Þannig er mál með vexti að ég er að fara að láta ferma dóttur mína og fékk í hausinn reikning að fjárhæð 9.000 fyrir það sem var þóknun prestsins.
Þá spyr ég: Fyrir hvað er íslenska ríkið að greiða þessu fólki laun? Prestar á Íslandi eru hátekjufólk ólíkt því sem gerist víða annarsstaðar. Ríkið greiðir þessu fólki 400-600 þúsund krónur á mánuði hverjum og margir njóta að auki ýmissa fríðinda, eins og lágrar húsaleigu, fatahlunninda og fleira í þeim dúr. Það er hinsvegar svo að þegar einstaklingur óskar eftir þjónustu prests utan þess að hlusta á rausið í honum í kirkjunni, þá þarf að greiða töluvert fyrir það. Þá á ég við skírn, fermingu, giftingu og útfarir.
Er ríkið þá aðeins að greiða prestinum fyrir það eitt að jarma yfir 20 manns í kirkjunni annahvern sunnudag? Ef svo er, þá er þessu fé illa varið.
Ég veit að margir prestar vinna ágætlega fyrir launaum sínum og starfa mikið fyrir söfnuðinn, þetta á kannski sérstaklega við á höfuðborgarsvæðinu. En það eru alls ekki allir sem gera það og ég held að það sé fyllsta ástæða til að skoða hlutverka presta í samfélaginu og hvað þeir í raun leggja að mörkum til þess.