Eftirfarandi lagagrein er í gildi á Íslandi í dag:
<b>7. gr.</b> Hvers konar auglýsingar á tóbaki og reykfærum eru bannaðar hér á landi. Þetta nær þó ekki til auglýsinga í ritum sem út eru gefin utan lands af erlendum aðilum á erlendum tungumálum, enda sé megintilgangur þeirra ekki að auglýsa slíkar vörur. Þrátt fyrir það er Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins heimilt að gefa út verðskrá fyrir tóbak og birta skrá yfir skaðleg efni í tóbaksvörum.
- Bannað er enn fremur að sýna neyslu eða hvers konar meðferð tóbaks eða reykfæra í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu og í myndskreytingu á varningi.
- Með auglýsingum er í lögum þessum m.a. átt við:
1. hvers konar tilkynningar til almennings eða sérstakra markhópa, þar á meðal vörukynningar, útstillingar í gluggum verslana, hvers konar skilti og svipaðan búnað,
2. alla notkun hefðbundinna tóbaksvörumerkja (heita og auðkenna) eða hluta þeirra; undanskildar eru þó vörur sem framleiddar eru undir slíkum merkjum, enda gilda auglýsingatakmarkanir laganna um þær að öðru leyti,
3. hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra,
4. dreifingu vörusýna til neytenda.
<a href="http://www.althingi.is/lagas/128b/2002006.html#G 7“>#</a>
Þetta er fræg lagagrein, 7.lagagrein úr lögum um tóbaksvarnir frá 2002. Frægðin kemur fyrst og fremst til vegna 3.liðar sem bannar ”hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir [tóbaks og reykfæra] til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra“.
Viðurlögin eru ekki af verri endanum:
<b>19. gr.</b> Brot gegn ákvæðum 6. og 7. gr. eða reglum sem settar eru á grundvelli þessara laga og tengjast þeim greinum varða sektum en fangelsi allt að tveimur árum séu sakir miklar eða brot ítrekað.
Ég gæti sem sagt átt von á sektum og fangelsi ef ég voga mér að tala um tóbak í fjölmiðlum öðruvísi en að vara sérstaklega við neyslu þess.
Stjórnarskráin segir:
<b>73. gr.</b> [Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.
- Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.
- Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.]
<a href=”http://www.althingi.is/lagas/128b/1944033.html“ >#</a>
Flestir eru eflaust sammála því að á Íslandi eigi að ríkja tjáningarfrelsi. Einnig fallast flestir á það að tóbak er mjög skaðlegt heilsunni. Ég sé hins vegar enga sanngirni í því að takmarka stjórnarskrárbundið tjáningarfrelsi með lögum og hóta sektum og fangelsisvist ef umræða um tóbak þóknast ekki löggjafarvaldinu! Jafnvel þótt það sé til ”verndar heilsu" manna, enda býður sú klausa stjórnarskráarinnar upp á takmarkalausa skerðingu á tjáningarfrelsinu.
Af hverju er ólöglegt fyrir mig að segja að það sé mjög gott að setja tóbak í vör og slappa af? Eða að hrósa stórum og feitum vindli eftir vel útilátna máltíð í góðra vina hópi? Ég gæti jafnvel byrjað að hrósa sígarettureykingum í tíma og ótíma og jafnvel talað gegn sannfæringu minni, af því mig langar til þess! Af hverju má ég það ekki? Af hverju má ég tala vel um feitt slátur sem stíflar kransæðarnar mínar, en ekki tóbaksreyk? Fyrir þessu hef ég ekki heyrt nein sanngirnisrök og það eina sem virðist rökstyðja þessi fasistalög er sú skoðun Alþingismanna, og sumra sem skrifa á þennan vef, að fólk sé heilalaus skríll sem láti táldragast af öllu sem flaggað er framan í það. Ég fellst ekki á slík rök.
Menn skaða heilsu sína með ýmsu móti. Sumir stunda fallhlífarstökk, aðrir stunda fótbolta, enn aðrir reykja og svo eru það þeir sem borða feitan mat samhliða því að fá fyrir hjartað. Þessi sjálfseyðingarhvöt mannsins er til staðar og verður til staðar, hvort sem það er löglegt eða ekki. Erum við eitthvað betur sett með því að gera venjulegt fólk að glæpamönnum í viðleitni til að vernda það? Getum við bannað alla óholla iðju með lögum? Erum við ekki farin að gefa stjórnvöldum aðeins of mikið svigrúm til að skerða frelsi okkar? Frelsið glatast aldrei allt í einu, eins og einhver sagði, og við þurfum að passa okkur á því að missa ekki tjáningarfrelsið, okkur sjálfum til verndar!
Gott er tóbaki að troða,
tranir í og takí nef.
Ef skríllinn vill sér fara að voða,
þá vonlaust er að banna kvef.