Eftirfylgjandi grein er á mbl.is
Feministafélag Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem lýst er furðu á dómsorðum Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Kristjáns Viðars Júlíussonar er hann var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir tilraunir til manndráps.
“Dómurinn virti honum til refsilækkunar að fórnarlamb hans hefði vísvitandi reitt hann til reiði. Hrottalegar líkamsmeiðingar af því tagi sem áttu sér stað í þessu máli gegn fyrrum sambýliskonu geta aldrei talist eðlilegar afleiðingar reiði að mati Feministafélags Íslands og eru aldrei réttlætanlegar. Þar ber sá alla ábyrgð sem fremur verknaðinn.
Ofbeldi gegn konum er alþjóðlegt vandamál sem taka þarf á með öllum tiltækum ráðum en þar með taldir eru réttlátir dómar. Sameinuðu þjóðirnar hafa gert samning um að kveða skuli niður ofbeldi gegn konum sem er sértækur og afdrifaríkur vandi sem á rætur í þeirri kynbundnu mismunun og óréttlæti sem konur hafa verið beittar um aldir. Þau skilaboð sem Héraðsdómur Reykjavíkur er að senda frá sér fela í sér að þau mál geti komið upp sem réttlæta að karlmenn gangi í skrokk á konum. Feministafélag Íslands mótmælir slíkum hugmyndum. Þær stríða gegn almennum mannréttindum og þeirri kröfu kvenna að fá að lifa við öryggi og án ofbeldis, alltaf og alls staðar,” segir í ályktuninni.
Fyrst ætla ég að segja að þetta er ekki grein um feminista;))
Í raun er þetta athyglisverð spurning “Réttlætir reiði ofbeldi gagnvart konum?”
Í rauninni er ég mjög sammála feminístafélaginu að þótt að konan vísvitandi reitti karlmanninn til reiði, þá hafði hann ekkert leyfi til að berja konuna nærri því til ólífis.
Er það eitthvað í þessum heimi sem réttlætir ofbeldi?
Oft grípur fólk til þeirra afsökunar að það gat ekki haft stjórn á sér, var drukkið eða í vímu sem kom því til að skaða aðra.
Mér finnst það vera leiðinlegustu afsakanir sem fólk grípur til. Það er ENGIN afsökun að hafa verið drukkinn þegar maður lamdi strákinn fyrir að horfa á sig eða hafa verið í vímu og klesst á annan bíl og drepið einhvern.
Þetta snýst allt um sjálfsstjórn, að mínu mati getur maður alltaf haldið sinni stjórn sama hve maður er fullur, jú jú það getur verið að maður hafi enga vitund þegar maður er í vímu en maður hefði átt að hafa sjálfsstjórn áður en maður tók þessi efni og hugsa um afleiðingar gjörða sinna, hvað gæti gerst ef að maður tæki þau.
Ég vona að það komi góð umræða um þessi mál.