Ég er svolítið hrifinn af hugmyndinni um her. Það sem er best við það er að það þarf ekki einu sinni að kosta nein ósköp. Við getum bara haft það sem fyrir er.
Helsti og jafnframt eini kosturinn við her er sá að þá væri hægt að skapa fullt af virðulegum yfirstjórnunarstöðum og þá verður hægt að setja afdankaða pólitíkusa í þær stöður í staðinn fyrir að gera þá að yfirmönnum yfir stofnunum sem þeir hafa ekkert vit á og eru einungis til vansa (S.Í. er gott dæmi). Að sama skapi væri kannske hægt að stofna svosum eins og einn lítinn herflokk þar sem hægt væri að sópa saman gagnlausum eymingjum með vopnafetish. Það er gott að halda svoleiðis fólki á einum stað held ég, þó finnst mér skynsamlegra að vopna þá með vatnsbyssum í stað venjulegra vopna, það er öruggara fyrir þá sjálfa held ég. Alla vegana skárra að halda þeim í her, fasta á herstöð en að horfa upp á þá lenda í endalausum slagsmálum niðri í bæ.
Varðandi einhverjar ímyndaðar ógnir gagnvart heimsveldinu Íslandi, þá er nú erfitt að taka slíkt alvarlega, nema þá að Færeyjar geri innrás. Varðandi hryðjuverkaprumpmenn eða glæpagengisógnir þá efast ég að það réttlæti nokkur fjárútlát til að takast á við slíkar ólíkindaógnir, það væri svona eins og að setja upp net eldingarvarna út um allt land með 10 m millibili, af því fræðilega mögulega er sjens á því að einhver gæti orðið fyrir eldingu og dáið. O nei, slík rök eru öll máttlítil, sérstaklega í samanburði við þau rök að her gæti verið samanstaður úreltra pólitíkusa og ónytjunga sem finnst gaman af byssó.
Varðandi skipulag hersins, yrði það, eins og ég segi, afar ódýr. Eina nýjungin væri herflokkur ónytjunga sem ég minntist á. Hægt væri að breyta t.d. landhelgisgæslunni í Flota hins íslenska lýðveldis, með fullt af flottum stöðum með tilheyrandi flottum búningum. Það væri t.d. hægt að losna við Björn Bjarnason og gera hann að yfiraðmírál yfir varðskipinu Tý, hann ætti nú að fá kikk úr því, að fá að vera í fínum búningi með fullt af medalíum. Nú síðan væri hægt að búa til flugher úr flugbjörgunarsveitinni og flugvélar Landgræðslunnar og Flugmálastjórnar. Ég get vel ímyndað mér fá t.d. Sturla Böðvarsson sem flugmarskálk yfir lýðveldinu. Það eitt að hann hyrfi úr pólitík er nóg til að réttlæta stofnun hers. Nú síðast en ekki síst yrði gerður landher úr sérsveit löggunnar ásamt herflokki ónytjunga, hægt væri að setja trausta menn eins og Ögmund Jónasar eða jafnvel Össur sem hershöfðingja yfir slíku apparati, kjósi þeir að hætta á annað borð.
Þetta gæti svínvirkað held ég.