Jæja, ég lét til leiðast og skráði mig á Huga!
Strætó á Íslandi hefur mér alltaf fundist svolítið furðulegt fyrirbæri, þó enn frekar eftir að ég fluttist til Kaupmannahafnar. Ég bjó til skamms tíma bíllaus í Reykjavík, aldrei á minni lífsfæddri ævi hef ég lent í annari eins einangrun! Tíminn sem fór í minniháttar ferðalög gerði það að verkum að ég gafst upp á að fara nokkuð, endaði á að ganga megnið af því sem ég þurfti að fara en aðallega hírðist ég bara heima. Ástæðan: Strætó! Ég skildi bara engan veginn hvernig hægt var að setja upp kerfi þar sem allir vagnarnir virtust ganga sömu leiðirnar þó þeir hefðu mismunandi númer.
Eins gat ég aldrei skilið að það var enginn vagn sem ég gat tekið beint úr Grafarvogi yfir í Kópavog, eða úr Grafarvogi niður í Vesturbæinn. Allir vagnarnir virtust hins vegar þurfa að stoppa á bæði Hlemmi og Lækjartorgi, alveg óháð því hvaðan þeir voru að koma eða hvert þeir voru að fara.
Ef ég skoða leiðarkerfið í dag (www.bus.is) sé ég að þetta hefur breyst lítillega en enn virðist ekki hægt að fara með vagni þessar tvær leiðir sem ég þurfti að fara. Stærstur hluti vagnanna stoppar enn á Lækjartorgi og að minnsta kosti 10 leiðir liggja eftir Miklubrautinni. 7 vagnar keyra eftir Suðurlandsbraut og Laugarvegi og 8 vagnar fara eftir Reykjanessbrautinni upp að Mjódd.
Hins vegar keyrir ekki einn einasti vagn um Þingholtin og tveir vagnar um allan Garðabæ, nokkrir keyra reyndar þar í gegn en alls ekkert um bæinn. Svo er mikið af vögnum sem eru að keyra nákvæmlega sömu leiðirnar um hverfin, t.d. fara 14 og 15 nákvæmlega sömu leiðina um Grafarvoginn, 115 fer aðra leið en mikið af sömu stoppunum samt sem áður.
Vagnar númer 10 og 11 eru svo fullkomlega samvaxnir að það er fáránlegt - sennilega er þetta sami vagninn sem fær mismunandi númer eftir því í hvora áttina hann er að fara sem væri vissulega enn heimskulegra en að hann héldi bara sínu númeri.
Það er enginn vagn sem keyrir í gegnum Laugarneshverfið og fer eitthvað annað en niður á Lækjartorg nema númer 4 en skv. korti bus.is skerst leið hans hvergi við leiðir 2 og 5 sem fara um Laugarneshverfið og niður á Lækjartorg fyrr en komið er niðurundir Hlemm.
Vissulega spilar heimskulegt gatnakerfi inn í þessa vitleysu í leiðakerfum, það er bara ekki hægt að keyra um neitt af hverfunum á Stór-Reykjavíkursvæðinu vegna þess að allar götur þurfa orðið að vera botnlangar.
Afköst kerfisins eru furðulega léleg miðað við að allir vagnar keyra sömu leiðir en nýting þeirra verður aldrei góð vegna þess hve Höfuðborgarsvæðið er dreifbýlt. Einhvern tíma las ég að til að almenningssamgöngur gætu gengið þyrfti þéttleiki byggðar að vera ca. 75 íbúar á hektara, á Höfuðborgarsvæðinu er þessi tala víst nær 25 á hektara! Það er furðulegt til þess að hugsa að Kaupmannahöfn með sínar 2 milljónir íbúa er svipuð að flatarmáli og Höfuðborgarsvæðið. Það tekur álíka langan tíma að keyra út í úthverfi í Köben og tekur að keyra frá miðbænum í Reykjavík og yfir í Hafnarfjörð.
Samt sýnist mér á öllu að eitthvað sé að batna hjá Strætó í annarri þjónustu, t.d. er hægt að nota vefsíðuna (www.bus.is) til að finna út hvaða leiðir þú átt að nota til að fara á milli staða (með undantekningum þó).
Í Kaupmannahöfn er enn hægt að borga með t.d. 100 DKK og fá til baka. Kaupmannahöfn (eins og Danmörk allri) er skipt upp í svæði (zoner) og kosta tvö svæði 15DKK sem er lágmark. Hins vegar geturðu notað þennan miða í alla vagna og allar lestar á þessum tveimur svæðum í heilan tíma. Tíminn lengist svo ef keypt eru fleiri svæði.
Kannski Strætó ætti að huga að álíka kerfi, að farþegar geti notað saman miðann alla leið - ekki lenda í að þurfa að borga í einn vagn, fá skiptimiða til að nota í næsta og síðan borga í þann þriðja. Þetta er vel möguleiki að geti gerst. Ef maður þarf t.d. að fara frá Korpúlfsstöðum yfir á Ásvelli í Hafnarfirði er ekki hægt að fara með minna en 3 vögnum. Ég ætlaði að athuga hversu langan tíma þetta tæki en því miður þekkir kerfi www.bus.is hvorki Ásvelli né Korpúlfsstaði og því ekki hægt að komast að því :(
Látum þetta duga í bili.