Ég er alveg hneykslaður á því hversu mörg ung fólk í dag eyða peningum í óþarfa hluti án þess að spara á sama tíma. Auðvitað er hægt að segja þetta um alla aldurshópa en samt er eins og það sé óvenju mikið hjá ungu fólki sem gerir ekkert fyrr en þau læra af reynslunni í erfiðum aðstæðum að taka lán út og suður og borga svo stóran bolta af vöxtum! Líka mikilvægara þegar maður er ungur því það hefur áhrif á öll fjármálin í framtíðinni sérstaklega þegar fólk tekur lán eða fær sér kreditkort og ráða ekki við það.
Ég sem er að verða 18 ára tek mjög augljóslega eftir þessu hjá fólki á mínum aldri og jafnvel 5 árum eldri. Hvort sem það séu ættingjar, bekkjarfélagar, vinnufélagar eða vinir. T.d. eru flestir sem vinna með mér í sumarvinnunni að eyða peningunum bara strax eftir útborgun, næst þegar þau fá útborgað þá eiga þau ekki krónu eftir (búa samt flest held ég en þá hjá foreldrum sínum). Og í hverju er eytt ? Jú bíó, bíl, djamm, áfengi og/eða tóbak, meira djamm, flottari bíl, djammferð til London og nýjustu tískufötin.
Ekki misskilja mig samt ég er ekkert á móti því að fólk skemmti sér og lifi lífinu. En flest er betra í hófi og þá sérstaklega þegar fólk er ekki að borga krónu heim til foreldrana eða inn á sparireikning. Fólk í dag er bara virkilega ekki að átta sig á því hvað við höfum marga og góða möguleika hérna á Íslandi miða við 80% þjóða í heiminum þar sem flestir/allir íbúar búa við fátækt.
Margir herma óbeint eftir eldri ættingjum og þá sérstaklega foreldrum en ég hef mín eigin vandamál og vil ekki fara að bæta t.d. slæmum fjármálum ofan á það. Ég sé hvaða mistök foreldrar og systkini hafa gert og læri í gegnum þau hvað ætti að gera og hvað ekki, í stað þess að falla í sama munstur eins og margir aðrir. Ég vil ekki verða gjaldþrota nokkrum árum eftir skilnað eins og móðir mín, ég vil ekki eyða öllum mínum pening í áfengi og utanlandsferðir eins og faðir minn, og ég vil ekki eyða öllum mínum pening í maka, bíl og bensín eins og bróðir minn.
Ég hef ákveðið nú 17 ára gamall að ég ætla að fara vel með peninga og spara peninga til þess að vera í góðum málum í framtíðinni og þá sérstaklega t.d. á elliárunum eða þegar allt er dýrt vegna verðbólgu. Ég er t.d. í dag byrjaður að safna fyrir íbúð með því að stofna reikning sem ég get ekki tekið út af fyrr en eftir 36 mánuði (3 ár), í sumar legg ég helming af laununum mínum á þann reikning og verð þá kominn með rúmlega 100 þúsund og mun ég endurtaka það árið 2004 og 2005, einnig leggja inn vissa % af launum sem ég fæ úr hlutastarfi með skólanum. Ég vil nefnilega flytja að heiman stuttu eftir að ég klára framhaldsskóla í stað þess að vera heima hjá hótel mömmu og ekki eiga krónu langt yfir tvítugsaldurinn eins og svo margir í dag.
Eftir það þá er kominn “hluti 2” af sparnaði en þá get ég haldið áfram að leggja inn sömu % en þá bara í eitthvað annað. Ég vil t.d. safna fyrir utanlandsferðum en ekki bara mæta upp á flugvöll með kreditkort eins og svo margir hafa gert. Get jafnvel haft 2 reikninga þá eða einn sem ég safna á og tek út af á 1-2 árs fresti, eða semsagt fyrir utanlandsferð og byrja svo strax að leggja inn á fyrir næstu þegar ég kem heim. Og svo annan reikning þar sem ég legg inn á langt fram í tímann ef það skyldi koma erfið verðbólga eða þegar ég hætti að vinna. Ég er samt ekkert að tala um eitthvað rosalega mikinn pening enda er ég langt frá því að vera með nóg af pening til þess að eyða í hvað sem er, en víst margir geta eytt reglulega í t.d. reykingar þá ætti ég alveg að geta lagt inn reglulega upphæðir í sparnað.
Vil hvetja ungt fólk til þess að kíkja út í næsta banka og kíkja á alla þá möguleika sem eru í boði. Þeir hafa alveg sér flokk yfir viðskipti sem þeir kalla “Sparnaðarleiðir” og er hægt að velja það sem hentar manni sjálfum best. Mitt mottó er það að ef þú ert nógu “ríkur” til þess að eyða í óþarfa hluti eins og reykingar/djamm þá ættirðu líka að geta sparað pening fyrir framtíðina.
Með von um betri framtíð Íslendinga, kveðja Geiri.