hljóma vopnalögin á Íslandi á þann veg að það má ekki eiga eggvopn sem er lengra en 12 cm nema ef það er eldhúsáhald.
Fáránleg lög að mínu mati – en lög engu að síður og verandi löghlýðin manneskja þá vildi ég ekki fara að smygla inn svona “vopni” heldur taldi best að reyna að fá sérstakt leifi.
Svo ég dreif mig til einn góðan veðurdag og hafði samband við yfirlögregluþjón í ríkislögreglunni sem ég kannaðist við og spurði hann hvernig ég bæri mig að við að redda mér safnaraleifi.
Hann vísaði mér á annan mann sem sér víst um þessi mál.
Sá maður sagði mér að það væri ekki hægt að fá nein leifi til að flytja inn svona sverð !
Ég gapti !
Hann sagði mér að einu sverðin eða hnífarnir sem hægt væri að fá undanþágu með, væru forngripir sem þyrftu að vera meira en 100 ára gamlir og vottaðir af sérstökum aðilum um að þeir væru í raun forngripir.
Ég gapti enn meir !
“En, en , en …” stamaði ég, “ ég er góð og löghlýðin persóna og það er ekki eins og ég ætli að drepa einhvern með 1,3 metra háa 20 kg sverðinu mínu sem er þar að auki bitlaust, vegna þess að það er bara skrautgripur til að hengja upp á vegg.”
“Það er alveg sama ! “ svaraði maðurinn. “Það er t.d. alltaf hægt að brýna þessi sverð.”
“En ég ætla ekki að gera það “ svaraði ég, “þetta er bara mitt áhugamál, svona gamaldags dót.”
“Skiptir ekki – lögin eru skýr, ekkert eggvopn lengra en 12 cm.” Sagði hann ákveðinn
Nú var ég farin að vera pirruð og ákvað að spyrja hann af hverju lögin væru svona heimskuleg, af hverju ég gæti ekki sýnt fram á með hreinu sakavottorði og meðmælum eða jafnvel farið á eitthvað námskeið eða próf og sannað þannig að ég væri ábyrg manneskja sem ætlaði bara að nota þetta sem skraut en ekki til að ganga berserksgang um miðbæinn og drepa mann og annan eins og Egill Skallagrímsson.
Hann kom þá með einhverja ræðu um að það væri svo erfitt að gera greinarmun á hverjir væru að hugsa þetta svona sem skrautmun og hverjir ætluðu að nota þetta sem vopn, því smekkur fólks er misjafn og kannski þykir einhverjum fallegt að hafa t.d. hnúajárn sem skrautmun (sem er bannað á Íslandi líka).
Ég var ekki sátt og benti honum á að fólk má eiga byssur ef það bara stenst einhver próf og fær meðmælendur, og ekki nóg með það að fólk má eiga skammbyssur og hríðskotabyssur og alla vega hættulegri drápstól en eggvopn, bara ef það væri búið að vera með byssuleifið sitt nógu lengi (1 ár skammbyssa, 5 ár aðrar byssur með söfnunargildi)og væri í skotfélagi.
Hann bara yppti öxlum (eða ég býst við því, við vorum auðvitað að tala í síma svo ég sá það ekki), og sagði að svona væri þetta bara og hann gæti ekkert í þessu gert.
En augljóst var á þessu samtali að hann taldi líka að svona ætti þetta að vera, og ekkert múður.
Ég meira að segja reyndi að benda honum á að það væri hægt að kaupa sér sverð í ÖLLUM öðrum löndum Evrópu, en hann tók bara lítið í það og svaraði að hann hefði einmitt verið á einhverri Evrópskri lögregluráðstefnu nýlega og þar hefðu hinar löggurnar öfundað hann svo mikið að svona eggvopn skildu vera bönnuð á Íslandi.
Þetta var semsagt “lost case” hjá mér frá upphafi.
Það eru ekki gerðar neinar undantekningar og saklausar prúðar stelpur eins og ég eiga erfiðara með að eignast rómantíska eftirlíkingu af Excalibur, heldur en dæmdur glæpamaður hefur á að eignast skammbyssu.
En eins og allir vita þá er nú stórhættulegt að láta 20 kg bitlaust skrautsverð í hendurnar á lítilli aumri tölvunördastelpu, það bíður nú bara upp á að breyta henni í axarmorðingja, fyrirgefið þið ég meina sverðamorðingja !
Og ef ég ætti nú þetta sverð og myndi reiðast einhverjum í geðveikiskasti eða ölæði og vilja þann aðila feigann ekki seinna en í gær, þá vitum við auðvitað öll að ég myndi frekar hoppa upp í sófa rífa niður sverðið af vegginum, bera það yfir höfuð mér og höggva manninn í tvennt, (þ.e. að því gefnu að ég gæti sveiflað sverðinu og ekki slasað sjálfa mig fyrst) heldur en að rjúka inn í eldhús og taka stóra beitta kjöthnífinn og nota hann til verksins.
Það sér það nú hver heilvita maður – er það ekki ?