Í fyrra (ég bý ekki í Reykjavík) þá fór ég á Pizza Hut (Sprengisandi) og ætlaði að taka með mér pizzu. Klukkan var 5-6 mín fyrir auglýstan opnunartíma en ég fékk neitun og var sagt að það væri búið að loka. Ég benti á að klukkan væri ekki orðin, en fékk bara hálfgerðan hreiting til baka um að það væri bara búið að loka og það væri ekkert við því að gera.
Ég lét þetta ekki á mig fá og fór bara á Select og hélt nú að þetta kæmi ekkert fyrir aftur hjá Hut.
En núna um daginn var ég í Rvk með vinafólki mínu og við ákváðum að fara á Hut, ég hringdi og ætlaði að athuga hvenær það lokaði. Það svaraði ekki, ég hringdi aftur, en það svaraði ekki. Ég hugsaði nú með mér að það gæti ekkert verið búið að loka og við fórum á staðinn (Sprengisand) en okkur var sagt að það væri búið að loka, ég leit þá á hurðina og sá að það var ennþá 5 mín. þangað til að það ætti að loka skv. því sem stóð þar. Ég varð svolítið pirraður á því að þetta skyldi koma fyrir tvisvar í röð hjá mér á sama staðnum.
Daginn eftir vorum við í Smáralind og við ákváðum að fara á Hut þar. Allt í góðu, við biðum eftir þjóni sem tók bara venjulegan tíma og allt í góðu með það. En mér fannst hún ekki alveg nægilega kurteis. Hún var ekki dónaleg, hún var bara ekki heldur kurteis. Ég vil ekki hljóma eins og einhver uppi, en mér finnst að þjónar eigi að vera kurteisin uppmáluð.
Við pöntuðum forrétt. Svo kom pizzan og enginn var forrétturinn. Við báðum um að fá forréttinn okkar bara um leið og mögulegt var, ekkert mál, en við fengum minni skammt en það sem við pöntuðum og báðum um að fá bara það sem vantaði upp á en fengum aðeins meira sem var bara mjög almennilegt af þeim. Samt sem áður var ekki beðist afsökunar á mistökunum.
Á næsta borði við hliðina heyrðum við tvo menn tala saman um hversu ömurlegur þessi staður væri og þeir ætluðu aldrei aftur að koma þangað. Ég veit nú samt sem áður ekki hvað kom uppá hjá þeim, heyrði þá bara segja þetta.
Þegar við ætluðum að borga þá fórum við fram á að fá forréttinn okkar frítt (tvö af okkur vinnum á veitingastað sjálf og hefðum afgreitt þetta svoleiðis). Þjónustustúlkan sagðist ekki meiga bara núlla og gefa mat, en hún bauð okkur afslátt, við sögðumst aftur vilja bara einfaldlega fá forréttinn frítt, en hún bara kom sér undan því að svara og sagði okkur verðið. Við héldum að hún hefði alveg lágmark gefið okkur afslátt svo við borguðum en vorum samt sem áður frekar pirruð yfir því.
Ég bað um að fá kvittunina, skoðaði hana og tók eftir því að hún hafði sko ekki gefið okkur neinn afslátt. Ég ætlaði ekki að trúa þessu og rölti til baka og benti henni á þetta og hún sagði bara ‘ó, vilduði svo fá afsláttinn?’ (eins og einhver heimsk ljóska) Ég játti því auðvitað en sagðist nú eiga skilið að fá þetta borgað til baka, hún sagðist bara ekkert geta tekið úr kassanum. Það endaði með því að ég fékk að tala við yfirmann og fékk borgað til baka en þessi yfirmaður var sko aldeilis ekki sáttur við það að þurfa að borga mér til baka.
Það sem málið er að ég vinn á veitingastað sjálfur og geri kröfur þegar ég fer sjálfur út að borða. Maður á heldur aldrei að láta kúnnan fara óánægðan út. Frekar á maður að gefa honum allan matinn og gjafabréf með ef þess þarf. Svo þegar auglýstur opnunartími er ekki liðinn þá er ennþá opið! Maður vísar ekki frá gestum bara vegna þess að maður vill komast fyrr heim. Ég veit alveg hversu leiðinlegt það er þegar kúnnar koma inn svona snemma. Svo SVARAR maður í símann þegar hann hringir þó að það sé stutt í að það loki!
En eitt í viðbót sem má bæta á þessum stað er að þjónarnir voru bara í einhverjum buxum, í staðinn fyrir að vera t.d. allir í svörtum buxum sem er mun svona … æi, það gefur bara betra yfirbragð en það er annað mál.
En samt sem áður finnst mér maturinn á Hut mjög góður en því miður þá er þjónustan bara yfir höfuð alveg hræðileg. Þegar maður er að vinna við að þjónusta fólki þá á maður alltaf að hafa það í huga að kúnninn segir alltaf frá reynslu sinni. Ef hann er óánægður þá segir hann að meðaltali tæplega 70 manns (minnir mig) en ef kúnninn fer ánægður þá segir hann einungis að meðaltali 8 manns (minnir mig einnig). Svo maður spyr sig, hvort er betra? 8 sem heyra góða sögu, eða 70 sem heyra slæma sögu?