Ég hef svolítið verið að lesa í Mogganum nýverið um gamalt fólk í umferðinni. Þetta byrjaði allt þegar Sonja nokkur ákvað að nú væri hún orðin of gömul til þess að aka um vegi borgarinnar og lagði inn ökuskírtenið sitt. Hún skrifaði grein í Morgunblaðið í kjölfarið og hvatti aðra eldri borgara að gera slíkt hið sama. Einnig stakk hún upp á því að ökuhæfni gamals fólks yrði athuguð reglulega þegar þau hefðu náð vissum aldri.
Upp á síðkastið hafa verið sendar inn amk tvær greinar í Moggann þar sem er svoleiðis verið að ausa skammyrðum yfir aumingja Sonju og hennar ákvörðun um að hætta að keyra sögð vera hennar mál. Að vissu leiti er þetta hennar mál en ég er ánægður að hún hafi séð að sér og tekið sjálfa sig úr umferð áður en hún var orðin hættuleg.
Einn gamall maður skrifar í Morgunblaðið og er brjálaður yfir því að Sonja hafi svo mikið sem stungið upp á því að það þurfi að kanna aksturshæfileika hjá gömlu fólki. Hann segir að hann hafi keyrt í 60 ár og viti því alveg hvað hann er að gera.
Mér finnst þetta svolítið sorglegt að þegar gömul kona sér að sér og hættir að keyra, þá sé hún bara krossfest af öðru gömlu fólki sem þráir ekkert meira heldur en að aka; undir hámarkshraða, yfir rauð ljós, vanvirða stöðvunarskyldur og sjá ekki einstefnuskilti út um alla borg. Þetta gamla fólk sem neitar að hætta að keyra af því það heldur að það sjái alveg nógu vel eða að viðbragðið sé alveg jafn gott, er alveg jafn hættulegt og “töffararnir” sem eru að keyra um á tvöföldum hámarkshraða.
Sú staðreynd að gamalt fólk hafi tengst svo mikið dauðsföllum í umferðinni í fyrra ættu að vera skýr skilaboð. Gamalt fólk er kannski ekkert hættulegasta fólkið í umferðinni, en það stafar augljóslega mikil hætta af þeim. Og auðvitað þá alls ekki af þeim öllum, en með því að tjékka reglulega á hvort þau geti ennþá virkað í umferðinni, og taka þau úr umferð sem ekki gera það, ætti að minnka hættuna sem stafar af þeim. Af hverju er gamla fólkið að streitast svona mikið á móti því að ökuhæfileikar þeirra séu kannaðir ef það er svona frábært í umferðinni?